Bandaríkjastjórn tilkynnti í fyrrakvöld að hún hefði fryst styrki frá bandaríska alríkinu til Harvard-háskóla, eftir að stjórn háskólans hafnaði kröfum Hvíta hússins um breytingar á stefnu hans. Styrkirnir nema um 2,2 milljörðum bandaríkjadala, eða sem nemur um 280 milljörðum íslenskra króna.
Stjórnvöld sendu Harvard-háskóla bréf fyrir helgi þar sem útlistaðar voru ýmsar kröfur á hendur háskólanum, en tilgangur þeirra var sagður sá að sporna við gyðingahatri innan háskólans.
Fólu kröfurnar meðal annars í sér breytingar á yfirstjórn háskólans, ráðningarstefnu sem og því hvernig stúdentar væru samþykktir til náms við skólann. Þá átti skólinn að samþykkja óháða rannsókn á námskrá sumra kennslugreina við skólann.
Alan Garber rektor Harvard-háskóla hafnaði kröfunum, og sagði í bréfi til starfsmanna og stúdenta við skólann að ekki kæmi til greina að fórna sjálfstæði háskólans eða stjórnarskrárbundnum réttindum hans. „Engin stjórnvöld – sama hvaða flokkur er við völd – ætti að skipa fyrir um hvað einkaháskólar geta kennt, hvern þeir geta tekið inn í nám eða ráðið, og hvaða námsgreinum og rannsóknum þeir eiga að sinna,“ sagði Garber í bréfi sínu.
Harvard fór ekki varhluta af þeirri mótmælabylgju sem skók bandaríska háskóla síðasta sumar vegna átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs. Sagði Garber að skólinn hefði stigið mörg skref til þess að takast á við gyðingahatur innan skólans og að fleiri slík yrðu stigin.
Viðbrögð á Bandaríkjaþingi við ákvörðun Harvard-háskóla hafa að mestu farið eftir flokkslínum, þar sem helstu forsprakkar demókrata hafa hrósað Garber fyrir bréf sitt en fulltrúar repúblikana fordæmt hann og sakað háskólann um gyðingahatur.