Atvinnuvegaráðherrann Hanna Katrín Friðriksson treystir sér illa í rökræðu um tvöföldun veiðigjalda en fagnaði niðurstöðu Maskínukönnunar um að 75% svarenda telji útgerðina geta borgað meira.
Aðferðarfræðin og gildi svaranna eru þó hæpin; margur hyggur auð í annars garði, eins og stendur í páskaegginu. Má ekki treysta því að næst spyrji ríkisstjórnin þjóðina hvort hún vilji að skattar á hana verði hækkaðir eða lækkaðir?
Í vikunni sagði Rúv. hjálplega að „rétt rúm 80% þjóðarinnar [væru] hlynnt því að útgerðin greiði gjald sem tekur mið af raunverulegu verðmæti afla. Þetta er niðurstaða nýrrar Gallup könnunar sem framkvæmd var fyrir félagasamtökin Þjóðareign“.
Rúv. spurðist þó ekki fyrir um aðalatriðið: hvað þessum 20% sem voru á öðru máli gengi eiginlega til. Nú, eða að fréttastofan kveikti á því að eitthvað væri bogið við aðferðarfræðina, því deilan stendur ljóslega um það hvert er „raunverulegt verðmæti afla“.
Eða spyrði um fyrirspyrjandann, samtökin Þjóðareign, sem eru ekki síður þekkt undir nafninu Þjóðnýting. Af því þau eru ekki þekkt, eru raunar ekki samtök, heldur bara kennitala í skúffu Bolla Héðinssonar, formanns efnahagsnefndar Samfylkingarinnar.