Sigurður Ágúst Finnbogason fæddist í Hafnarfirði 5. júní 1939. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 21. mars 2025.

Foreldrar hans voru Finnbogi Hallsson, f. 25. nóvember 1902, d. 17. nóvember 1988, og Ástveig Súsanna Einarsdóttir, f. 5. júní 1908, d. 5. apríl 1959.

Sigurður var næstyngstur af sex systkinum, en hin eru: Garðar, f. 29. desember 1932, d. 13. desember 2013; Einar Emil, f. 24. febrúar 1934, d. 21. október 2021; Ingveldur Guðrún, f. 6. apríl 1936, d. 1. júlí 2001; Auður Hanna, f. 22. október 1937; Hulda Kolbrún, f. 10. september 1940, d. 27. desember 1999.

Hinn 6. september 1959 kvæntist hann eftirlifandi eiginkonu sinni, Guðríði Einarsdóttur, f. 18. október 1938.

Börn Sigurðar og Guðríðar eru: 1) Einar Bogi, f. 28. júlí 1959, d. 30. júní 2019. Eftirlifandi maki er Kristján Ingi Jónsson, f. 30. nóvember 1957. Fyrrverandi eiginkona er Hjördís Rafnsdóttir, f. 4. september 1960.

Börn þeirra eru Ágúst Rafn, f. 1983, Matthías, f. 1989, og Erna, f. 1993. Börn Ágústs Rafns og Rakelar Guðmundsdóttur eru Alex Breki, Björn Andri, Linda María, Daníel Ágúst og Matthildur Sara. 2) Jóhanna Ríkey, f. 18. september 1960. Maki hennar er Valgerður Ólafsdóttir, f. 17. ágúst 1965. 3) Eva Helleberg, f. 5. október 1967. Fyrrverandi maki er Ólafur Björn Baldursson, f. 30. júlí 1965, d. 24. október 2016. Börn þeirra eru Emil Örn, f. 1991, og Alma María, f. 1998.

Sigurður Ágúst ólst upp í Hafnarfirði. Hann kynntist Guðríði í október 1957 og það leið ekki á löngu þar til þau stofnuðu heimili í Mjósundi í Hafnarfirði.

Hann gerðist húsasmíðameistari og starfaði sem húsasmiður alla tíð, lengst af hjá Sjómannadagsráði. Hann endaði sinn starfsferil sem húsvörður í Hrafnistu Hafnarfirði.

Útförin fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 16. apríl 2025, og hefst athöfnin klukkan 15.

Faðir minn var einstakur maður. Glettinn og oftast brosandi. Hlýr, barngóður og hjálpsamur. Hann var vel liðinn í starfi sem húsasmiður og síðari ár sem húsvörður enda bæði handlaginn og vinnusamur. Stundum áttu hlutirnir helst að gerast í gær.

Fjölskyldumaður fyrst og fremst og sá um sitt fólk. Hann byggði meðal annars sjálfur framtíðarhúsnæði á Þrúðvanginum í Hafnarfirði.

Barngóður var hann með eindæmum. Börn löðuðust að honum. Alltaf var hægt að fara í afarennibraut, feluleik, á hestbak og á háhest. Allir í fjölskyldunni þekkja afaristó sem öll börn fengu. Ristað brauð með miklu smjöri, ostsneið og brotið saman.

Pabba þótti gaman að dansa og það var augnayndi að sjá mömmu og pabba dansa saman. Oft var dansað á stofugólfinu heima og við systkinin dönsuðum líka með. Seinna meir voru þau í „Kátu fólki“, félagsskap þar sem pör dönsuðu saman nokkrum sinnum á ári. Á sumarhátíðum máttu börn félagsmanna vera með og minnist ég þess að pabbi tók þátt í skemmtiatriði, „Kranavatninu“, þar sem hann klæddist tjullpilsi og hárskrauti – þótt hann væri sköllóttur. Mikið var hlegið. Já, það var stutt í grínið.

Pabbi vildi gjarnan vera í náttúrunni og vildi helst bara ferðast um Ísland. Það voru bæði tjaldútilegur og gönguferðir. Seinni ár einnig lax-, rjúpna- og gæsaveiðar. Eggjatínsla á vorin og margar gönguferðir í Hafnarfirði þar sem hann safnaði dósum og rusli. Þó vildi hann gjarnan ferðast til Danmerkur eftir að ég fluttist 1997 til Sönderborgar á Suður-Jótlandi. Mamma og pabbi voru dugleg að heimsækja okkur þegar tækifæri gafst. Það voru gæðastundir. Pabbi vildi líka hjálpa til og hafa eitthvað að gera hjá okkur. Laga lista, hreinsa síur, setja upp hillu o.s.frv.

Pabbi var farinn að huga að endurvinnslu löngu áður en það var almennt. Hann safnaði dósum, mjólkurfernur voru flokkaðar og garðúrgangur og kaffikorgur settur út í moltu. Oftar en ekki var farið á ruslahaugana með rusl og ég fór oft með. Það var nánast undantekning ef eitthvað kom ekki með heim aftur til baka. Stálvaskar, tréplötur, rör o.s.frv. sem annaðhvort gat nýst heima eða endaði hjá vinum og vandamönnum.

Hann var mikill safnari. Frímerki, vindlamerki, flöskumiðar, kort, spilastokkar, umslög, tappar, lyklar, minningargreinar, barmnælur og myntir var eitt af mörgu sem hann safnaði og dundaði sér við. Allt skipulagt og skráð. Einnig dósaflipar sem hann flokkaði og safnaði fyrir hjálparsamtök i Danmörku, „Projekt dåseringe“. Mjög mörg kíló af flipum hafa verið send yfir hafið og þeir bræddir og notaðir til að búa til gervilimi í fátækum löndum eða verðgildi þeirra sem styrkur til sjúkrahúsa. Svona var pabbi. Alltaf að láta gott af sér leiða.

Ég er stolt af að hafa átt þig sem pabba og sem afa barnanna minna. Þín verður sárt saknað. Minning þín lifir.

Þín dóttir,

Eva Helleberg Sigurðardóttir.

Pabbi var mín fyrirmynd og frá því að ég var lítil vildi ég gera allt eins og hann.

Pabbi var húsasmiður og man ég eftir að hafa elt hann með hamar í hendi og blýant á eyranu, alveg eins og hann. Ég ætlaði að verða smiður eins og hann og varð húsgagnasmiður. Pabbi byggði framtíðarheimili fjölskyldunnar í aukavinnu eftir fullan vinnudag. Kom heim, fékk sér að borða og labbaði svo upp í norðurbæ og vann fram á kvöld. Allar helgar fór fjölskyldan saman upp í hús, eins og við kölluðum það, og allir lögðu sitt af mörkum. Ég man svo vel þegar við pabbi slógum upp burðarveggjunum í eldhúsinu og stofunni. Tókum timburborðin saman, sinn endann hvort, og negldum svo og mættumst á miðri leið. Þrjú borð í röð og svo kom járnabindingin og svo koll af kolli. Ég var 10 ára og var að springa úr stolti yfir að geta hjálpað honum. Steypt var í áföngum og timburborðin notuð aftur og aftur. Rifið utan af, naglhreinsað, steypan skafin af timbrinu og svo voru naglarnir réttir og allt notað aftur. Þvílíkir dugnaðarforkar elsku pabbi og mamma.

Í gegnum æskuár mín var oft farið í útilegur. Þegar verið var að byggja var ákveðið að taka helgarfrí og fara með börnin í útilegu. Enginn var bíllinn á heimilinu svo tekinn var strætó frá Sjónarhóli á Reykjavíkurvegi og farið úr við Umferðarmiðstöðina í Reykjavík. Norðurleiðarrútan tekin og farið úr rútunni inni í botni Hvalfjarðar. Allir hjálpuðust að við að bera farangurinn, tjald, svefnpoka, mat, prímus og allt tilheyrandi. Þessari útilegu gleymi ég aldrei, það var svo gaman. Þegar fjölskyldan eignaðist svo fyrsta bílinn var farið í óteljandi bíltúra um helgar út í buskann eða út í bláinn. Á sunnudögum þurftum við að vera komin heim áður en Grenjað á gresjunni (Húsið á sléttunni) byrjaði í sjónvarpinu.

Pabbi og mamma voru miklir dansarar. Á unglingsárunum áttum við Einar Bogi alltaf að vera komin heim um tíuleytið á laugardagskvöldum. Þá voru danslög spiluð í útvarpinu og við dönsuðum öll saman gömlu dansana. Polka, ræl, skottís og vals. Skottís var í miklu uppáhaldi hjá mér. Þessar dansstundir voru yndislegar.

Mér finnst ég hafa unnið í foreldralottóinu. Pabbi var besti pabbi sem hægt var að hugsa sér. Blíður, góður og glaðlyndur. Ég kveð elsku pabba með söknuði og mikilli hlýju.

Jóhanna Ríkey Sigurðardóttir.

Elskulegur tengdafaðir minn er nú látinn eftir snarpa baráttu við alvarleg veikindi. Ég minnist hans með mikilli hlýju og þakklæti fyrir samferðina sl. 35 ár. Siggi var borinn og barnfæddur Gaflari, fæddur í Hafnarfirði og bjó þar alla tíð með Gurru sinni, síðustu rúm 50 árin í litla húsinu sem þau byggðu að Þrúðvangi 7.

Þau Gurra kynntust ung og hófu sinn búskap í Mjósundi í Hafnarfirði. Þau eignuðust Einar Boga í júlí 1959 og Jóhönnu Ríkeyju í september 1960. Þau voru þá komin með tvö lítil börn, rétt 21 árs gömul. Það voru oft erfiðir tímar, Siggi var í meistaraskólanum að læra húsasmíði og vann mjög mikið. Haustið 1967 kom Eva í heiminn. Barnabörnin eru fimm og langafabörnin líka orðin fimm. Hópurinn hans Sigga syrgir hann mjög, hann var alveg einstök barnagæla og elskaði ekkert fremur en að leika við öll börn.

Siggi var snaggaralegur maður, stundaði fimleika af miklum móð í æsku og þótti mjög gaman að dansa. Það var yndislegt að fylgjast með þeim hjónum tjútta og djæfa og svífa um dansgólfið. Og svo heyrði maður sögur af því að sést hefði til Sigga, undir lok starfsævinnar, gangandi á höndum um gangana á Hrafnistu í Hafnarfirði þar sem hann var húsvörður. Þá var hann víst bara að tékka hvort hann gæti þetta enn þá.

Ég kynntist Sigga og Gurru þegar Jóhanna dóttir þeirra kom inn í líf mitt fyrir réttum 35 árum. Það var yndislegt að kynnast þeim samhentu hjónum, það var svo mikill kærleikur og hlýja á heimilinu.

Siggi var á margan hátt á undan sinni samtíð. Hann tíndi upp rusl og flokkaði löngu áður en það varð alsiða. Þau hjón voru með moltu í garðinum, sem ég hafði aldrei séð áður, og báru mikla virðingu fyrir umhverfinu og náttúrunni. Hann naut sín við veiðar og eggjatínslu og þau hjón voru dugleg að fara með fjölskyldunni í útilegur. Þau fóru, fimm manna fjölskyldan, á Volkswagen bjöllu í útilegu um Vestfirðina fyrir um 50 árum. Þá kom í góðar þarfir einstök rýmisgreind og skipulagshæfileikar Sigga sem raðaði farangrinum eftir mestu list í bílinn.

Siggi var alveg einstaklega glaðlyndur maður. Hann gat samt líka verið þrjóskur. Hann þráaðist t.d. mjög lengi við að fá sér heyrnartæki, hafði enga trú á þeirri tækni. Hann lét samt loks undan fyrir þremur árum, eftir að hafa verið með fjölskyldunni hjá Evu um páskana, þar sem allir þurftu eiginlega að æpa til að hann gæti fylgst með. Hann vildi nefnilega fylgjast með því sem allir sögðu og vera með. Það kom berlega í ljós síðustu dagana hans á Landspítalanum; hann átti að vera að hvíla sig en gat ekki hætt að tala við fólkið sitt. Þeir Ágúst Rafn, elsta barnabarnið, horfðu saman á myndband, göngutúr í Hafnarfirði, og Siggi sagði sögur um allar byggingarnar sem sáust, hver hefði byggt hvaða hús o.s.frv. En þegar kallið var komið þá kvaddi hann allt fólkið sitt innilega, lokaði augunum og þagnaði.

Elsku Siggi, ég þakka fyrir alla elskuna sem þú sýndir mér og minni fjölskyldu alla tíð. Ég lofa að halda vel utan um Gurru þína sem syrgir nú lífsförunaut sinn. Blessuð sé minning yndislegs manns.

Valgerður Ólafsdóttir.

Með hjarta úr gulli, óvenjulegt auga fyrir reglu og persónuleika sem var bæði sterkur og ógleymanlegur hefur afi okkar skilið eftir sig djúp spor í lífi okkar. Hann var maður sem sá fegurð í skipulagi, gildi í endurnotkun og gleði í því að hafa áhrif.

Afi var skipulagssnillingur af bestu gerð. Allt sem hægt var að flokka var flokkað og allt sem hægt var að endurnýta var geymt – því hver vissi hvenær það gæti komið að góðum notum? Ef maður spurði hann hvort hann ætti korktappa gat hann sýnt þúsundir. Tréplötur? Jú, hann átti nokkrar, sem höfðu þolinmóðar beðið eftir rétta augnablikinu í mörg ár. En þetta snerist ekki bara um reglu heldur um umhyggju.

Afi lagði hjarta og sál í allt sem hann gerði. Löngu áður en það varð algengt safnaði hann plasti og glerflöskum í náttúrunni, einfaldlega vegna þess að hann gat ekki horft upp á rusl. Og þegar við sögðum honum að dósaflipar gætu verið nýttir til að búa til gervilimi fyrir fátæka varð það nýtt verkefni hans. Hann eyddi óteljandi stundum í að finna þá og safna, flokka og telja – ekki vegna þess að hann þyrfti þess heldur vegna þess að hann vissi að það gæti skipt máli. Svona var afi.

Afi var mjög þrjóskur, stundum dáðumst við að því, stundum var það áskorun, en við vissum að þrjóskan hans spratt af ósveigjanlegum vilja til að gera hlutina rétt. Hann var líka hugulsamur, vingjarnlegur og alltaf tilbúinn að hjálpa. Hann lagði sig fram um að gleðja aðra og elskaði grín og glens. Og hláturinn hans – við munum sakna hans sárt. Það sama gildir um tannlausa brosið hans og alla litlu sérviskuna sem gerði hann að afa okkar.

Hann var öryggistákn í lífi okkar, sem gaf okkur ró og traust. Við vissum að við gætum alltaf reitt okkur á hann. Stundvísi var honum mikilvæg og afi hataði að koma of seint. Pirringur hans var oft undirstrikaður með einkennandi „orrrh“, sem við munum minnast með brosi um ókomin ár.

Afi hafði opinn huga og forvitni og hafði mikinn áhuga á fólki og heiminum í kringum sig. Hann tók á móti alls konar fólki í líf sitt, hlustaði, miðlaði af reynslu sinni og trúði að allir hefðu eitthvað til að leggja af mörkum. Þegar kom að mat var hann örlátur – enginn átti að fara svangur frá borðum, og ekkert mátti fara til spillis. Nema hrísgrjón. Það máttu aðrir sjá um!

En kannski mikilvægast af öllu þá sá hann ástvini sína fyrir hverjir þeir raunverulega voru. Hann sá möguleika þar sem aðrir gerðu það ekki endilega og deildi af örlæti þekkingu sinni á handverki, íþróttum, endurnýtingu og sköpunargleði. Hann byggði húsið að Þrúðvangi 7 sem varð vettvangur óteljandi minninga og aðallega góðra. Þar er gott að vera.

Af var mikilvæg fyrirmynd og maður sem hver sem er gæti verið stoltur af að kalla föður, bróður, afa eða langafa.

Takk fyrir allt, afi. Einstakur og ógleymanlegur persónuleiki þinn mun lifa í hjörtum okkar að eilífu.

Emil Örn Ólafsson og Alma María Ólafsdóttir.