Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Óbyggðanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að krafa ríkisins um að eyjar og sker við landið verði þjóðlendur eigi ekki við rök að styðjast og er vísað í því samhengi til ákvæða í lögbókinni Jónsbók sem leidd var í lög árið 1281. Ákvæðið sem um ræðir er rakið til Grágásar, hinnar fornu lögbókar sem rituð var á þjóðveldisöld.
Rekabálkur Jónsbókar
Um er að ræða lokamálslið 2. kapítula rekabálks Jónsbókar þar sem segir: „Ef sker eður eyjar liggja fyrir landi manns, þá á sá það og reka þann allan er því fylgir er meginland á næst, nema með lögum sé frá komið.“
Telur Óbyggðanefnd fyrrgreint ákvæði enn í fullu gildi hér á landi, þótt leitt hafi verið í lög fyrir margt löngu.
Niðurstaða nefndarinnar kemur fram í álitsgerð sem send var lögmönnum sem eru í fyrirsvari fyrir þá landeigendur sem ríkið sótti að í málinu og krafðist þess að eyjar og sker fyrir þeirra löndum yrðu gerð að þjóðlendum. Hún tekur mið af greinargerð sem Jón Jónsson hæstaréttarlögmaður, lögmaður nokkurra landeigenda, sendi nefndinni og rannsókn hans hefur einnig verið birt í Tímariti Lögréttu.
Ekki tilkall til eyja næst landi
Telur Óbyggðanefnd að ríkið eigi ekki tilkall til þeirra eyja og skerja sem fyrir landi liggja og eru innan tveggja kílómetra fjarlægðar frá fastalandinu, en slíkar eyjar og sker séu hlutar þeirra jarða sem næst liggja, enda mæli aðrar aðstæður ekki gegn því. Þó sé hugsanlegt að eignarréttur þeirra jarða sem hér um ræðir kunni að ná lengra frá landi en tvo kílómetra, en það þarfnist frekari rannsóknar.
„Ég tel þessa afstöðu geta leyst úr 80-90% deilumála hringinn í kringum landið, þ.e. að í 80-90% tilvika liggja eyjar og sker innan við tvo kílómetra frá landi jarðar á meginlandi Íslands. Fyrirséð er að Óbyggðanefnd mun þá hafna kröfu ríkisins,“ segir Jón í samtali við Morgunblaðið.
Telur Jón að þessi niðurstaða þýði í raun að Óbyggðanefnd sé að skora á lögmenn ríkisins að takmarka kröfugerð ríkisins um þjóðlendur. Það standi nú upp á lögmenn íslenska ríkisins að meta hvort ríkið muni endurskoða kröfugerð sína miðað við þessa niðurstöðu Óbyggðanefndar og bendir jafnframt á að ríkið geti sparað sér mörg hundruð milljónir með því að fara að þeirri ábendingu nefndarinnar.