Ódessa Rutte og Selenskí takast í hendur á blaðamannafundinum í gær.
Ódessa Rutte og Selenskí takast í hendur á blaðamannafundinum í gær. — AFP/Forsetaembætti Úkraínu
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði í gær að Úkraínumenn þyrftu að fá send fleiri loftvarnarkerfi og eldflaugar fyrir slík kerfi sem fyrst, en Selenskí fundaði í gær með Mark Rutte framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, sem heimsótti hafnarborgina Ódessa óvænt í gær

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði í gær að Úkraínumenn þyrftu að fá send fleiri loftvarnarkerfi og eldflaugar fyrir slík kerfi sem fyrst, en Selenskí fundaði í gær með Mark Rutte framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, sem heimsótti hafnarborgina Ódessa óvænt í gær.

Rutte fordæmdi í gær Rússa fyrir að beina loftárásum sínum ítrekað gegn óbreyttum borgurum og kallaði það „hrikalegt mynstur“, en leiðtogarnir vísuðu þar báðir til eldflaugaárásar Rússa á borgina Súmí í norðausturhluta Úkraínu, en staðfest er að 35 féllu og 119 særðust þegar Rússar skutu tveimur Iskander-skotflaugum á borgina á pálmasunnudag. Úkraínuher sagðist í gær hafa gert loftárás á bækistöð eldflaugasveitarinnar sem skaut flaugunum á Súmí, en ekki fékkst nánari staðfesting á því í gær.

Rutte sagði í heimsókn sinni til Ódessa í gær að viðræður Bandaríkjastjórnar um vopnahlé væru ekki auðveldar, en að allir styddu friðarviðleitni Trumps Bandaríkjaforseta. Selenskí kallaði hins vegar eftir því að öryggislið Breta, Frakka og annarra ríkja yrði komið á fót sem fyrst, svo að það gæti verið tilbúið til að tryggja það að Rússar hæfu ekki innrás að nýju í Úkraínu eftir að vopnahlé kemst á.

„Bretland, Frakkland og önnur NATO-ríki eru þegar byrjuð að undirbúa jarðveginn fyrir öryggislið í Úkraínu. Það skiptir miklu máli að við séum fljótir og skilvirkir í þessu ferli,“ sagði Selenskí.

Vefsíðan Bloomberg greindi frá því í gær að Bandaríkjastjórn hefði komið í veg fyrir að sjö helstu iðnríki heims gætu sameinast um yfirlýsingu þar sem árás Rússa á Súmí yrði fordæmd. Leiðtogar annarra vestrænna ríkja hafa fordæmt árásina og m.a. sagt hana vera stríðsglæp.

Í frétt Bloomberg kom fram að Bandaríkjamenn hefðu tjáð bandamönnum sínum að þeir vildu reyna að halda opnum öllum möguleikum til þess að semja um frið, en í drögum að yfirlýsingunni sagði meðal annars að árásin sýndi að Rússar væru staðráðnir í að halda ófriðnum áfram.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson