Þórhallur Heimisson
I Flestir lesendur Morgunblaðsins kannast án efa við þessa gömlu kenningu Karls Marx um trúarbrögðin. Fullyrðing hans um að trúin sé ópíum fyrir fólkið hefur löngum verið talin draga saman í einn stað kjarna þess sem hann hafði um trúarbrögðin að segja. Reyndar er þessi kenning ekki sérstaklega marxísk í sjálfu sér. Hana er að finna í ýmsum myndum hjá þýskum heimspekingum 19. aldar eins og Kant, Feuerbach og Heinrich Heine. Þessir sömu heimspekingar túlkuðu fullyrðinguna bæði jákvætt og neikvætt. Að þeirra mati er jákvætt að trúin sem ópíum deyfi sársaukann sem þjáning lífsins gefur og veiti mönnum þannig styrk til að lifa af órétt og illsku. Um leið er það neikvætt að sem ópíum dragi trúin úr mönnum dug til að rísa upp og varpa af sér oki óréttlætis og kúgunar. Marx setti fyrst fram þessa fullyrðingu í ritgerð sem hann skrifaði árið 1844 um kenningar þýska heimspekingsins Hegels. Marx skrifar þar:
„Trúarleg angist er á sama tíma bæði tjáning raunverulegrar angistar og mótmæli gegn raunverulegri angist. Trúarbrögðin eru stuna hinnar kúguðu veru, hjarta hjartalausrar veraldar, á sama hátt og þau eru sál sálarlausrar veraldar. Trúarbrögðin eru ópíum fólksins.“
Marx hafnaði síðan trúarbrögðunum er veittu almenningi að hans mati ímyndaða hamingju og sættu þannig fólkið við óhamingju sína – sem aftur kæmi kúgurunum vel því þeir ættu þá auðveldara með að halda lýðnum niðri. Þannig varð kirkja og átrúnaðar eitt fyrsta fórnarlamb lærisveina Karls Marx eins og sagan sýnir.
II Nú þegar páskar eru að ganga í garð, mesta hátíð kristni og kirkju, er áhugavert að velta fyrir sér hvort fullyrðing Marx eigi við rök að styðjast enn í dag, 181 ári síðar. Í ræðu og riti hafa fulltrúar kirkjunnar í seinni tíð gjarnan hvatt fólk til að huga að hinum mjúku gildum, til innri íhugunar, bæna, kærleika og fyrirgefningar þegar vandi steðjar að í samfélaginu. Við getum kallað það hina mjúku kirkju. Sem er auðvitað gott í sjálfu sér. Því bænin friðar sálina og stillir hugann og hjálpar mönnum að lifa af órétt og upplausn. Orð friðarins og kærleikans er dýrmætt í hörðum heimi og oft okkar eina skjól. Um leið er allur boðskapur kirkjunnar og kristninnar grundvallaður á kenningu Jesú Krists, þess sem gaf líf sitt á krossi fyrir alla þá sem heimurinn krossfestir. Kjarni kenningar Jesú snerist um guðsríkið. Guðsríki er í orðum Jesú bæði andlegur veruleiki og grundvallarbreyting á lífinu á jörðinni eins og við þekkjum það. Guðsríki samkvæmt Jesú er það ástand sem verða mun þegar hið illa í heiminum hefur verið afmáð. Biblían kallar það frelsun. Sú frelsun horfir til þess jarðlífs þar sem allir eru jafngildir og fegurðin ríkir ein.
III Eða með öðrum orðum: Bæði Marx og hin mjúka kirkja hafa á röngu að standa. Hvenær sem trúin er notuð – meðvitað eða ómeðvitað – til þess að fá fólk til að sætta sig við óréttlæti og kyssa á vöndinn, þá er það andstætt boðskap Jesú um guðsríkið. Það er vissulega hlutverk kirkjunnar að vera hrelldum skjól og veita líkn við þraut. Hún á að hlusta. Hún á að hugga. Um leið á hún ekki aðeins að deyfa sársaukann heldur á hún að taka sér stöðu fremst í fylkingarbrjósti þeirra sem berjast fyrir bættum heimi og réttlæti. En það réttlæti er endurskin af sjálfu ríki Guðs. Eða eins og stendur skrifað í Jakobsbréfi 2. kafla: „Eins og líkaminn er dauður án anda er trúin dauð án verka.“
Gleðilega páska!
Höfundur er rithöfundur.