Guðrún Dóra Hermannsdóttir fæddist 7. júní 1937. Hún lést 14. mars 2025.

Útför Guðrúnar Dóru fór fram 10. apríl 2025.

Nú hefur elsku amma mín kvatt þennan heim, og ég mun sakna hennar sárt. Hún var alltaf jafn yndisleg – hlý, kærleiksrík og nærveran hennar var mér ómetanleg.

Ég á ótal dýrmætar minningar með ömmu, en þær sem standa upp úr eru frá því þegar ég var á aldrinum 6 til 10 ára. Þá sótti afi mig reglulega eftir skóla og ég dvaldi hjá þeim til klukkan fjögur á daginn. Amma notaði tímann með mér til hins ýtrasta – hún kenndi mér að lesa, skrifa, spila og, ekki síst, að tapa, sem er jú ómissandi hluti af spilamennsku.

Það var alltaf kex í boði hjá ömmu, og ef ég hafði klárað heimavinnuna fékk ég að horfa á teiknimyndir. Þessar stundir voru draumur fyrir lítinn ömmustrák.

Amma var einstaklega fyndin, jafnvel þótt hún hafi ekki alltaf áttað sig á því sjálf. Hún átti það til að segja eða gera eitthvað sem kom mér til að hlæja – og með mínum hlátri fylgdi alltaf hennar eigin, innilegur og hlýr. Þegar við vorum saman ríkti léttleiki og gleði.

Að kenna ömmu á síma eða sjónvarp var líkast því að leysa flókið púsluspil – og ófá voru símtölin sem ég fékk til að aðstoða hana við að kveikja á sjónvarpinu. Oft náðum við þessu í gegnum myndsímtal, en stundum varð ég að fara sjálfur til hennar og redda málunum.

Ég mun alltaf minnast hennar með hlýju og þakklæti fyrir allar góðu stundirnar, hlátrana og ástina sem hún veitti mér svo ríkulega. Takk fyrir allt, elsku amma mín.

Þinn

Aðalsteinn.