Logi Einarsson
Logi Einarsson
Það sem við teljum sjálfsagt í dag er tilkomið vegna baráttu og hugsjóna fyrri kynslóða.

Logi Einarsson

Þjóðleikhúsið var vígt við hátíðlega athöfn 20. apríl 1950 sem markaði tímamót í sögu leiklistar á Íslandi. Vilhjálmur Þ. Gíslason formaður þjóðleikhúsráðs hélt ræðu og talaði m.a. um kostnað hússins: „Alt verður gert, sem unt er til þess að stilla kostnaði Þjóðleikhússins í hóf. En í leikhúsi er það ekki allur sparnaður sem borgar sig. Góð leikrit, góða list og góðan útbúnað má ekki skera við nögl. Það getur verið erfitt að segja þetta og að sætta sig við það í því árferði sem nú er, og er fjarri mjer að vanmeta erfiðleikana og þaðan af síður að vanþakka það, sem gert hefur verið af stórhug og trú í trássi við þá. En samt er þetta satt. Það er ekki hægt að hætta að halda uppi list og fræðum án þess að bíða tjón á sálu sinni. Það er sjálfsagt að stilla í hóf greiðslum og varna sóun, en það er ekki hætt við að styrkja ríflega listir og mentir. Dýrtíðin er stutt en listin er löng. Erfiðleikarnir eru jel eitt, en sólskin þeirrar gleði og göfgi sem fólgin er í listum og vísindum og í einföldu lífi fólksins við kvæði og sögur og leiki er varanlegt gildi.“

Þessi orð endurspegla hversu viðamikil, umdeild og flókin framkvæmd bygging þjóðleikhúss var fyrir fátæka og fámenna þjóð. Undirbúningurinn tók langan tíma enda hvert skref þungt. En þessi orð lýsa einnig þeirri afstöðu að listin þarf opinberan stuðning til að fá þrifist og það þrátt fyrir tímabundna efnahagserfiðleika.

Hugmyndin um þjóðleikhús kom fyrst opinberlega fram í grein Indriða Einarssonar í Skírni árið 1907, þegar íbúar landsins voru um 140 þúsund. Almennilegur skriður komst svo á málið þegar Jónas frá Hriflu, þá nýkjörinn þingmaður, tók það upp á Alþingi og var þá í framhaldi lagt til að framkvæmdir skyldu fjármagnaðar með svokölluðum skemmtanaskatti. Sú tillaga mætti harðri andspyrnu í þinginu, ekki síst út frá byggðasjónarmiðum en fjármagnið sem fékkst af skemmtanaskatti hafði verið ætlað til ýmissa verkefna á landsbyggðinni. Jónas þurfti því beita pólitískum klókindum til að afla málinu fylgis þvert á pólitíska flokka. Þann 19. mars 1923 mælti Jakob Möller frá Sjálfstæðisflokki fyrir frumvarpinu í fyrstu umræðu: „Jeg vona, að hv. deild taki þessu frv. vel, því nú er svo komið, að það fer líklega algerlega eftir afdrifum þess, hvort leiklistin deyr út hér á landi eða henni verður leyft að þrífast hjer og blómgast ekki síður en öðrum listum. Alþingi hefir talið sjer skylt að hlúa að íslenskum listum og það hefir engan veginn haft leiklistina útundan. Það mundi líka verða erfitt fyrir íslensku þjóðina að halda fullri virðingu annarra menningarþjóða, ef hún ljeti leiklistina verða úti á gaddinum. Merkur maður útlendur, mikill vinur okkar, sagði í brjefi til eins kunningja síns hjer fyrir nokkrum árum, að sjer væri ómögulegt að bera virðingu fyrir þjóð, sem brysti kappsmuni eða þjóðarmetnað til að koma sjer upp leikhúsi og halda því við.“

Hvort leiklistin hefði dáið út ef ekki hefði verið hér byggt þjóðleikhús skal ósagt látið en ljóst er að hugmynd um þjóðleikhús var ekki síst talin hluti af sjálfsmynd þjóðarinnar og sjálfsvirðingu. Við samþykkt frumvarpsins á Alþingi varð því vendipunktur í málinu. Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins var fenginn til að teikna húsið og sótti hann innblástur í þjóðtrú og íslenska náttúru. Eftir að staðsetning hafði verið valin hófust loks framkvæmdir. En málið var ekki enn í höfn. Stefnt var að því að húsið yrði tilbúið árið 1934 en kreppa, pólitískar deilur og heimsstyrjöld urðu til þess að vígsla þess tafðist um 16 ár.

Bygging Þjóðleikhússins varð að veruleika þegar íslenska þjóðin barðist í bökkum. Vegna þrautseigju og elju einstaklinga sem aldrei gáfust upp eða misstu sjónar á takmarkinu. Á herðum þeirra stöndum við sem eftir komum. Það sem við teljum sjálfsagt í dag er tilkomið vegna baráttu, fórna og hugsjóna fyrri kynslóða. Minnumst þess á 75 ára afmælisdegi Þjóðleikhússins, leikhúss okkar allra.

Höfundur er menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra.

Höf.: Logi Einarsson