Sigríður Inga Sigurðardóttir fæddist 14. apríl 1925. Hún lést 16. janúar 2025.

Útför hennar fór fram 8. febrúar 2025.

Við kvöddum einstaka vinkonu og ógleymanlegan ferðafélaga, Sigríði Ingu Sigurðardóttur, á útfarardaginn, – fylgdum henni síðasta spölinn rafrænt úr Landakirkju. Við vorum erlendis, en umhverfið var við hæfi, – pálmatré og klettótt strönd fjarri kulda og trekki, eins og svo oft á ferðum okkar forðum.

Sigga í Skuld var dugleg að ferðast og hafði farið um ýmsar heimsálfur með Heimsklúbbi Ingólfs, þar sem við kynntumst vel – hún sem ferðalangur og ég fararstjóri. Ekki minnkaði dálætið á mér þegar hún frétti að Einar Örn, maðurinn minn, væri innfæddur Vestmannaeyingur. Hér væri hægt að skrifa langt mál um þessar ferðir, því þar sem Sigga fór gerðust ævintýrin.

Hún var alltaf jafn glæsileg, hnarreist, vel tilhöfð, glaðleg og kát. Hún hringdi stundum í mig til að rifja upp ýmislegt úr ferðum okkar og spjalla.

Lengsta ferðin sem við fórum saman var 33 daga ferðalag umhverfis jörðina haustið 1993. Þetta var fyrsta skipulagða hópferð Íslendinga umhverfis jörðina. Ferðafélagarnir voru rúmlega sextíu og fararstjórar vorum við hjónin.

Við fórum m.a. til Taílands og skoðuðum hallir og musteri í Bangkok og víðar, og þaðan til Balí þar sem Sigga féll strax í hópinn með fegurstu innfæddu stúlkunum, með sitt kolsvarta hár. Færðar voru fórnir í musterum, haldið upp á eldfjöll og um sveitir og horft á sólarlagið, sem sló næstum því út sólarlagið í Eyjum.

Þegar komið var til Sydney í Ástralíu minnti Sigga okkur á greiða sem við höfðum lofað henni, en það var að hjálpa henni að ná símasambandi við gamla vinkonu úr Vestmannaeyjum, sem þar bjó og Sigga hafði ekki heyrt í lengi. Hún kom upp á herbergi til okkar með númer á miða og bað okkur að hringja fyrir sig. Við gerðum það og réttum henni símann. „Halló, halló,“ kallaði Sigga í símtólið, „er þetta Lillý pól?“ „Já,“ var svarið. „Lillý mín, þetta er hún Sigga í Skuld.“ Upphófst nú mikið spjall, enda margt sem þurfti að rifja upp og segja frá.

Víða var farið um Ástralíu og m.a. siglt út á Stóra kóralrifið, þar sem Sigga kafaði með skrautfiskum og skjaldbökum.

Á Nýja-Sjálandi var dansað með Maóríum og þar var Sigga auðvitað fremst í flokki, og á Fídjíeyjum var siglt út á eyðieyju og drukkinn göróttur drykkur innfæddra.

Nokkru eftir ferðina bauð Sigga okkur Einari til Eyja, því hún þurfti hjálp við að flokka myndir úr öllum heimsreisunum og rifja upp nöfnin á ferðafélögunum. Þetta var skemmtileg heimsókn. Algjör veisla, bakað og eldað handa okkur og haldin matarboð okkur til heiðurs með helstu vinum hennar í Eyjum.

Eitt sinn hringdi Sigga í mig rétt fyrir kjördag. Hún hafði þá bakað pönnukökur í hundraðatali í kosningakaffi fyrir Sigurð Inga son sinn, sem var í framboði, en gat svo ekki svikið hann Adda vin sinn Johnsen og Sjálfstæðisflokkinn og bakaði annað eins af pönnsum fyrir hann.

Sigga í Skuld varð næstum 100 ára, afmælisdagurinn var 14. apríl sl. Við Einar erum afar þakklát fyrir að hafa þekkt þessa litríku og lífsglöðu konu. Blessuð sé minning Sigríðar Ingu Sigurðardóttur.

Ásta Ragnheiður
Jóhannesdóttir.