Katrín Ingvarsdóttir fæddist í Melgerði í Glæsibæjarhreppi, sem nú tilheyrir Glerárþorpi á Akureyri, 8. desember 1934. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Hlíð 9. apríl 2025.
Foreldrar hennar voru Ingvar Ólafsson, f. 11. janúar 1912, d. 5. febrúar 1978, og Viglín Sigurðardóttir, f. 13. apríl 1917, d. 25. maí 1994. Katrín var næstelst í systkinahópnum, hin eru: Sigurður Tómas, f. 10. jan. 1934, d. 11. maí 2002, drengur, f. 14. nóv. 1935, d. 23. feb. 1936, Jósef, f. 27. júní 1938, d. 23. mars 2002, Valberg, f. 15. des. 1939, Amalía, f. 5. nóv. 1941, Marsilía, f. 14. apríl 1946, d. 13. sept. 2019, Kristbjörg, f. 11. júlí 1949, d. 27. mars 2024, Borghildur, f. 29. júlí 1951, og Heiðbjört, f. 3. júní 1955.
Árið 1954 giftist Katrín Ragnari Pálssyni, f. 22. okt. 1932, d. 21. feb. 2011. Börn þeirra eru 1) Jóhanna, f. 26. júní 1952, gift Kristjáni Matthíassyni, f. 1954. Börn Jóhönnu og Þóris Snorrasonar eru a) Inga, f. 1969, gift Bjarna Ingólfssyni, f. 1963. Þeirra börn eru Erla Katrín, f. 1995, og á hún Móey Karólínu, f. 2023, með sambýlismanni sínum Valtý Breka Björgvinssyni, f. 1992. Jóhann Ingi, f. 1997. Baldur Hrafn, f. 2007. Fyrir átti Bjarni Hrafn soninn Yngva Gunnar, f. 1985, hans kona er Mai-Elin Aske, f. 1985, og eiga þau Bjarka og Axel. b) Ragna, f. 1972, hennar börn og Jóns Alberts Jónssonar, f. 1967, eru: Þórir Örn, f. 1993. Hann er giftur Sædísi Ágústsdóttur, f. 1996, og eiga þau Alexander Amon, f. 2019, Gabríel Aran, f. 2020, og Ellen Avíu, f. 2024. Harpa Rut, f. 1997. Anna Marý, f. 2002, sambýlismaður Viktor Finnsson, f. 1998. c) óskírð dóttir, f. 1976, d. 1976, d) Snorri, f. 1977, d. 1978. Börn Jóhönnu og Kristjáns eru: Ingvar, f. 1981, og Atli, f. 1986. Atli er giftur Beinte Dam og eiga þau börnin Johan, f. 2017, og Rosu, f. 2020.
2) Ingvar, f. 17. júlí 1954, d. 8. ágúst 1971 í bifreiðaslysi.
3) Albert, f. 11. sept. 1958, kona hans er Bryndís Viðarsdóttir, f. 1961. Synir þeirra eru tveir: a) Valur Freyr, f. 1981, hann á börnin Reyni Franz, f. 2002, í sambúð með Indíu Rebekku Jónsdóttur, f. 2002, og Tinnu, f. 2007. b) Ragnar Logi, f. 1997, sambýliskona Kata Jámbor, f. 1998. Fyrir átti Albert soninn Bjarka Þór Vestmann, f. 1975.
4) Níels, f. 11. jan. 1964, kona hans er Þórhildur Vilhjálmsdóttir, f. 1965. Þeirra synir eru Bjartur, f. 1995, Arnar, f. 2001, og Dagur, f. 2005.
5) Ragnar, f. 26. jan. 1965, d. 4. apríl 1980 í bifhjólaslysi.
Katrín ólst upp í Glerárþorpi og bjó fjölskylda hennar í Grænuhlíð. Hún kynntist ung eiginmanni sínum Ragnari og giftu þau sig og hófu búskap og bjuggu lengst af í Skarðshlíð 40. Katrín vann ýmis störf um ævina, lengst af í skóbúð á Akureyri og síðar vann hún í Glerárkirkju. Katrín og Ragnar eiginmaður hennar voru dugleg að fara í útilegur og var Vaglaskógur oft áfangastaður þeirra á sumrin.
Katrín var mikill félagsmálafrömuður og tók þátt í kórstarfi með Kirkjukór Glerárkirkju í áratugi. Einnig var hún félagi í kvenfélaginu Baldursbrá til áratuga og gegndi þar m.a. formennsku. Katrín sat í byggingarnefnd Glerárkirkju fyrstu byggingarárin. Hannyrðir tóku meiri tíma hjá Katrínu eftir því sem árin færðust yfir. Dæmi um handverk hennar eru heklaðar gardínur í Glerárkirkju, sem ennþá hanga uppi áratugum síðar. Á áttatíu ára afmæli Katrínar var haldin sýning á verkum hennar í Glerárkirkju. Katrín var heilsuhraust alla tíð, þangað til fyrir þremur árum þegar heilsu hennar fór að hraka og hún glímdi við alzheimer. Katrín flutti þá á Dvalarheimilið Hlíð.
Útför hennar fer fram frá Glerárkirkju í dag, 23. apríl 2025, klukkan 13.
Í bernskuminningunni er mamma mín manneskja sem var eiginlega eilíf. Og jafnvel þótt árin liðu, þá varð hún ennþá meira eilíf. Hún var klettur. Klettur sem var alltaf. Alls staðar en samt alls ekki fyrirferðarmikil né hávaðasöm. Hún var ung alveg fram á elliárin. Hún var dugnaðarforkur án þess þó að það væru einhver læti í kringum hana. Mamma var hvetjandi. Hún hvatti okkur í hverju því sem við tókum okkur fyrir hendur. Einhvern tímann á áttunda áratugnum var pabbi staddur í útlöndum. Fjölskyldan hafði í einhvern tíma áætlað að kaupa hljóðfæri á heimilið. Orgel. Rafmagnsorgel. Já, mamma keypti eitt stykki rafmagnsorgel á meðan pabbi var í útlöndum. Hann var hissa þegar hann kom heim. En við strákarnir vorum ánægðir. Já, það var ansi oft gaman í Skarðshlíðinni „í den tíð“. Mikið sungið og spilað. Stundum var spilað á spil. Mamma og pabbi spiluðu við börnin sín og seinna við barnabörnin og svo barnabarnabörnin. Áföllin dundu þó yfir… en samt… samt var mamma þessi endalausi klettur. Hún bar harm sinn að mestu í hljóði. En þau mamma og pabbi áttu gott samband og þau studdu hvort annað þegar þau tókust á við áföllin. Skólagangan var ekki löng. Hún gekk í barnaskóla og kláraði hann. Og þar með var skólagöngunni lokið. Hún var tólf ára! Þá tók bara við vinna og almenn lífsbarátta.
Félagsstörf voru fyrirferðarmikil í lífi mömmu. Hún byrjaði að syngja í kirkjukór Lögmannshlíðar árið sem hún fermdist. Hætti í einhver ár á meðan hún var að eignast börnin en byrjaði svo aftur. Hún gerðist félagi í kvenfélaginu Baldursbrá og varð tvisvar sinnum formaður. Magnið af kökum, kleinum, ástarpungum og fleira góðgæti sem mamma bakaði, steikti og eldaði í gegnum tíðina væri örugglega mælt í tonnum ef það yrði tekið saman. „Mamma, má ég smakka þessar kökur?“ var spurt í eldhúsinu í Skarðshlíðinni… “Nei, þetta á að fara á basar hjá kvenfélaginu…“ þá þýddi ekkert að ræða það meira. Eftir því sem árin liðu fór mamma meir og meir að snúa sér að hannyrðum. Hún fór á alls kyns námskeið sem voru í boði á þeim tíma til þess að læra meira og meira. Hún prjónaði og heklaði af miklum móð. Afköstin voru ótrúlega mikil. Seinna fór hún svo líka að mála á postulín. Bollar, diskar, blómavasar, stell, bollastell o.fl. Magnið var orðið svo mikið að hún hélt sýningu á verkum sínum fyrir nokkrum árum síðan. Og auðvitað var sú sýning haldin í Glerárkirkju. Í kirkjunni eru hekluð gluggatjöld sem mamma heklaði. Þau eru þarna enn þá. Mörgum árum eftir að þau voru fyrst sett upp. Fyrir utan heimilisstörfin vann mamma ýmis störf utan heimilisins. Hún fór t.d. í síldarsöltun á Raufarhöfn, hún vann meðfram heimilisstörfunum t.d. við upptöku á kartöflum á haustin o.fl. o.fl. Hún byrjaði að vinna hjá MH Lyngdal skóverslun í Hafnarstræti árið 1973 og vann þar í mörg ár. Seinna vann hún í safnaðarheimili Glerárkirkju við góðan orðstír. Kletturinn hún mamma er ekki lengur hér. En minningin lifir. Og hún mun lifa lengi. Hvíl í friði elsku mamma mín.
Níels Ragnarsson.
Nú hefur amma Kata kvatt okkur níutíu ára að aldri eftir langt og viðburðaríkt líf.
Það er sérstakt að fá að eiga ömmu til 55 ára aldurs en amma var einungis 34 ára þegar ég fæddist og hún varð amma í fyrsta sinn. Amma var mikil fjölskyldukona og hún bar alltaf hug fjölskyldunnar fyrir brjósti og deildi með okkur sorgum og sigrum í lífinu. Hún var mér fyrirmynd að svo mörgu leyti, hún var sjálfstæð og gerði það sem hennar hugur stóð til og sinnti sínum áhugamálum. Hún var í kvenfélagi, í kirkjukór og vann mikið fyrir kirkjuna í sjálfboðastarfi. Amma vildi hafa nóg að gera og hún lét til sín taka í því sem skipti hana máli. Amma var alltaf smart og hafði gaman af því að vera vel til höfð og fallega klædd og það var mikil reisn yfir henni. Hún sagði mér einu sinni hlæjandi í símann að hún færi ekki einu sinni niður í póstkassann án þess að setja á sig varalit. Það var alltaf gott að hafa ömmu í kringum sig og þegar yngsta barnið mitt var skírt kom amma suður og tók þátt í undirbúningnum. Ég gleymi ekki notalegri nærveru hennar, gleði, ró og dillandi hlátri. Ég minnist þess líka með mikilli hlýju þegar dóttir mín útskrifaðist úr HR þá vildi amma alls ekki missa af því. Hún kom þá með flugi til Reykjavíkur með íslenska þjóðbúninginn í töskunni, tilbúin að fagna með okkur. Við áttum skemmtilegan dag, þar sem sólin skein og amma var svo stolt. Það skipti hana ekki máli þó hún væri orðin 84 ára þegar þetta var, því ömmu fannst hún nefnilega aldrei gömul og skildi ekki fólk sem að kvartaði yfir því að vera gamalt. Það er ekki hægt að minnast ömmu Kötu án þess að nefna allt handverkið hennar, en þar var amma engum lík. Það skipti engu máli hvað hún tók sér fyrir hendur, það var allt svo vel gert og hún tók allt alla leið og hellti sér í það sem heillaði hana hverju sinni. Þegar hún byrjaði í bútasaumi þá gerði hún mörg teppi, þegar hún fór í postulínsmálun þá voru heilu stellin máluð og svo voru prjónaðar lopapeysur og fallegustu vettlingarnir. Heklið hennar ömmu er svo sérgrein út af fyrir sig, það var svo fallegt. Það var eftirminnilegt þegar fjölskyldan öll sameinaðist við undirbúning á sýningu á verkum hennar sem var haldin í Glerárkirkju, gleðin og stoltið skein af ömmu þar sem hún leit yfir hluta af sínu ævistarfi í hannyrðum.
Amma var alltaf með bjartasta brosið og breiðasta faðminn og með hugarfar, jákvæðni og seiglu af einhverju tagi sem erfitt er að setja í orð. Það kann að hljóma dramatískt, en amma bætti heiminn fyrir þá sem voru í kringum hana og gat lýst upp herbergi sem hún kom inn í með nærveru sinni. Að hafa fengið að vera í birtunni sem frá henni stafaði er eitthvað sem ég verð ævinlega þakklát fyrir.
Ég kveð ömmu mína með miklu þakklæti fyrir allt sem hún kenndi mér og var mér, og mun minnast hennar þegar ég set á mig varalitinn áður en ég geng út um dyrnar.
Inga Þórisdóttir