Þorbjörg Kristjánsdóttir fæddist í Höfn í Dýrafirði 20. desember 1929. Hún lést á heimili sínu 27. mars 2025.

Foreldrar hennar voru Kristján Jakobsson f. 1891, d. 1972, og Guðrún Kristjánsdóttir f. 1892, d. 1985. Hún var yngst sjö systra, elst var Jóhanna samfeðra, svo Sigríður, Matthildur, Margrét, Ólafía og Áslaug. Þær eru allar látnar.

Þorbjörg giftist Gesti Bjarka Pálssyni 1956, þau skildu. Börn þeirra eru Kristján Páll, f. 1957, d. 2017, hans börn eru Þorsteinn Ingi, f. 1977, og Kristín Eva, f. 1985. 2) Rúnar, f. 1957, giftur Sigrúnu Erlu, þeirra börn eru Guðrún Lind, f. 1982, gift Axel, Lilja Björg, f. 1985, sambýlismaður Baldur og Sigurður Bjarki, f. 1986, sambýliskona Sandra. 3) Matthildur Björk, f. 1958, sambýlismaður Barði. Þeirra börn eru Anna Lóa, f. 1992, sambýlismaður Deividas, og Eva Rún, f. 1994, sambýlismaður Guðmundur Hermann. 4) Magnús, f. 1959, giftur Guðbjörgu. Saman eiga þau Steinar, f. 1998. Sonur Magnúsar frá fyrra sambandi er Stefán Logi, f. 1980, giftur Elsu Rut. 5) Ásgeir Örn, f. 1961, d. 2019, eftirlifandi eiginkona Hildur. Börn Ásgeirs eru Saga, f. 1983, og Frosti, f. 1984, eiginkona Nicole. 6) Svanhildur, f. 1964, gift Guðmundi. Þeirra börn eru Íris Katla, f. 1992, gift Haraldi Mími, Snædís, f. 1994, gift Snorra, og Ari Gestur, f. 2001, sambýliskona Sandra Rós. 7) Halldór Grétar, f. 1965, giftur Hjördísi Jónu, þeirra börn eru Eló, f. 1990, Kjartan Orri, f. 1991, og Baldur Örn, f. 1993. 8) Hlynur, giftur Ragnhildi, þeirra börn eru Erna Nielsen, f. 2003, og Svanhildur Nielsen, f. 2006.

Barnabarnabörnin í aldursröð eru: Katla Dimmey, f. 2001, Daníel Berent, f. 2006, Isabella Ósk, f. 2006, Hekla Lind, f. 2009, Emelía Björk, f. 2011, Hermann Þór, f. 2012, Eyþór Orri, f. 2012, Alexander Þór, f. 2015, Freyja Rún, f. 2016, Juniper Ósk, f. 2016, Hörður Logi, f. 2017, Sigurður Hreiðar, f. 2018, Sóldís Katla, f. 2020, Máni Þór, f. 2021, Bjartur, f. 2021, Sebastian Nói, f. 2022, Birna, f. 2024, Dagur, f. 2024, og Eyrún Eva, f. 2024.

Þorbjörg ólst upp hjá fjölskyldu sinni í Höfn við gott atlæti. Hún tók fullnaðarpróf frá Keldudalsskóla 1943, sama ár og fjölskyldan flutti til Þingeyrar. Leiðin lá í Reykjanesskóla um 16 ára aldur og síðar í Húsmæðraskólann á Laugalandi, þá um tvítugt. Meðfram þessu starfaði hún við ýmis störf ásamt því að hjálpa til á heimilinu. Eftir húsmæðraskólann fór hún á vertíð á síldarbát í tvö sumur og var það minning um eitt af því allra skemmtilegasta sem hún gerði en mesta afrekið var samt að koma átta börnum á legg og skila þeim út í lífið. Eftir síldarárin flutti hún til Reykjavíkur og bjó þar það sem eftir var. Hún vann á mörgum vinnustöðum og eignaðist þar marga vini. Aðallega var hún í matreiðslustörfum en einnig mikið í ræstingastörfum. Þorbjörg var mikill náttúruunnandi og hafði gaman af ferðalögum sem hún stundaði óspart, sérstaklega eftir að hún fór á eftirlaun, og hún elskaði að fara í berjamó.

Útförin fer fram í Guðríðarkirkju í dag, 23. apríl 2025, klukkan 15.

Þá hefur hún móðir okkar lokið sínu rúmlega 95 ára lífshlaupi sem er ansi langur tími. Samt sem áður finnst okkur það of stuttur tími núna þegar komið er að því að kveðja hana í hinsta sinn. Við huggum okkur þó við það að hún var hress fram á síðasta dag og hún verður alltaf með öllum afkomendum sínum í anda um ókomna tíð. Þeir eru orðnir nokkuð margir: 8 börn, 19 barnabörn og 19 barnabarnabörn þegar þetta er skrifað. Hún mundi alltaf öll nöfn og afmælisdaga og var dugleg að koma afmælisgjöfum til ömmu- og langömmubarnanna sinna.

Mamma fæddist á bænum Höfn í Dýrafirði og talaði oft um æsku sína þar og á Þingeyri en hún var yngst sjö systra. Hún fór um 16 ára aldur í Reykjanesskóla og síðar í Húsmæðraskólann á Laugalandi, þá um tvítugt. Hún fór ótroðnar slóðir eftir skólalok þar sem hún var á vertíð á síldarbáti tvö sumur og átti margar góðar minningar þaðan. Hún giftist pabba 1956 og þau eignuðust svo átta börn saman á tímabilinu 1957 til 1971. Eldri börnin muna eftir fyrstu árum sínum á Vífilsgötu en 1964 er flutt í Grænuhlíð þar sem við bjuggum þar til þau skildu 1977.

Það var oft glatt á hjalla og mikil læti í okkur krökkunum. Sigga og Óla, systur mömmu, bjuggu í kjallaranum í Grænuhlíðinni og hjálpuðu til með krakkaskrílinn. Mamma passaði vel upp á okkur, að við ættum nóg af fötum og fengjum gott að borða. Á veturna þegar við komum ísköld inn eftir skíða- og sleðaferðir sagði hún okkur að hlýja okkur við ofninn í eldhúsinu á meðan hún bjó til kakó og smurði brauð. Hún gat alveg hvæst á okkur þegar henni fannst keyra um þverbak í látunum en hún var alltaf til staðar fyrir okkur þegar við leituðum til hennar. Á sumrin var dvalist í sumarbústað við Hafravatn þar sem var mikið frjálsræði og vatnið hafði mikið aðdráttarafl. Hún kenndi okkur að róa bátnum og hvað ætti að gera ef neglan poppaði upp og vatn flæddi inn í bátinn. Einnig var skylda að vera í björgunarvestum ef við ætluðum út á vatnið. Þarna var oft drekkutími úti í sólskýli, oft með Siggu og Ólu eða öðrum gestum. Hún átti sér steinahæð þar sem hún plantaði blómum og passaði vel upp á. Kartöfluræktun var stunduð þarna og við látin hjálpa til. Ef við vorum með magakveisu hitaði hún kringlumjólk fyrir okkur og hunangsmjólk ef við fengum flensu. Magnyl var mulið í teskeið og leyst upp í súrmjólk með púðursykri ef það þurfti að slá á hita eða verki. Svo kenndi hún okkur leikina fallin spýta og refur á veiðum, einnig að spila marías og óendanlega þolinmóð að spila við okkur þjóf og veiðimann. Þegar börnin urðu eldri fóru þau í sveit og hún passaði upp á að pakka vel í töskurnar svo ekkert skorti um sumarið. Mamma var alltaf úrræðagóð og hélt ró sinni í aðstæðum sem hefðu getað farið úr böndunum. Spurð hvort henni fyndist ekki leiðinlegt að eiga svona mörg börn var hún fljót að svara að henni þætti svo ógurlega vænt um okkur öll.

Elsku mamma, takk fyrir alla ástina og umhyggjuna fyrir okkur, börnunum okkar og barnabörnum. Þú átt ævinlega alveg sérstakan stað í hjörtum okkar og minningum.

Eftirlifandi börn,

Rúnar, Matthildur, Magnús, Svanhildur, Halldór og Hlynur.

Mín elskulega tengdamóðir Þorbjörg er látin 95 ára. Við áttum margar góðar stundir saman þessi rúmu þrjátíu ár frá því við hittumst fyrst. Hún var einstök kona, sterk, vinnusöm, hjartahlý og skemmtileg. Hún eignaðist Magnús á 30. afmælinu sínu og voru þau alltaf mjög náin. Hún var einstaklega góð og hjálpsöm varðandi strákana okkar.

Allar skötuveislurnar með öllu liðinu hjá henni og síðan sl. 12 ár hjá okkur Magnúsi. Það var mikið borðað, talað og hlegið. Hún var ánægð með að fá tengdadóttur sem borðaði „úldinn og skemmdan“ mat eins og skötu, grásleppu, siginn fisk, steiktan rauðmaga o.þ.h. Ég bauð nokkrum konum í grásleppuboð nokkur sumur, henni þótti spennandi að prófa grillaða og sous vide-grásleppu.

Ógleymanleg er ferð okkar Magnúsar með henni vestur á Þingeyri. Þar ólst hún upp. Við skoðuðum margt og fengum margar skemmtilegar frásagnir og sögur í þeirri ferð. Svo spiluðum við heilmikið á kvöldin. Þorbjörg hafði gaman af að spila og hefur fjölskyldan alltaf spilað mikið. Í covid hittumst við af og til, prjónuðum og spjölluðum.

Við eigum dýrmætar gjafir frá henni, perlusaumaða servíettuhringi, fínprjónaðar diskamottur og dásamlegt teppi sem við höldum mikið upp á.

Elsku Þorbjörg fékk að kveðja lífið eins og hún vildi, sjálfstæð og án spítala- eða hjúkrunarheimilisvistar, varð bráðkvödd heima.

Ég þakka fyrir öll árin, dásamlega tengdamóður sem mér þótti ákaflega vænt um.

Guð þig leiði sérhvert sinn
sólarvegi alla.
Verndarengill varstu minn
vissir mína galla.

Hvar sem ég um foldu fer
finn ég návist þína.
Aldrei skal úr minni mér
mamma, ég þér týna.

(Jón Sigfinnsson.)

Þín

Guðbjörg.