Jakobína Guðmundsdóttir fæddist 11. maí 1925 á Harðbak á Melrakkasléttu. Hún lést á Hrafnistu Laugarási í Reykjavík 12. apríl 2025.

Foreldrar hennar voru hjónin Guðmundur Stefánssonar, f. 13.7. 1885, d. 31.5. 1971, og Margrét Siggeirsdóttur f. 12.8. 1890, d. 20.11. 1978. Hún var næstyngst í hópi sex systra sem ólust upp á Harðbak. Systur hennar í aldursröð voru Borghildur Guðrún, Ása, Aðalbjörg, Kristín Guðbjörg og Þorbjörg Rósa. Auk þess ólst þar upp með þeim systrum Kári Friðriksson. Jakobína er sú síðasta sem kvaddi af þessu fólki.

Jakobína stundaði nám við Héraðsskólann á Laugum 1941-1943 og við Johanna Brunssons Vävskola í Stokkhólmi 1946-1948. Hún lauk kennaraprófi 1948. Veturinn 1963-1964 var hún í námi við Statens lærerskole í forming í Ósló.

Jakobína kenndi vefnað á vegum Kvenfélagasambands N-Þingeyjarsýslu 1948-1949, við Húsmæðraskólann á Staðarfelli í Dölum 1949-1952 og við Húsmæðraskólann á Hverabökkum í Hveragerði 1952-1953. Jakobína hóf störf við Húsmæðraskóla Reykjavíkur 1953 og starfaði þar allt þar til hún lét af störfum. Hún var skólastjóri skólans í 10 ár frá 1975-1985 og gerði töluverðar breytingar á starfsemi skólans, m.a. með námskeiðum fyrir almenning. Meðan hún starfaði við skólann kenndi hún auk vefnaðar föndur, textílfræði, uppeldisfræði og híbýlafræði. Auk þess kenndi hún í allmörg ár textílfræði við handavinnudeild Kennaraskóla Íslands.

Hún var alltaf mjög virk í félagsmálum, m.a. var hún virkur félagi í Delta Kappa Gamma og var sem formaður Heimilisiðnaðarfélags Íslands mjög virk í norrænu samstarfi heimilisiðnaðarfélaga. Þannig sótti hún fundi annars staðar á Norðurlöndunum og skipulagði einnig fundi hér á landi. Jakobína var fulltrúi Heimilisiðnaðarfélagsins í nefnd sem forsætisráðherra skipaði um eflingu heimilisiðnaðar árið 1991. Árið 1994 fékk hún riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir húsmæðrafræðslu og 2013 á 100 ára afmæli Heimilisiðnaðarfélagsins var hún gerð að heiðursfélaga þess.

Útförin fer fram frá Áskirkju í dag, 23. apríl 2025, klukkan 11.

Bínsa frænka var mér mjög kær og hefur alltaf verið hluti af daglegu lífi síðan ég man eftir mér. Við áttum sameiginleg áhugamál í vefnaði og starfi Heimilisiðnaðarfélagsins.

Upp úr aldamótunum ákvað Bínsa að vefa handa mér veggteppi. Það átti að heita „Við jökulröndina“ og var hún búin að hanna listaverkið í megindráttum áður en hún hófst handa. Á þessum tíma var ég að vinna skammt frá og bauð Bínsa mér þá reglulega í hádegismat til sín, til þess að fylgjast með framgangi verksins og spá í litaval og fleira. Þetta voru gæðastundir og veggteppið er eitt það dýrmætasta sem ég á.

Nokkrum árum síðar fékk ég þá hugmynd að fara að vefa. Það stóð ekki á Bínsu frænku, sem kom og setti upp í vefstólinn fyrir mig og spáði í þetta allt með mér fram og til baka. Enn síðar, eftir að hún var sjálf farin að sjá það illa að hún átti erfitt með að vefa, ákvað hún að gefa mér litla vefstólinn sinn, sem hún var með á Dalbrautinni hjá sér. Henni fannst hins vegar mikilvægt að ég kynni undirstöðurnar í vefnaði áður en ég tæki við vefstólnum og sendi mig á vefnaðarnámskeið hjá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands. Þá varð ekki aftur snúið hjá mér, ég féll endanlega fyrir þessu handverki og hef stundað það síðan. Einnig komst ég í kynni við starf Heimilisiðnaðarfélagsins og fetaði síðar í fótspor Bínsu frænku sem ritstjóri tímarits þess, Hugur og hönd. Bínsa átti og gaf mér safn allra útgefinna tölublaða Hugar og handar frá upphafi, sem ég varðveiti nú.

Bínsa var flott kona og fyrirmynd, sjálfstæð og fær. Hún var þolinmóður kennari en hreinskiptin, eins og þær Harðbakssystur allar, og vildi öllum vel. Bínsa var áhugasöm um fólkið sitt og þótti vænt um okkur. Hún hafði alla tíð mjög gaman af börnum og naut þess að fá dætur mínar í heimsókn. Mér þótti afar vænt um þessa yndislegu og ljúfu konu.

Minningin um kæra frænku lifir.

Bjargey Björgvinsdóttir.

Móðursystir mín Jakobína, eða Bínsa frænka eins og hún var alltaf kölluð, hefur kvatt okkur og þar með sú síðasta af elstu kynslóð fjölskyldunnar.

Systurnar frá Harðbak voru mjög samrýndar og það leið ekki sá dagur að þær töluðu ekki hvor við aðra eða komu í heimsókn. Bínsa var engin undantekning og því stór partur af mínu lífi. Jólaveislur, gamlárskvöld, útilegur og aðrar veislur ólst maður upp við með stórfjölskyldunni. Á Þorláksmessu var alltaf farið til Bínsu frænku í heitt súkkulaði, flatkökur með hangikjöti og fleira góðgæti. Ef maður óvart bað um meira kakó fékk maður góðlátlegan fyrirlestur um það að kakó og ekta heitt súkkulaði væri alls ekki sami hluturinn.

Bínsa frænka var mikill fagurkeri og fylgdist mikið með hönnun, listum og að sjálfsögðu heimilisiðnaði sem var hennar mesta yndi. Hún var vefnaðarkennari og síðar skólastjóri Hússtjórnarskólans í Reykjavík. Líf hennar snérist um íslenskan heimilisiðnað og aðra fallega hönnun. Hún var dugleg að fara á listsýningar, tónleika hjá Sinfóníuhljómsveitinni, leikhús og óperur.

Vefstóllinn var stór partur af lífi hennar og óf hún margt listaverkið í honum. Við frændsystkinin nutum góðs af því þar sem flest eigum við mottu, dúk, púða eða annað listaverk sem hún óf. Fyrir nokkrum árum gaf hún mér dúk sem hún óf sem lokastykkið sitt þegar hún var við nám í Svíþjóð. Hún mætti heim með dúkinn til að passa upp á að ég geymdi hann rétt og færi vel með hann. Það mátti ekki brjóta dúkinn saman, nei það þurfti að rúlla honum upp á sérstakan hátt utan um pappahólk til að vel færi um hann. Svona var Bínsa. Nákvæm og lagði mikla áherslu að fara vel með hluti.

Við nöfnur fórum saman að kaupa föt á hana. Einungis komu til greina vandaðar flíkur sem myndu endast og algjört skilyrði að flíkin væri úr náttúrulegum efnum.

Sama gilti um mat. Hún var dugleg að bjóða út að borða en þá var það á fínan og vandaðan veitingastað. Okkur systrum varð það á um daginn að fara með hana á frekar venjulegan veitingastað og hún var ekki par hrifin af okkur. Vandað og gæði var það sem hún vildi í öllu sem hún kom nálægt.

Hún elskaði Harðbak, æskuheimilið sitt á Sléttu og fór þangað á hverju sumri til að tína dún og dytta að húsinu. Ég man varla eftir henni öðru vísi en með málningarpensil á lofti og að þvo eða strauja dúkinn sem var í sparistofunni því þar þurftu hlutirnir líka að vera í röð og reglu.

Eitt skemmtilegasta og sérstakasta afmæli sem ég hef farið í var þegar Bínsa frænka varð áttræð. Þá bauð hún stórfjölskyldunni í afmælisveislu upp á Langjökul. Klædd í snjógalla beið okkar veisluborð uppi á jöklinum. Þetta var ótrúlega skemmtileg ferð og gamla ánægð með afmælið sitt. Nú var komið að 100 ára afmælinu 11. maí nk. Hún hefur greinilega ákveðið að kominn væri tími til að hitta systur sínar og fá sér eitt sérríglas í tilefni afmælisins.

Ég þakka Bínsu „stóru“ fyrir allt og mun sakna frænku en þar fer góð og vönduð kona.

Jakobína, eða Bínsa litla.

Jakobína móðursystir mín, eða Bínsa eins og við kölluðum hana, kvaddi okkur rétt um mánuði áður en hún hefði orðið 100 ára. Líkaminn var orðinn slitinn en hugurinn var vakandi allt fram á síðasta dag. Þegar hún var spurð að því hvort hún ætlaði ekki að verða 100 ára eins og Lolla mamma mín var svarið að hún væri að hugsa málið. Reyndar sagði hún líka að það væri ekki á vísan að róa með svona gamalt fólk. Þær voru samstilltur hópur systurnar sex frá Harðbak, dömurnar Lonta og Lillý, húmoristarnir Ása og Ína og kennararnir Lolla og Bínsa. Samskipti þeirra einkenndust af mikilli hreinskilni og þótt þær væru ekki alltaf sammála bar aldrei skugga á vináttu þeirra. Þær voru allar miklar fyrirmyndir og það er arfur þeirra til okkar afkomendanna. Bínsa var hófstillt og hógvær en hafði sterkar skoðanir á því hvað væri rétt og við hæfi. Að sögn kom fljótt í ljós að hún var listræn og einstaklega flink í höndunum. Hún og Ína, sem var tveimur árum eldri, voru kallaðar „litlu stelpur“. Sagan segir að þegar Ína var komin í barnaskóla á Raufarhöfn en Bínsa var enn heima hafi Bínsa verið að spinna ull í nærbol handa sér. Þegar því verki var lokið hafi hún sagt „á ég ekki að spinna í bol handa Ínu greyinu líka“. Sjálf sagðist hún snemma hafa haft áhuga á handavinnu en lítinn áhuga á matreiðslu. Fyrstu minningar mínar um Bínsu eru frá því að ég var á sjötta árinu og hún tók mig með sér í Harðbak, en þá bjuggu afi og amma þar. Hún var einstaklega barngóð og þolinmóð við litla krakka og finnst mér að þetta sumar með henni hafi verið eintómt dekur. Samvistir á Harðbak urðu fleiri og ég sé hana ljóslifandi fyrir mér að mála stofuna rústrauða, spjaldhurðirnar bláar og hvítar og að hengja rósóttar gardínur fyrir gluggana. Það var alltaf litríkt og fínt í kringum Bínsu. Það er svo ótal margt í minningabankanum um þessa yndislegu móðursystur mína. Hún sótti mig á LSH þegar ég átti fyrsta barnið, hvatti mig og kærasta minn til að gifta okkur áður en ég færi með barnið til Noregs þar sem hann var í námi. Hún hjálpaði mér við brúðardressið mitt og perlusaumaði líka brúðarkjól eldri dóttur minnar. Minningar frá ferðinni okkar til Stokkhólms til að skoða fornar slóðir frá námsárum hennar eða þegar hún fór með mér til Glasgow að passa elstu barnabörn mín. Hún passaði reyndar líka mín börn þegar þau voru lítil og lék sér við þau eins og mig forðum. Jólin hjá okkur komu þegar Bínsa mætti fín og falleg til okkar í matinn á aðfangadagskvöld. Þannig hefur hún fylgt mér og mínum í gegnum lífið og alltaf haft velferð okkar í fyrirrúmi. Nú síðari árin þegar ellin gerði vart við sig reyndi ég að endurgjalda henni en samt held ég að hún hafi í raun alltaf verið sú sem gaf af sér. Það var einstaklega ánægjulegt að heimsækja hana síðustu árin og spjalla bæði um gamalt og það sem var efst á baugi. Radarinn var alltaf á sínum stað. Heimili mitt prýða munir sem hún óf handa mér og listmunir sem hún gaf mér og þannig minnir hún á sig á hverjum degi. Í dag kveðjum við hana með söknuði en minningin mun lifa.

Elín Rögnvaldsdóttir.