Oddur Örvar Magnússon, Baughóli 31c, Húsavík, fæddist í Reykjavík 13. júní 1952. Hann varð bráðkvaddur 12. apríl 2025.

Foreldrar hans voru Magnús Björnsson símamaður, f. 1914, d. 1990, og Inger Ester Nikulásdóttir húsmóðir, f. 1924, d. 1999.

Oddur var þriðji í hópi sex alsystkina sem eru Björn Hólm, f. 1948, símsmiður og rafvirki kvæntur Önnu Fíu Emilsdóttur; Valdís, f. 1949, kennari og kristniboði, gift Kjartani Jónssyni; Hafrún, f. 1955, bankastarfsmaður, gift Karli Halli Sveinssyni; Elínborg, f. 1960, launafulltrúi og bókari, gift Gunnari Þór Guðjónssyni; Margrét Ólöf, f. 1967, djákni í Noregi, gift Benedikt Grétari Ásmundssyni.

Eiginkona Odds er Hulda Sigríður Skúladóttir, f. 1954. Foreldrar Huldu voru Freyja Sigurpálsdóttir, f. 1928, d. 2024, og Skúli Jónsson, f. 1930, d. 2014.

Börn þeirra eru: 1) Orri Freyr, f. 1979, eiginkona hans er Hjördís Eva Ólafsdóttir, f. 1980. Saman eiga þau Huldu Sigrúnu, f. 2006, og Arnar Frey, f. 2011. 2) Óttar Ingi, f. 1984, eiginkona hans er Elva Díana Davíðsdóttir, f. 1983. Saman eiga þau Hauk Skúla, f. 2010, Hafþór Bjarka, f. 2012, og Heimi Magna, f. 2017. 3) Arna Rún, f. 1987, eiginmaður hennar er Atli Friðbergsson, f. 1988. Saman eiga þau Freyju Björt, f. 2018, Anítu Sóleyju, f. 2021, og Erni Loga, f. 2024.

Útför Odds Örvars er frá Húsavíkurkirkju í dag, 23. apríl 2025, klukkan 14.00.

Við systkinin ólumst upp í nýrri símamannablokk á Birkimelnum í Reykjavík. Þar voru margar barnafjölskyldur og alltaf nóg af leikfélögum. Bak við húsið var stór verðlaunagarður og leiktæki. Hinum megin götunnar voru móar og rústir frá hernámsárunum, Hótel Saga í byggingu og KR-völlurinn, allt spennandi leiksvæði.

Oddur Örvar var þriðja barnið af sex en fyrir vorum við Björn Hólm og Valdís. Síðar fæddust Hafrún, Elínborg og Margrét Ólöf. Hann var mjög fallegt barn og mikill „sjarmör“ alla ævi.

Í blokkinni voru ekki leyfð húsdýr en við fengum að hafa hamstra á tímabili sem okkur þótti mjög vænt um. Oddur Örvar varð fljótlega mjög mikill dýravinur. Hann fór sínar eigin leiðir í að hugsa um og eignast dýr. Þar á meðal var hann með sérstakar hvítar dúfur sem hann faldi í geymslunni í kjallaranum sem tilheyrði íbúðinni.

Þegar hann var sendur í sveit í nokkur sumur norður á Siglunes eignaðist hann ekki eingöngu frábæra fósturfjölskyldu heldur naut þess í botn að fá að umgangast dýrin. Átti ekki langt að sækja það en pabbi var alinn upp í sveit og var búfræðingur áður en hann flutti suður á mölina og fékk vinnu við skeytaútsendingar.

Uppvaxtarárin á eftirstríðsárunum mótuðust af miklu basli hvað lífsafkomu varðaði. Pabbi vann yfirleitt tvöfalda vinnu en mamma sá um heimilið. Stofan í þriggja herbergja íbúðinni var leigð út og herbergi á lofti/5. hæð líka. Reglusemi var í máltíðum og háttatíma, skóli fyrst og heimanám og síðan leiktími. Oddur Örvar varð fljótt sjálfstætt hugsandi og sætti sig illa við þröngan lífsrammann heima fyrir. Hann leigði herbergi uppi á lofti sem unglingur, og fór að sjá um sig sjálfur sem eigin húsbóndi.

Hann hafði greinilega áhuga á mörgu, þar á meðal ljósmyndun. Sá áhugi entist alla ævi. Þann áhuga fékk hann frá mömmu en hún eignaðist snemma kassaljósmyndavél og hafði listrænt auga. Já, Oddi var margt til lista lagt og skapið með harðfylgninni kom honum þangað sem hann vildi og ýmsir draumar rættust enda aldrei inni í myndinni að gefast upp. Útivistarþráin fékk útrás með þjálfun bréfdúfna og hunda og veiði á landi og legi ásamt mörgu öðru. Áhugamálin gáfu honum marga vini og kunningja víða.

Það var mikið gæfuspor þegar Oddur Örvar kynntist Huldu sinni, þeirri dýrmætu eðalkonu. Eitt sinn kom hann í heimsókn til mín í Hafnarfjörðinn. Yfir kaffibollanum sagði ég honum að ég hefði á sínum tíma beðið Guð að gefa honum góða konu sem passaði fyrir hann og sömuleiðis fyrir hinum systkinunum. Það væri alveg kýrskýrt í mínum huga að Guð hefði svarað þeim bænum. Hann var mjög hissa og hugsi yfir þessu en glaður og sammála. Oddur Örvar undi sér afspyrnuvel á Húsavík, heimabæ Huldu, í nánd við fagra náttúruna. Börnin þeirra Orri Freyr, Óttar Ingi, Arna Rún og fjölskyldur þeirra eru öll vel af Guði gerð og mikið mannkostafólk og barnabörnin voru stolt afans og yndi.

Við systkinin erum öll harmi slegin yfir skyndilegu andláti bróður okkar. Guð styrki elsku Huldu Sigríði og fjölskylduna alla í sorginni.

Valdís, Hafrún, Elínborg og Margrét Ólöf
og fjölskyldur.

Kæri bróðir.

Aðeins nokkrar línur vegna skyndilegs brotthvarfs úr heimi hér.

Þakka allt liðið – sem er komið yfir 70 ára tímabil. Sérstaklega fyrir árin 1985-2000 þegar ég bjó austur á Héraði. Þá var gott að geta komið við á Húsavík hjá þér og þínum.

Núna seinni árin hefur kannski ekki verið eins mikill átroðningur af mér og mínum. Samt er umtalað sl. vetur þegar ég óvænt spurði hvort þú værir heima. Mætti síðan með tvö börn og slatta af barnabörnum.

Í haust þegar birtist síðan mynd af þér á gangi eins og vanalega varð mér hugsað til þess hvað þú værir nú alltaf hress og ekki hvarflaði að mér að þú færir svona fljótt.

Að síðustu er hér kveðskapur sem hæfir kveðjustund:

Huggi hans heiðurskvinnu

heilagur andi best.

Og börnin sæmdarsvinnu

sorgandi eftir mest.

Drottinn böl allra bæti

bið ég og líka um það.

Í Guðs ótta sérhver gæti

gjörningum Herrans að.

(Hallgrímur Pétursson)

Björn Hólm Magnússon.