Jónas Ingimundarson fæddist 30. maí 1944 á Bergþórshvoli í Vestur-Landeyjum. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 14. apríl 2025.
Foreldrar Jónasar voru Guðrún Kristjánsdóttir og Ingimundur Guðjónsson. Jónas ólst að mestu upp á Selfossi og síðar í Þorlákshöfn.
Eiginkona Jónasar er Ágústa Hauksdóttir tónlistarkennari. Börn þeirra eru Haukur Ingi, Gunnar Leifur og Lára Kristín.
Jónas hóf nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og nam síðar við Tónlistarháskólann í Vínarborg, þar sem hann lauk framhaldsnámi og dýpkaði þekkingu sína á klassískri píanótónlist undir handleiðslu reyndra meistara. Eftir nám hóf Jónas feril sem píanóleikari og tónlistarkennari. Hann starfaði við ýmsa tónlistarskóla, sinnti kennslu á háskólastigi og vann að því að efla tónlistarþekkingu almennings.
Hann kom að margvíslegum verkefnum þar sem hann kynnti klassíska tónlist og íslensk sönglög fyrir breiðum hópi áheyrenda, bæði hérlendis og erlendis. Þá lék hann á upptökum fyrir fjölmarga hljómplötu og geisladiska, bæði einleik og meðleik.
Jónas var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1994 fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar. Árið 1996 var honum einnig veitt Dannebrogorðan, heiðursmerki frá Danmörku.
Árið 2001 hlaut hann fyrstu heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna, og árið 2004 var hann útnefndur heiðurslistamaður Kópavogs, þá var hann heiðursfélagi í Rótary International.
Árið 2004 kom út bókin Á vængjum söngsins um ævi og störf Jónasar, skráð af Gylfa Gröndal.
Með öðru var Jónas ötull í þróun menningarstofnana og tók þátt í stofnun og eflingu tónleikahalds í nýjum rýmum, svo sem Salnum í Kópavogi. Þar sinnti hann bæði stjórnunar- og listfræðilegu hlutverki og átti stóran þátt í að skapa aðstæður þar sem tónlistarfólk og áheyrendur njóta listarinnar við bestu aðstæður.
Útför Jónasar verður frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 23. apríl 2025, klukkan 15.
Hlekk á streymi má nálgast á styttri slóð:
http://www.mbl.is/go/pqcnx
Í nýlegu samtali við föður minn um vályndar aðstæður í heimsmálum spurði ég hann: Hvernig var Vín eftirstríðsáranna? Hann svaraði: „Ég vil ekki ræða það, það var ljótt, skelfilegur ótti og tortryggni, ræðum frekar um fegurðina.“ Við gerðum það. Síðar þegar ég frétti að pabba óskaði þess að tiltekin verk yrðu leikin við útför hans vildi ég spyrja: Pabbi, hvers vegna þessi verk? En við náðum aldrei að ræða það, hann átti erfitt með tal, og aldrei þessu vant vildi hann ekki tala, aðeins hlusta.
Fantasía í d-moll KV 397 eftir Mozart byrjar í myrkri, hún leitar, vex og finnur svo von sem umbreytist í ljúfsáran harm. Það er leitað á nýjum stað og svo minnir harmurinn aftur á sig, og svo er ummyndun yfir í glaðan einleik. Einmitt þannig fetaði pabbi sig frá um margt særandi uppvexti upp í nærandi tímabil við hámark starfsgetu sinnar.
Nun komm der Heiden Heiland (Nú kemur frelsari heiðingjanna) eftir Bach vekur ró og auðmýkt. Pabbi sagði að hlusta á Bach væri að eiga samtal við sálina og víst er um að hann vildi frelsa okkur sem skildum ekki fegurðina með töfrum hljómsins.
Pabbi lék Impromptu í Ges-dúr D. 899 nr. 3 eftir Schubert oft einn en að því er virtist í einlægu samtali við einhvern. Túlkun hans er rík, mjúk og ljóðræn, sprettir og ró – sístæð vogun. Tónlist Schuberts snerist ekki um að sigra heldur vildi hún umfaðma og þegar ég hlusta á pabba leika þetta verk held ég að það tjái það tímabil þar sem hann naut sín glaður til fullnustu – áður en veikindamyrkvinn tók yfir. Næturljóð (Noktúrna) Chopins er hugleiðing, minning, tregi og þrá. Pabbi skildi vel hvernig þögn Chopin er fyllt af því sem ekki verður með orðum sagt; þegar hann settist við píanóið gat hann tjáð eitthvað sem við vitum öll innst inni og fáir þekktu betur en hann sjálfur.
Það er komið að leiðarlokum; pabbi vill kveðju. Hægi kaflinn úr Píanókonsert nr. 3 í c-moll er djúpt og einlægt samtal við alheiminn; tónlistin hrópar ekki „hlustaðu á mig!“ heldur hvíslar „vertu hér með mér“. Og vinir pabba í Sinfóníuhljómsveit Íslands verða hér að fulltrúum samstarfsfólks – söngvara og tónlistarfólks – eins konar sammannlegur styðjandi samhljómur sem umvefur drenginn frá Bergþórshvoli, öll sem ein. Sorgarmarsinn úr sónötu op. 26 birtir skilaboð pabba um kveðjustundina: Enga væmni, enga dramatík, aðeins einfaldleika, reisn og virðingu.
Pabbi vill að tónlistin leiðbeini okkur – rólega og hlýlega – yfir í nýja tíma þar sem minningin um hann lifir. Þegar ég hlusta á upptökur hans á Spotify átta ég mig á að hann kennir nú framandi heims sem hann þekkti þó alla tíð. Trú mín segir mér að þetta sé fallegur heimur – ekkert rugl, engin græðgi, engin pólitík – og ég get aðeins vonað að þetta sé heimur þar sem mamma hans og pabbi geti nú frjálst og í sátt elskað drenginn sinn eins og hann var, er og verður. Þegar ég nú hlusta þá heyri ekki aðeins tónlistina sem hann elskaði – ég heyri hann sjálfan. Hann lék sér í lífinu eins og hann lék á slaghörpu sína, af djúpri alúð og virðingu – og sá ómur mun áfram hljóma.
Haukur Ingi Jónasson.
Alveg síðan ég man fyrst eftir mér vissi ég að afi Jónas var merkilegur maður. Tónarnir sem bárust úr stofunni voru himneskir og þeim fylgdi oft hlátur afa við flygilinn þar sem hann æfði sig með brosmildum óperusöngvurum og hljóðfæraleikurum. Það var alltaf gleði á heimili ömmu og afa á Álfhólsvegi og þar varði ég miklum tíma sem barn. Garðurinn var mín paradís og tónlistin úr stofunni varð innblástur mikilfenglegra ævintýra. Mér fannst gott að liggja undir flyglinum með hundinum Kópi og finna nóturnar óma í hljóðfæri afa á meðan við Kópur létum hugann reika. Einstaka sinnum, þegar enginn nema afi sá til, dansaði ég tjáningarríkan dans og gafst fegurð tónanna á þann hátt. Við afi vorum náin og samveran með honum var mikil gjöf inn í lífið. Listfengi hans heillaði mig og tónlistin hans var innblástur fyrir sköpunargáfu mína.
Amma og afi voru falleg hjón, miklar fyrirmyndir, sálufélagar og bestu vinir. Þau voru heppin að eiga hvort annað og deila saman tónlistarástríðunni. Það var mikil unun að sitja með þeim í stofunni í Lundi þar sem þau opnuðu fyrir mér hinn stórkostlega undraheim sígildrar tónlistar. Innlifun þeirra var svo einlæg og djúpstæð að þau áttu það til að kippast til og lyfta höndum til himins í ástríðufullri andakt; þau nánast tókust á loft og ég með þeim, svo mikil voru áhrifin. Og þegar við loksins lentum þá ræddu þau, hvort í kapp við annað, um verkið, litróf tónanna, og túlkun flytjandans: Heyrði ég hvernig píanóið tjáði sólskinið sem geislaði í öldurótinu? Hvernig laglínan og takturinn tjáði vængjaþyt fuglanna?
Áður en afi lést sat ég hjá honum á Landspítalanum. Ég hafði alltaf notið þess að halda í hendur hans og á fullorðinsaldri laumaði ég gjarnan hendi minni í hans. Nú voru hendur hans – þessar píanóhendur sem höfðu alltaf verið fyrir mér fallegustu, hlýjustu og mýkstu hendur veraldar – bláar og marðar eftir langa veikindabaráttu. Afi opnaði þreytt augnlokin og allt í einu lá honum mikið á. Hann vildi ólmur sjá stuttmynd sem ég hafði gert fyrir mörgum árum; hann hafði leikið afa aðalpersónunnar. Ég fann myndina í símanum og við horfðum saman á atriði sem tekið var upp í gömlu stofunni á Álfhólsvegi. Aðalpersónan er ung kona sem gengur inn í stofu þar sem afi hennar leikur á píanó. Hún sest niður, lygnir aftur augum og heldur á vit bernskuminningar. Á meðan við horfðum lokaði afi augunum og naut þess að hlusta á sig spila Chopin, Noktúrnu í c-moll. Tónlistin snart hann. Hann lyfti höndunum með tilþrifum og sveiflaði þeim fram og til baka. Hann gleymdi hráum veruleika sjúkdómsins og tónlistin gaf honum byr. Hann brosti þegar lagið kláraðist og leit á mig tárvotum augum. „Var þetta ekki fallega spilað?“ Ég tók utan um afa, kúrði enni mitt upp við hans og við leyfðum þögninni að tjá það sem við gátum ekki tjáð með orðum. „Nú þarft þú að bera kyndilinn,“ sagði hann loks. Og það mun ég gera elsku afi. Ég mun gera mitt besta til að feta í þín spor og halda áfram að deila fegurðinni með heiminum.
Ugla Huld Hauksdóttir.
Kveðja frá Karlakórnum Fóstbræðrum og Gömlum Fóstbræðrum.
Jónas Ingimundarson er látinn. Fóstbræður og Gamlir Fóstbræður minnast hans með mikilli virðingu og hlýhug.
Jónas stjórnaði Fóstbræðrum á árunum 1974 til 1979 og Gömlum Fóstbræðrum frá 1997 til 2009. Þá var Jónas píanóleikari Fóstbræðra um árabil á tónleikum kórsins hér á landi, auk þess sem hann tók þátt í mörgum ferðum hans erlendis sem píanóleikari. Við slík tækifæri var einleikur Jónasar á píanó iðulega hluti af dagskránni. Þá eru ótaldir fjölmargir viðburðir sem Jónas stjórnaði Fóstbræðrum í forföllum starfandi söngstjóra í gegnum tíðina. Jónas varð því fljótlega náinn félagi Fóstbræðra og hann og Ágústa kona hans þátttakendur í öllum viðburðum sem Fóstbræður efndu til. Á síðasta þorrablóti Fóstbræðra í ár mætti Jónas og ávarpaði viðstadda svo eftir var tekið. Í kjölfarið stjórnaði hann kórnum í laginu „Kirkjuhvoll“, en það varð einkennislag hans með kórnum í seinni tíð.
Þegar Jónas tók við sem stjórnandi Fóstbræðra var hann þrítugur að aldri. Þá þegar var komin í ljós sú atorka og kraftur sem einkenndi öll störf Jónasar á starfsævi hans. Hann náði strax nánum tengslum við kórmenn með sinni ljúfu og oft á tíðum gamansömu framkomu. Jónas færðist mikið í fang varðandi krefjandi lagaval og samsetningu tónleikadagskrár kórsins. Hann gætti þess einnig að sýna söngarfi Fóstbræðra mikla virðingu með því að halda gömlum og góðum karlakórslögum í æfingu og flutningi. Þannig náði hann að sætta ólík sjónarmið, bæði meðal kórmanna og ekki síður styrktarfélaga kórsins. Í stjórnendatíð Jónasar voru farnar nokkrar utanlandsferðir, meðal annars til Sovétríkjanna árið 1976. Frá þeirri ferð eru til margar kostulegar sögur, sem ekki verða tíundaðar hér.
Áður en Jónas ákvað að gerast stjórnandi Fóstbræðra gekk hann á fund Jóns Þórarinssonar tónskálds og fyrrverandi kennara síns, en Jón var stjórnandi Fóstbræðra á árunum 1950-1954. Jón þagði lengi eftir að Jónas hafði spurt hann álits á því hvort hann ætti að taka að sér starfið. Loks svaraði hann og sagði: „Ég hef engan mann hitt sem ekki hefur haft gott af því að umgangast Fóstbræður.“
Jónas var lítt hrifinn af starfsheitinu „undirleikari“. Þó hló hann dátt úti í Bandaríkjunum á ferð með Fóstbræðrum þar árið 1982, þegar hann fékk afhentan flugmiða í innanlandsflugi sem á stóð: „Mr. J.I. Undirleikari“.
Með Jónasi Ingimundarsyni er genginn mikill mannkostamaður, sem gott var að vera með. Hann hafði einstakt lag á að hrífa menn með sér til góðra verka og gat útskýrt hlutina þannig að allir skildu. Afköst hans og elja við tónlistarflutning voru oft á tíðum engu lík. Það var mikil gæfa Fóstbræðra að hafa Jónas í sínum röðum um fimmtíu ára skeið. Fóstbræður kveðja Jónas Ingimundarson með miklu þakklæti og flytja Ágústu og fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Jónasar Ingimundarsonar.
Jón Þorsteinn Gunnarsson.
Ég var svo lánsöm að kynnast Jónasi Ingimundarsyni í starfi mínu sem bæjarstjóri og fann strax hversu mikinn metnað hann hafði fyrir tónlistarlífi Kópavogs.
Árið 1994 hóf Jónas störf sem tónlistarráðunautur Kópavogs og var einn helsti hvatamaður að byggingu Salarins, fyrsta sérhannaða tónleikasalar landsins, sem var vígður í janúar 1999. Jónas var sannkallaður frumkvöðull og hefur verið nefndur guðfaðir Salarins sem honum var ávallt mjög hlýtt til. Um sérstöðu hans lét hann nýlega eftirminnileg orð falla: „Mörg hús á Íslandi hafa verið notuð sem tónlistarhús og keypt í þau hljóðfæri, en þessi hús voru ekki hönnuð fyrir tónleikahald. Það vantaði í þau hljóminn. Það er munur á tónlistarhúsi og tónleikastað.“
Jónas lagði ríka áherslu á tónlistarkennslu fyrir ungt fólk og mótaði meðal annars verkefnið „Tónlist fyrir alla“, sem miðar að því að fræða æsku landsins um tónlist.
Jónas var gerður að heiðursborgara Kópavogs árið 2011 fyrir ómetanlegt starf í þágu tónlistar og menningar. Þrátt fyrir að Jónas kæmi ekki lengur fram opinberlega hélt hann áfram að leggja sitt af mörkum til tónlistarlífsins með því að skipuleggja viðburði og hvetja til nýsköpunar í tónlist. Mér eru minnisstæðir afmælistónleikar Jónasar sem voru haldnir í maí á síðasta ári þar sem Jónas hafði raðað saman tónlistarfólki í fremstu röð og að sjálfsögðu var sú hátíð haldin fyrir fullum sal í Salnum í Kópavogi.
Jónas Ingimundarson skilur eftir sig djúp spor í íslensku tónlistarlífi, ekki aðeins sem framúrskarandi píanóleikari heldur einnig sem kennari og kórstjóri. Arfleifð hans mun lifa áfram í hjörtum þeirra sem nutu listar hans og í menningarstarfi sem hann lagði grunn að.
Við kveðjum Jónas af mikilli virðingu og þakklæti fyrir allt hans merka tónlistarstarf. Minning hans mun lifa áfram með Salnum okkar í Kópavogi.
Ásdís Kristjánsdóttir,
bæjarstjóri Kópavogs.
Haustið 1974 réðu Fóstbræður Jónas Ingimundarson til að stjórna kórnum. Á sama tíma gekk sá er þetta ritar til liðs við kórinn.
Samstarf okkar Jónasar og vinátta hefur því varað í rösklega hálfa öld. Jónas setti strax sinn svip á söng kórsins. Hann setti markið hátt og vandaði vel til verka.
Utan raða Fóstbræðra er mér minnisstætt er við slógum til og gáfum út geisladisk með íslenskum sönglögum og nokkrum aríum eftir R. Wagner. Við æfðum heima hjá þeim hjónum og var fengur að vita af konu hans Ágústu skammt undan enda lagði hún gott til mála þegar henni fannst ástæða til.
Of langt mál yrði að telja upp allt það annað sem við Jónas tókum okkur fyrir hendur bæði innan sem utan Fóstbræðra.
Fyrir réttum þremur vikum hringdi Jónas í undirritaðan og vildi að við hittumst til að ræða málin. Þeim fundi varð þá ekki við komið en við ákváðum að strax eftir páska myndum við hittast. Þetta var fastmælum bundið. Af skiljanlegum ástæðum er þessum fundi hér með frestað um óákveðinn tíma.
Að leiðarlokum þakka ég Jónasi fyrir samstarf og vináttu sem aldrei bar skugga á.
Við hjón sendum Ágústu og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur. Megi sá er öllu ræður gefa þeim styrk við fráfall Jónasar.
Þorgeir J. Andrésson.
Guðfaðir íslenska einsöngslagsins er floginn á vængjum söngsins inn í eilífðina. Ekki var Jónas einungis hallur að söngtónlist, heldur alvitur tónlistarspekúlant af Guðs náð. Við getum verið óendanlega þakklát fyrir að Jónas fékk píanótíma í fermingargjöf, en ekki kennslutíma á slagVERK. Því það varð ekki aftur snúið og slagHARPAN varð hans ævifélagi. Síðan þá hefur hann verið óþreytandi við að miðla, opna skynjunarfærin fyrir áhrifamætti tónlistarinnar. Jónas var sérlega tilfinninganæmur og djúphugsandi maður. Hann var galopinn fyrir að leita að litbrigðum og tærleika í meistaraverkum tónbókmenntanna, hvort heldur voru örfínar perlur eða stórbrotin verk, sem toguðu mann og teygðu allan tilfinningaskalann. Þegar vel tekst til hefur tónlistin töframátt og örvar skynfærin. Jónasi var það hjartans mál að boða fagnaðarerindið. Á barnsaldri heillaðist hann af og leitaði huggunar í þegar heimssöngvarar hófu upp raust sína á „Gufunni“. Þeir urðu hans bestu vinir og áhrifavaldar um ókomna tíð.
Ævintýraleg samvinna okkar hófst fyrir hartnær 40 árum. Strax fundum við samhljóm og okkur leið vel í músíkfangi hvort annars. Við vorum ástríðufullir þjónar tónlistargyðjunnar. Við tókumst á við hin fjölbreyttustu og krefjandi verk, en æfingar gengu iðulega eins og vel smurð vél. Við þurftum ekki að eyða óþarfa tíma í djúpar pælingar varðandi útfærslu eða áferð. Við vögguðum í takt. Oft er það þannig, að maður veit aldrei hver endanleg útkoma verður. Við erum svo lífræn, ekki vélar. Andinn blæs manni í brjóst.
Tvennt áttum við sameiginlegt; ást á sönglist og smekk fyrir húmor. Jónas hló djúpt og innilega, það kraumaði í honum lengi vel hljóðlaust, áður en það sprakk svo fram.
Álfahóllinn var oft eins og á umferðarmiðstöð. Hvílík var örtröðin af okkur „álfunum“, sem sóttum kónginn heim til æfinga. Allir hver með sína dagskrána!
Eldmóðurinn var alltaf hvílíkur, sem tónleikaraðirnar í Gerðubergi bera glöggt vitni um; svo hugarfóstrið sem varð að veruleika, Salurinn, og stóra verkefnið „Tónlist fyrir alla“.
Eitt sinn var ég stödd sem endranær hjá Álfakónginum, þegar örlagaríkt símtal barst. Það leiddi af sér ævintýralegar tónleikaferðir til Moskvu, Tarussa og Pétursborgar. Merkustu listamenn þeirrar þjóðar sem við kynntumst skynjuðu lotninguna og elskuna í spilamennsku Jónasar. Okkur stóðu allar dyr opnar að helgustu véum þeirra listamanna. Sem dæmi fékk Jónas að gjöf lykil að flygli sjálfs Svjatoslavs Richters.
Við ferðuðumst víða um heima og geima; tókum upp sjónvarpsþættina „Græna herbergið“, þar spáði Jónas og spekúleraði um Tónlistarundrið.
Fyrir tæpum 30 árum veiktist Jónas, en lífsviljinn við að halda kyndli söngmenntunar á lofti togaði hann á fætur á ný. Veikindin slógu hann nokkur bylmingshögg, en hann var eins og kötturinn með níu líf og reis alltaf upp.
Kletturinn í lífi hans, Ágústa, hefur hlúð og haldið utan um ótrúlega starfsævi
stórbrotins listamanns.
Hafið þið þökk fyrir allt og allt.
Sigrún Hjálmtýsdóttir.
Ég var kennari við Menntaskólann við Sund árið 1980, þegar Karlakórinn Fóstbræður hélt hádegistónleika í íþróttasal skólans. Kórinn söng mjög fallega, en það sem mér er minnisstæðast voru bráðfyndnar kynningar kórstjórans á efnisskránni. Þetta var Jónas Ingimundarson.
Nokkrum árum seinna, sumarið 1983, hélt ég mína fyrstu tónleika í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi. Minnugur húmorsins hjá Jónasi vélaði ég hann til að spila með mér. Í kjölfarið urðum við nánir samstarfsmenn og vinir. Samstarfið var alltaf skemmtilegt og gefandi. Hann var óþrjótandi þekkingarbrunnur og einhver besti meðleikari sem hægt var að hugsa sér. Við komumst alltaf að sameiginlegri niðurstöðu með því að láta tónlistina leiða okkur áfram. Það þurfti engar vangaveltur.
Fljótlega varð mér ljóst að hann var ekki bara músíkalskur húmoristi. Hann var stórhuga mikilmenni. Tónlistin var honum ekki bara skemmtun, hún var honum heilög.
Hann var óþreytandi við að efla tónlistaráhuga um allt land. Hann benti ráðamönnum á það, að ef þeir vildu njóta góðrar tónlistar yrðu þeir að geta boðið upp á fyrsta flokks hljóðfæri. Við héldum eitt sinn tónleika á ónefndu hóteli á landsbyggðinni. Hótelstjórinn hafði stór orð um eldhúsið og aðstöðuna þar. „Hér getum við fyrirvaralaust tekið á móti tveimur rútum, fullum af fólki, og verið tilbúnir með kvöldmat á innan við klukkutíma.“ Eftir tónleikana spurði hótelstjórinn Jónas hvort ekki væri allt í lagi með píanóið og fékk þetta svar: „Ef ástandið á eldhúsinu hjá þér væri eins og á píanóinu, þá væri ekki eldaður matur hér.“ Nokkrum mánuðum síðar hafði hótelið fest kaup á nýjum Steinway-flygli. Þeir eru orðnir nokkuð margir flyglarnir sem Jónas hefur valið og látið kaupa.
Jónas var sjúklingur í mörg ár, en samt lét hann það lengi vel ekki aftra sér. Mér eru minnisstæðir tónleikar sem við héldum í París fyrir 15-20 árum. Þá var hann í miðri baráttu við krabbamein og til að gera honum ennþá erfiðara fyrir hafði hann stuttu áður orðið fyrir lithimnulosi á öðru auganu, sem gerði honum erfitt að lesa nótur. Kvöldið fyrir tónleikana þurfti hann að fara inn á sjúkrahús vegna krabbameinsins. Þetta allt hefði nægt til að gera venjulegt fólk óstarfhæft. En Jónas var enginn venjulegur maður. Hann hleypti í sig einhverjum óútskýranlegum krafti og gerði þessa tónleika með þeim eftirminnilegustu sem ég man eftir.
Hann var einn af mínum allra bestu vinum. Hans verður sárt saknað.
Við Ásgerður sendum Ágústu og fjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Guð blessi minningu hans.
Kristinn Sigmundsson.
Vinur minn Jónas Ingimundarson píanóleikari er látinn. Um áratugaskeið hefur Jónas verið í hópi fremstu tónlistarmanna þessa lands. Fyrir meira en tveimur áratugum greindist hann með illvígan sjúkdóm sem hann barðist hetjulega við uns yfir lauk. Ég hef aldrei kynnst manneskju með eins sterkan lífsvilja og jafnmikla ástríðu fyrir tónlist og Jónasi. Ég minnist fyrstu áranna í baráttu hans við sjúkdóminn. Hann þurfti mjög oft að leggjast inn á sjúkrahús í alls konar erfiðar aðgerðir, en svo voru fyrirhugaðir tónleikar og Jónas reis upp af sjúkrabeði og lék á tónleikunum. Þetta voru kraftaverk. Ég held að Jónas hafi fengið þennan ótrúlega kraft til að gera hið ómögulega úr tónlistinni. Hún bókstaflega endurnýjaði hann bæði líkamlega og andlega og lyfti honum upp yfir allar þessar þjáningar og erfiðleika. Þetta er fæstum gefið að geta framkvæmt, en Jónas sýndi þennan mátt og hæfileika árum saman.
Jónasi var margt gefið auk píanólistar sinnar. Hann var framúrskarandi skipuleggjandi og hugsjónamaður og kom til dæmis mörgum ungum söngvurum á framfæri og miðlaði þeim af reynslu sinni, þekkingu og ástríðu. Í mörg ár hélt hann uppi vinsælli tónleikaröð í Gerðubergi eða þar til Salurinn í Kópavogi var vígður. Jónas var frumkvöðull að byggingu hans. Þar kom hann á fót tónleikaröðinni frægu Tíbrá sem enn heldur nafni hans á lofti. Hann stofnaði einnig tónleikaröðina Tónlist fyrir alla sem var hugsuð fyrir alla landsmenn svo tónlistarfólk fór á vegum þessarar tónleikaraðar víða um land. Jónas lagði mikið upp úr því að fræða fólk um tónlist og því talaði hann og kynnti tónlistina áður en hann lék hana. Þetta fórst honum ákaflega vel úr hendi enda voru vinsældir hans eftir því. Síðustu árin þegar orkan ótrúlega þvarr og Jónas gat ekki lengur komið fram og leikið á píanóið sitt skrifaði hann, skipulagði og lagði drög að stórbrotinni útgáfu á tónleikaupptökum sem hann á löngum ferli hafði tekið þátt í.
Jónas Ingimundarson skilur eftir sig mikinn og dýrmætan arf með lífi sínu og starfi sem píanóleikari, kennari, skipuleggjandi og hugsjónamaður. Allir sem til þekkja eru honum þakklátir fyrir hans stóra skerf til framþróunar tónlistarmenningar á Íslandi. Í þessu sambandi er vert að minnast á eiginkonu hans Ágústu Hauksdóttur sem var kletturinn í lífi Jónasar. Sú manneskja sem ætíð studdi hann til góðra verka og átti stóran þátt í þessari glæsilegu vegferð. Nú hefur sál Jónasar losnað úr viðjum og svífur frjáls mót heiðríkju æðra tilverustigs. Við Guðný sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til Ágústu og fjölskyldunnar allrar.
Gunnar Kvaran.