Valgerður Sigurðardóttir fæddist 16. september 1933 á Ljótsstöðum í Vopnafirði. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum 11. apríl 2025.
Valgerður, eða Gerða, eins og hún var jafnan kölluð, var dóttir hjónanna Sigurðar Gunnarssonar bónda og oddvita á Ljótsstöðum, f. 5. nóvember 1895, d. 24. maí 1974, og Jóhönnu Sigurborgar Sigurjónsdóttur húsfreyju frá Ytri-Hlíð, f. 9. nóvember 1900, d. 5. júní 1992. Systkini Valgerðar: Gunnar, f. 1924, d. 2015, Sigurjón, f. 1925, d. 2008, Ágúst, f. 1926, d. 2023, Sigurður, f. 1928, d. 2010, Jörgen, f. 1930, d. 2000, Jón, f. 1932, d. 2019, Anna, f. 1935, Katrín, f. 1936, og Árni, f. 1943, d. 2020.
Valgerður eignaðist tvær dætur með Hreiðari Ásmundssyni, þau slitu samvistum. Þær eru: Margrét, f. 17. febrúar 1964, eiginmaður hennar er Jökull Hlöðversson, og Unnur, f. 1. nóvember 1967, sambýlismaður hennar er Sigurður Jóhannesson. Dóttir Unnar og fyrrverandi eiginmanns hennar, Egils Steingrímssonar, f. 18. september 1963, d. 26. apríl 2015, er Hanna Sóley, f. 7. janúar 1999.
Valgerður ólst upp á Ljótsstöðum við nám í farskóla og hefðbundin sveitastörf þess tíma. Hún lauk námi í klæðskurði frá Iðnskólanum í Reykjavík og dvaldi hluta vetrar í Danmörku þar sem hún lærði sniðteikningu. Í Reykjavík starfaði hún á saumastofunni Últímu og Fatagerð Ara og co. þar til hún flutti aftur á æskuslóðirnar í Vopnafirði. Á yngri árum vann hún einnig meðal annars við fiskvinnslu og síldarsöltun. Á Vopnafirði starfaði hún lengst af við kjötborðið í verslun Kaupfélags Vopnfirðinga en síðustu ár starfsævinnar í eldhúsi hjúkrunarheimilisins Sundabúðar. Einnig tók hún að sér fatasaum og –viðgerðir á heimili sínu.
Valgerður átti sér ýmis áhugamál. Náttúran var henni hugleikin, hún fékk sér gjarnan bíltúr um nágrenni Vopnafjarðar með myndavél í farteskinu. Afraksturinn varð oftlega fyrirmynd málverka sem hún skapaði. Hún hafði mikla ánægju af að mála, sótti nokkur námskeið og var í félagsskap kvenna sem hittust og unnu saman að list sinni. Þær samverustundir voru henni mikls virði. Á árum áður var hún félagi í Ferðafélagi Vopnafjarðar og slysavarnadeildinni Sjöfn. Hún naut þess að ferðast með Ferðafélaginu og einnig vinnuferðanna sem farnar voru á þess vegum. Hún brá sér líka nokkrum sinnum út fyrir landsteinana, ferðaðist bæði með dætrum sínum og kunningjum.
Í áratugi bjó Gerða í Baldursheimi, húsi sem foreldrar hennar festu kaup á árið 1968. Móðir hennar bjó á neðri hæðinni nánast til síðasta dags og Gerða og dæturnar á þeirri efri. Katrín systir Gerðu og dætur hennar tvær bjuggu einnig í Baldursheimi um tíma.
Haustið 2019 flutti Gerða á dvalarheimilið Sundabúð á Vopnafirði, þar bjó hún þar til í haust sem leið að hún fluttist á Dyngju.
Útför Valgerðar fer fram frá Hofskirkju í Vopnafirði í dag, 23. apríl 2025, og hefst klukkan 14.00.
Elsku mamma, Gerða eins og hún var alltaf kölluð, er látin. Fyrir nokkrum árum fór heilsu hennar að hraka og síðustu vikurnar fyrir andlátið var hún orðin mjög veik en nú er hún laus úr þeim fjötrum og flutt yfir í sumarlandið.
Mamma var mikið náttúrubarn og margar góðar minningar eigum við með henni frá ferðalögum um landið og ekki síst uppi á hálendinu þar sem hún fór í ferðir með okkur með ferðafélagi Vopnafjarðar. Það var mögnuð upplifun að fá að kynnast hálendinu og fjallakyrrðinni í þessum ferðum. Einnig var hún óþreytandi að fara með okkur í berjamó í sveitinni og tína fjallagrös uppi í heiði og kenndi okkur helstu örnefnin á leiðinni með misjöfnum árangri.
Hún var mikið fyrir blóm og átti margar tegundir af stofublómum sem hún naut þess að sjá vaxa og dafna og eins nostraði hún við blómin í blómabeðunum í garðinum sínum. Mamma hafði alla tíð mikinn áhuga á bókum, las mjög mikið og átti heilmikið og fjölbreytt bókasafn og eins hafði hún áhuga á ættfræði og var búin að grúska þó nokkuð í því eftir að hún fór á eftirlaun.
Mamma hafði til að bera mikla þrautseigju og aldrei man ég eftir að hafa heyrt hana kvarta þó að oft væri mikið að gera hjá henni og verkefnin ekki alltaf auðveld. Hún var alltaf til staðar fyrir okkur systur og fjölskyldur meðan hún hafði heilsu og var það okkar gæfa að hafa alist upp hjá þessari mögnuðu konu og fyrirmynd.
Elsku mamma, takk fyrir allt sem þú gafst okkur og allar góðu minningarnar, ég sakna þín en veit að þú ert komin á fallegan stað í sumarlandinu.
Ég vel þér kveðju, sem ég virði mest,
von, sem í hjarta geymi.
Annist þig drottins englar best
í öðrum og sælli heimi.
(Valdimar Jónsson frá Hemru)
Þín,
Unnur.