Steinfríður Ólafsdóttir fæddist 27. júlí 1931. Hún lést 20. mars 2025.

Útför hennar fór fram 4. apríl 2025.

Fallin er frá elsku frænka mín, Steina Óla.

Upp hrannast óteljandi minningar um yndislega manneskju sem sá alltaf það besta í öllum, réttsýn og bjartsýn.

Mér hefur alltaf liðið þannig að á milli okkar Steinu hafi verið sérstakur strengur. Hún og Guggi ættleiddu bróður minn og jafnaldra, Grétar, á unga aldri.

Steina passaði nefnilega alltaf upp á það að við værum í sambandi, þ.e. ég við hana og fjölskylduna. Hún var „blóðmóðurafasystir“, er það ekki orð? Afa sem ég kynntist aldrei, því hann hafði látist árið áður en ég fæddist og ég nánast alla tíð alin upp hjá föðurfjölskyldunni minni á Siglufirði.

Þær eru ótal stundirnar sem ég átti hjá henni á Hlíðarveginum, ég vandi komur mínar þangað eftir skóla. Þá sátum við stundum saman í eldhúsinu og hún tók oft samtal við mig um ættfræði, hún hafði einstaklega gaman af því að fræða mig og sagði mér sögur af ættingjum, stundum töluvert langt aftur fimm ættliði eða svo og var hún virkilega stolt af sínu fólki. Stundum eyddi ég tímanum hjá henni bara við lestur í sófanum í litla herberginu inn af eldhúsinu eða við leik á háaloftinu í ævintýraheimi.

Minningar um jólin á Hlíðarveginum eru mér einstaklega kærar, jóladegi eyddi ég alltaf hjá Steinu og Gugga, allt frá því ég man eftir mér og þar til ég flutti á Krókinn, komin á fullorðinsár. Það voru nú engar smá veislur, hlaðborð með öllu sem hugurinn girntist. Fyrir utan allt þetta hefðbundna, hangikjötið og laufabrauðið og fleira, voru alltaf kaldar kótelettur, hákarl, harðfiskur og baunasalatið góða á hennar borðum. En Steina hafði samt lengi vel orð á því „hvaðan ég væri tekin?“ því ég borðaði aldrei laufabrauð og þótti henni það alltaf mjög sérstakt. En það átti nú eftir að breytast með árunum, þannig að ég held að frænka mín væri ánægð með mig núna.

Sannarlega hefur Steina mín gengið í gegnum miklar sorgir á langri ævi. Stærsta missinn tel ég vera þegar Grétar féll frá árið 2013. Hann skildi eftir djúp spor hjá okkur öllum sem þekktum hann.

En alltaf stóð hún teinrétt þessi fallega og fágaða kona, og studdi sitt fólk, hún hefur alltaf verið mér ákveðin fyrirmynd.

Hún sagði svo oft við mig: „Það þýðir ekkert að gefast upp.“ Alveg sama hvað gekk á, þótt sjónin væri farin að stórum hluta hjá henni eða hvað annað.

Seinni árin töluðum við meira saman í síma. Það var alltaf allt gott að frétta hjá Steinu og ekki brást að hún hringdi í mig á afmælisdaginn minn. Það hefur mér alltaf þótt einstaklega vænt um.

Elsku Steina mín, ég veit að það verður tekið vel á móti þér nú þegar þú hefur kvatt þetta jarðlíf og án efa verða miklir fagnaðarfundir.

En eftir sitja börnin þín, barnabörn og langömmubörn auk allra annarra ættingja sem sakna þín sárt.

Ég sendi þeim öllum innilegar samúðarkveðjur.

Minningu þinni verður alltaf haldið á lofti. Þú skilur svo sannarlega eftir þig ómetanleg spor í mínu lífi.

Hvíldu í friði.

Þín,

Auður

Haraldsdóttir.