Gunnar Már Torfason fæddist 26. júní 1924. Hann lést 5. apríl 2025.
Útför Gunnars Más fór fram 15. apríl 2025.
Ég minnist Gunnars Más með gleði og djúpu þakklæti í hjarta. Mín fyrstu kynni af honum voru þegar hann starfaði við akstur úr sandnámu á Hvaleyri við Hafnarfjörð sem Ragnar Gíslason frá Vesturkoti hafði frumkvæði að því að nýta og hefja rekstur á. Þetta var fínn pússningasandur og mikil eftirspurn eftir honum við miklar framkvæmdir í Reykjavík og nágrenni árin eftir lok seinni heimsstyrjaldar.
Við námuvinnsluna og akstur störfuðu með Ragnari nokkrir bræður hans, þ. á m. Hafsteinn eiginmaður minn. Það varð fljótt mikil eftirspurn eftir sandinum og þurfti að bæta við starfsmönnum og kom Gunnar Már þá inn í hópinn.
Þegar starfið við sandnámið stóð sem hæst var það mitt hlutverk að taka við pöntunum í síma og voru þetta sannarlega annasamir en um leið skemmtilegir tímar. Svo fór að sandnáminu var hætt og fóru Ragnar, Hafsteinn og Gunnar þá að starfa sjálfstætt á Vörubílastöð Hafnarfjarðar.
Gunnar var sannkallaður gleðigjafi og þau hjónin, hann og Auður, sóttu mikið í dans og voru hrókar alls fagnaðar á skemmtunum. Með okkur Hafsteini og þeim hjónum myndaðist einlæg vinátta og var unun fyrir okkur Hafstein að vera samvistum við þau. Árin liðu og fjölskyldur okkar stækkuðu en hin traustu vinabönd styrktust og efldust.
Í marsmánuði 1981 dundi á mikið áfall þegar Hafsteinn maður minn lést skyndilega eftir erfið veikindi. Þá brá Gunnar Már skjótt við og varð sterkasta stoð mín og barna minna í þeirri miklu sorg og öllum þeim verkefnum smáum sem stórum sem þurfti að glíma við í kjölfar andláts Hafsteins. En þar var ekki staðar numið hjá Gunnari Má. Alla tíð síðan var hann til staðar fyrir mig og fjölskyldu mína.
Gunnar Már var mjög félagslyndur og eftir honum var tekið í bæjarlífinu í Hafnarfirði. Hann lá ekki á skoðunum sínum og fylgdi þeim eftir af festu en án þess að skaða neinn eða hallmæla. Gunnar Már var mikill gæfumaður og vinsæll. Þau Auður eignuðust sex mannvænleg börn en því miður dó Auður árið 1993, aðeins 62 ára að aldri.
Gunnar Már fagnaði 100 ára afmæli sínu á síðasta ári. Ég er full þakklætis fyrir að hafa átt hann að samferðamanni og traustum vini. Ég og börn mín og fjölskyldur þeirra vottum börnum Gunnars Más og öðrum ástvinum innilega samúð.
Sigríður
Guðbjörnsdóttir
(Lilla).