Sæluvika Skagfirðinga, hin árlega menningarhátíð, verður sett með athöfn í Safnahúsinu á Sauðárkróki næstkomandi sunnudag. Meðal atburða þann dag er afhjúpun á endurnýjaðri styttu af hestinum Faxa, sem stóð við Faxatorg allt frá 1971 til 2023, er sveitarfélagið ákvað að taka hana niður og endurnýja.
Ragnar Kjartansson myndlistarmaður var fenginn til að gera verkið fyrir 100 ára afmæli Sauðárkróks árið 1971. Í tilefni 100 ára fæðingarafmælis Ragnars ákvað sveitarfélagið að endurgera styttuna, færa hana úr steypu í brons og endurnýja stöpulinn undir hestinum. Nú er því verki lokið og Faxi kominn á sinn stall, en verður innklæddur þar til á sunnudag.
Þótt Sæluvikan hefjist á sunnudag verður forskot tekið á sæluna í kvöld með minningartónleikum í Miðgarði um Stefán R. Gíslason, kórstjóra Heimis og organista, sem féll frá í október 2023. Fram koma m.a. Karlakórinn Heimir, Álftagerðisbræður og Kirkjukór Glaumbæjarprestakalls.