Hallgrímur Einarsson fæddist á Urðum í Svarfaðardal 18. apríl 1951. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 8. apríl 2025.
Foreldrar hans voru Einar Hallgrímsson, bóndi á Urðum, f. 23. maí 1921, d. 26. ágúst 2016, og Guðlaug Anna Guðnadóttir, húsfreyja á Urðum, f. 9. desember 1921, d. 23. nóvember 2011. Systur Hallgríms eru Halla Soffía, f. 30. mars 1949, og Jóhanna Guðný, f. 18. apríl 1951.
Halli bjó á Urðum alla sína ævi, en var á Hjúkrunarheimilinu Dalbæ, Dalvík síðustu tvö árin. Halli útskrifaðist sem búfræðingur frá Hólaskóla árið 1972. Hann tók við búi foreldra sinna ásamt systrum sínum og sinnti bústörfum alla tíð meðan heilsan leyfði. Samhliða bústörfum vann Halli á sláturhúsinu á Dalvík í mörg ár, annaðist forðagæslu og sat í stjórnum fjölmargra félagasamtaka í byggðarlaginu svo eitthvað sé nefnt. Hann var mjög virkur í sönglífi og söng í flestum kórum á svæðinu.
Halli verður jarðsunginn frá Urðakirkju í dag, 24. apríl 2025, kl. 13. Hlekk á streymi frá útförinni má nálgast á https://www.mbl.is/andlat/
Elsku frændi.
Það er með trega og söknuði í hjarta sem við kveðjum Halla frænda í dag, sorgmædd yfir því hvernig erfiðir sjúkdómar og áföll herjuðu á síðustu árin en þakklát fyrir allar samverustundirnar og minningarnar um góða tíma sem aldrei verða frá okkur teknar.
Það hefur ýmislegt flogið gegnum hugann þessa daga sem liðnir eru síðan kveðjustundin kom skyndilega. Fyrst og fremst erum við þakklát fyrir að hafa fengið að alast upp með frænda á heimilinu. Þó að við eigum ótalmarga frændur, þá var Halli frændi samt alltaf hinn eini sanni Frændi og við kölluðum hann aldrei annað, heimsins besti frændi. Það var enginn sem gat lyft manni jafn hátt upp í loft eins og frændi, svo stór og sterkur með þykkar, hlýjar hendur. Það var enginn sem gat grett sig jafn ótrúlega eins og frændi og þessar grettur komu okkur alltaf til að hlæja. Það var frændi sem keyrði dráttarvélar um troðninga og tún, og það var enginn jafn laginn í því að bakka stóra heyhleðsluvagninum að heyblásaranum, hárnákvæmt. Frændi elskaði sínar kindur og allt sem þeim tengdist. Hann þekkti allar kindurnar okkar, líka úr mikilli fjarlægð, og þekkti flest mörk á kindunum hér í dalnum. Frændi söng í karlakór og var þar hrókur alls fagnaðar. Söng- og gleðistundirnar með félögunum voru þær stundir þar sem hann naut sín einna mest. Þá var hann algjör snillingur í að læra texta. Frændi lifnaði allur við þegar hann heyrði lag með góðum takti. Oft voru það sænsku Vikingarna sem voru í spilaranum í bílnum, þá blístraði hann við stýrið og trommaði jafnvel þegar hver smellurinn hljómaði á fætur öðrum. Frændi tók myndir af fjölskyldu, mannlífi og svarfdælskri náttúru og safnaði þannig ómetanlegum minningum og heimildum fyrir þá sem á eftir koma. Hann fór yfirleitt ekki af bæ öðruvísi en með myndavélina í bílnum. Á skólaslitum, tónlistarskólatónleikum, útskriftum og mannfögnuðum var hann mættur og fangaði öll dýrmætu augnablikin, ýmist á myndavél eða vídeóupptökuvél.
Rithönd frænda var alveg sér á báti, sannkölluð skrautskrift. Það var sama hvað frændi var að skrifa, hvort heldur það var í fjárbókina, fundargerðir eða á minnismiða, þetta var allt svo snyrtilegt og með þessari listaskrift. Jólakortin hans voru líka auðþekkt, þar sem hann nostraði við hvert einasta kort, með öllu fíngerða skrautinu og fallegu rithöndinni, svo eftir var tekið á pósthúsinu. Frændi gerði mjög miklar kröfur til sjálfs sín varðandi skrifin og vildi raunar ekkert láta frá sér fara án þess að hann væri ánægður með það. Heilt yfir leiddist honum drambsemi og óhætt að segja að hann hafi ekki miklast af verkum sínum.
Við erum svo þakklát fyrir þig frændi sem veittir selskap, fórnaðir tíma þínum og styrktir og studdir okkur í gegnum allan uppvöxtinn … og meira til. Við erum óendanlega þakklát fyrir allt sem þú gafst af þér og veittir okkur og munum ætíð líta upp til þín og minnast þín með hlýju. Megir þú hvíla í friði.
Þín
Einar og Sigurlaug Hanna.