Hafsteinn Bjargmundsson fæddist í Reykjavík 3. mars 1924. Hann lést á Landakotsspítala 15. janúar 2025.
Móðir Hafsteins var Herdís Kristjánsdóttir húsfreyja, f. 1886, d. 1970, ættuð frá Fossseli, Reykdælahreppi, Suður-Þingeyjarsýslu. Faðir hans var Bjargmundur Sveinsson rafvirki í Reykjavík, f. 1883, d. 1964, ættaður úr Meðallandi í Vestur-Skaftafellssýslu, og átti 12 systkini, þ. á m. Jóhannes Sv. Kjarval listmálara.
Alsystkini Hafsteins voru tvíburasystir hans Karítas (Dídí), f. 1924, d. 2004, og Kristjana (Lilla), f. 1925, d. 2017. Hálfsystkini hans móður megin voru Alfreð Dreyfus Jónsson ljósmyndari, f. 1906, d. 1994, Bára, f. 1908, f. 2003, Kristján (Kiddi í Kiddabúð), f. 1911, d. 1979, og Jón, f. 1914, d. 1993. Hálfsystkini föður megin voru Guðmundur, f. 1916, d. 1966, Lovísa (Lulla), f. 1918, d. 2018, Helga, f. 1919, d. 1999, og Stefán, f. 1920, d. 1957.
Hafsteinn gekk í Austurbæjarskólann, síðan í Menntaskólann í Reykjavík, en lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1944. Hann innritaðist í Háskóla Íslands í læknisfræði og nam þar heimspekileg forspjallsvísindi, efnafræði og lífeðlisfræði. Hann stundaði nám í Edinborg í ensku veturinn 1948-9, en stundaði nám í Padova á Ítalíu frá 1949 í ítölsku og stærðfræði, og kenndi síðan í Trieste ítölsku, ensku og stærðfræði til 1959. Þá kom hann til Íslands og rak Berlitz málaskóla í Reykjavík í tvö ár, en vann síðan við Bananasöluna skrifstofustörf og verkstjórn. Hann var virkur í félagi esperantista.
Kona Hafsteins var Inga Hrefna Búadóttir, f. 1929, d. 2009. Stjúpbörn Hafsteins, börn Ingu Hrefnu og Einars Helgasonar læknis, f. 1925, d. 1974, eru Ingibjörg Eir lífeðlisfræðingur, f. 1951, Björn öldrunarlæknir, f. 1952, Kjartan byggingartæknifræðingur, f. 1956, og Hrefna ljósmóðir, f. 1958. Hafsteinn bjó síðustu árin á Lynghaga 14 og á Vitatorgi, Lindargötu 61, Reykjavík.
Útför hans fór fram í kyrrþey 11. apríl 2025.
Hafsteinn kom inn í líf okkar systkinanna þegar þau mamma tóku saman 1989. Hafsteinn var hæglátur og hlédrægur, en skemmtilegur að tala við, þegar maður settist hjá honum í sófann og ræddi um öll heimsins mál, smá sem stór. Það var mikil gæfa að fá Hafstein í fjölskylduna og þau mamma áttu tvo góða áratugi saman, höfðu verið kærustupar þegar þau voru ung, en svo skildi leiðir og lífið tók ólíkar stefnur hjá þeim báðum. Það urðu fagnaðarfundir þegar þau rákust hvort á annað, fjórum áratugum seinna, á Landspítalanum, hann lagður inn til að taka kýli af andliti, hún hjúkrunarkonan sem hlynnti að honum. Þau höfðu unun af því að ferðast saman. Keyrðu mörgum sinnum hringinn í kringum landið og ferðuðust líka oft erlendis með bakpoka, fóru með lestum úr borg í borg, aðallega um Ítalíu og Spán.
Hafsteinn var semídux þegar hann útskrifaðist sem stúdent frá Akureyri. Í læknadeild aflaði hann sér góðrar kunnáttu í raunvísindum. Hann var mikill stærðfræðingur, sem og málamaður og fékk styrk til málanáms erlendis. Hann talaði lýtalausa ensku eftir vetur í Edinborg, en þar fannst honum ekki gott að vera, það var kalt og hráslagalegt. Eftir 10 ára dvöl á Ítalíu kom hann heim altalandi á ítölsku og kunnáttumikill í stærðfræði. Hafsteinn las stærðfræðibækur sér til skemmtunar og átti margar útgáfur af vel slitnum Calculus og öðrum stærðfræðibókum. Hann lærði esperantó af þáttum Þórbergs Þórðarsonar í útvarpinu á fjórða áratugnum. Þeir Baldur Ragnarsson voru fengnir af Esperantofélaginu til að skrá á tölvu laus minnisblöð Þórbergs og orðabók hans er nú aðgengileg á netinu. Hann hafði í þeim störfum vanist tölvu og keypti sér fartölvu þegar hann var orðinn einn. Kominn langt yfir áttrætt sá hann um bankamál sín og aðra opinbera þjónustu á netinu, las þar erlend blöð og margt annað.
Hann var endalaust fróðleiksfús og hafði mikinn áhuga á bæði innlendum og erlendum stjórnmálum. Áhuganum hélt hann allt til hundrað ára aldurs. Alltaf klár í kollinum. Það eina sem háði honum var léleg heyrn. Hafsteinn bjó síðustu árin í þjónustuíbúð á Lindargötu 61. Þar var hann á heimaslóðum, hann hafði alist upp á Hverfisgötunni, og það var hægt að ganga beint inn til hans úr garðinum. Þegar hann flutti þangað af Lynghaganum spurðum við hann hvaða bækur hann vildi taka með sér. Ég þarf engar bækur sagði hann, ég finn allt á netinu. Það varð því uppi fótur og fit þegar í ljós kom að það myndi taka viku að setja upp netið í þjónustuíbúðinni. Þessu var reddað og innan tveggja daga var þessu kippt í liðinn.
Það var alltaf gaman að koma til Hafsteins. Æðruleysi hans og vinsemd voru einstök. Hann hafði lifað tímana tvenna, upplifað fátækt í æsku, seinni heimsstyrjöldina og eftirstríðsárin. Ég mun sakna samtalanna við Hafstein, fróðleiks hans og þeirrar tengingar sem hann gaf okkur við fortíðina. Okkur þótti öllum óskaplega vænt um Hafstein. Ég mun sakna hans.
Ingibjörg Eir
Einarsdóttir.