Sif Bjarnadóttir fæddist 2. febrúar 1958. Hún lést 12. mars 2025.

Útför Sifjar fór fram 4. apríl 2025.

Þegar Sif hóf fyrst nám hjá okkur í þjóðfræði og safnafræði við Háskóla Íslands, í miðju kófi, var ljóst að hún hafði mikið til brunns að bera. Hún var reynslumikill kennari, fróð um efnismenningu hinu ýmsu landa og hafði strax í æsku heillast af þjóðsögum og alþýðuhefðum. Þjóðsögur Jóns Árnasonar drakk hún í sig barnung á skrifstofu afa síns. Náttúrubarn var hún og þekking hennar og áhugi á plöntunytjum, lækningamætti og þjóðtrú var henni mikill hvati í náminu. Því sinnti hún fram á síðustu stundu af eljusemi og opnum huga enda skörp, jákvæð og launfyndin í hæversku sinni. Hún var viðræðugóð og skemmtileg enda vinsæl meðal kennara og nemenda. Alltaf var hún til í ævintýri og skellti sér meðal annars á stóra erlenda ráðstefnu sem hún hafði mikið gagn og gaman af. Áhugasvið hennar innan þjóðfræðinnar var breitt og spannaði allt frá helgisiðum og göngum til helgra linda og samskipta fólks og dýra. Á ritverkum hennar var greinilegt að hún hafði heillast af faginu og náð miklu valdi á því. Fráfall hennar er samnemendum, kennurum og faginu mikill missir.

Fyrir hönd námsbrautar í þjóðfræði og safnafræði,

Kristinn Schram.