Tvær táningsstúlkur sem handteknar voru á Keflavíkurflugvelli í lok síðasta mánaðar fyrir stórfelldan fíkniefnaflutning sitja enn í gæsluvarðhaldi en það rennur út 5. maí næstkomandi. Alls eru 20 manns í haldi á Suðurnesjum.
Þetta segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, en stúlkurnar voru handteknar við komuna til landsins frá Þýskalandi fyrir innflutning á 20.000 fölsuðum Oxycontin-töflum.
Úlfar segir að rannsókn málsins standi yfir en um svokölluð burðardýr er að ræða. Önnur stúlkan er á 18. aldursári en hin að skríða í tvítugt. Þær eru báðar með ríkisfang í Evrópu.