Steinþóra Ingimarsdóttir fæddist 30. október 1937. Hún lést 30. mars 2025.

Útför fór fram 8. apríl 2025.

Nú hefur elskuleg tengdamóðir mín fengið hvíldina eftir margra ára veikindi sem sannarlega tóku sinn toll. Eftir standa minningar um góða og yndislega konu sem mér þótti innilega vænt um. Upp í hugann koma öll skemmtilegu matarboðin, sumarbústaðaferðirnar og útilegurnar þar sem ýmislegt var brallað.

Dædý átti gott líf með manni sínum Friðriki Lindberg. Þau voru einstaklega samrýnd hjón og máttu varla hvort af öðru sjá. Það var henni mikið áfall þegar hann lést árið 2004 en núna eru þau saman á ný á betri stað.

Ég kveð elsku bestu Dædý mína með söknuði en mun varðveita góðu minningarnar um hana í hjarta mínu.

Hvíl í friði.

Vilhelmína

Thorarensen (Vilma).

Elsku Dædí okkar, við minnumst þín sem æðislegrar frænku, sem var alltaf svo góð við okkur systurnar. Það var alltaf svo gaman að koma til ykkar á Háaleitisbrautina, þá voru lagðar alls konar kræsingar á borð fyrir okkur og svo byrjaði allt fjörið hjá ykkur, það var mikið hlegið og mikið fjör og mikið grín.

Þegar þú elsku Dædí, Steini, Kiddý, Nonni og pabbi komuð saman heima hjá ömmu á Kaplaskjólsveginum þá var sko fjör. Við systurnar hlökkuðum alltaf til þegar von var á hittingi hjá ömmu, þvílík hlátursköst, fjör og stríðni í ykkur systkinunum.

Það var alltaf gott að hitta þig því þú varst alltaf svo góð og yndisleg við okkur. Og alltaf fengum við stórt knús frá þér.

Þegar var haldið upp á afmælið þitt í Svignagarði komum við óvænt til að samgleðjast þér á stórafmælinu þínu.

Elsku frændsystkini okkar, innilegustu samúðarkveðjur til ykkar og fjölskyldu.

Jónína, Ingibjörg og Katrín.