Dómur Framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu 2 er áfram í gildi.
Dómur Framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu 2 er áfram í gildi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Héraðsdómur Reykjaness hefur sýknað Landsnet og Sveitarfélagið Voga af kröfu hóps landeigenda um að ógilt verði með dómi framkvæmdaleyfi vegna lagningar Suðurnesjalínu 2. Málið var upphaflega höfðað af Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands og…

Héraðsdómur Reykjaness hefur sýknað Landsnet og Sveitarfélagið Voga af kröfu hóps landeigenda um að ógilt verði með dómi framkvæmdaleyfi vegna lagningar Suðurnesjalínu 2.

Málið var upphaflega höfðað af Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands og Hraunavinum en hópur landeigenda fékk síðar heimild til meðalgöngu. Dómari vísaði kröfum Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands og Hraunavina frá dómi í desember sl. og Landsréttur staðfesti þann úrskurð. Hæstiréttur hafnaði síðan málskotsbeiðni samtakanna en eftir stóðu meðalgöngustefnendurnir.

Í dómnum, sem er langur eða 67 blaðsíður, er saga áforma um lagningu Suðurnesjalínu 2 rakin. Það sem dómsmálið nú snerist um var ákvörðun Sveitarfélagsins Voga í júní 2023 um að veita Landsneti framkvæmdaleyfi vegna áforma um að reisa raflínuna. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en nefndin hafnaði því í janúar í fyrra að fella ákvörðunina úr gildi. Var framkvæmdaleyfið gefið út í kjölfarið.

Niðurstaða héraðsdóms er sú að engir form- eða efnisannmarkar hafi verið á undirbúningi eða meðferð málsins, sem geti leitt til þess að framkvæmdaleyfið verði ógilt. Segir m.a. í niðurstöðu dómsins að meðalgöngustefnendur hafi sem landeigendur og almenningur einnig notið víðtæks þátttökuréttar í ákvarðanatöku um framkvæmd Suðurnesjalínu 2 á grundvelli löggjafar um skipulagsmál og mat á umhverfisáhrifum.

Var landeigendunum gert að greiða málskostnað Landsnets og Voga, 1,2 milljónir til hvors aðila.