Gímaldið græna Lögmaður Búseta telur verulega annmarka á útgáfu leyfa og á grundvelli þess beri byggingarfulltrúa að afturkalla fyrri ákvörðun sína.
Gímaldið græna Lögmaður Búseta telur verulega annmarka á útgáfu leyfa og á grundvelli þess beri byggingarfulltrúa að afturkalla fyrri ákvörðun sína. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Búseti krefst þess að græna gímaldið svonefnda við Álfabakka 2a verði fjarlægt og jarðrask afmáð. Byggingarfulltrúinn í Reykjavík afturkalli byggingarleyfi fyrir allt mannvirkið og allar framkvæmdir verði stöðvaðar

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Búseti krefst þess að græna gímaldið svonefnda við Álfabakka 2a verði fjarlægt og jarðrask afmáð. Byggingarfulltrúinn í Reykjavík afturkalli byggingarleyfi fyrir allt mannvirkið og allar framkvæmdir verði stöðvaðar.

Þetta kemur fram í nýrri 17 síðna kröfugerð Búseta til byggingarfulltrúa sem áður hefur hafnað kröfu um verkstöðvun. Í lok janúar stöðvaði byggingarfulltrúinn framkvæmdir við kjötvinnslu í húsinu og óskaði eftir nánari upplýsingum af hálfu framkvæmdaraðila. Síðan þá hefur tíminn verið notaður til að klára húsið.

Verktakinn í vondri trú

Erlendur Gíslason, lögmaður hjá LOGOS, sem gætir hagsmuna Búseta í málinu, segir að byggingaraðili hafi tekið mikla áhættu með því að leggja kapp á að klára húsið því það sé gert í vondri trú þar sem verulegir annmarkar hafi komið í ljós við gerð deiliskipulags og útgáfu byggingarleyfis hússins í heild. Það sé ekki vörn hjá byggingaraðilanum að halda eigi húsinu í óbreyttu horfi með þeim rökum að það sé komið svo langt í byggingu og það skerði svo mikla hagsmuni að láta það víkja.

„Frá því að fyrstu kröfur um verkstöðvun tóku að berast í nóvember og desember hefur framkvæmdaraðili verið í vondri trú. Hann veit af mótmælum nágranna og þeim kröfum sem fram hafa verið bornar. Við bendum á dómafordæmi þess efnis að þegar menn hafa klárað byggingar vitandi um mótmæli þá geta þeir ekki vísað í það að það séu svo miklir hagsmunir í húfi að það þurfi ekki að farga byggingunni. Byggingaraðilinn hljóp til í lok janúar og setti aukinn kraft í að klára verkið.“

Drap málinu á dreif

Spurður hvort eitthvað nýtt sé í þessari kröfu sem ekki kom fram í fyrri kröfunni segir Erlendur að búið sé að skerpa á þeim annmörkum sem voru á málinu, m.a. því hvernig staðið var að gerð deiliskipulagsins 2022 þar sem gert var ráð fyrir byggingum með uppbroti. Öll skipulagsgögn og umhverfismat áætlana sem ber að gera við skipulagsbreytingar sem þessar geri ekki ráð fyrir þessari byggingu.

„Þegar byggingarfulltrúi metur mannvirki sem ekki var gert ráð fyrir í mati á umhverfisáhrifum skipulags þá hefði hann þurft að gera kröfu um að skilað væri inn fullnægjandi gögnum og þar með að umhverfisáhrif þessa mannvirkis, sem er með allt öðru umfangi en fyrri gögn gáfu til kynna, yrðu metin í samræmi við viðeigandi reglur. Það eru verulegir annmarkar á málinu og á grundvelli þess ber byggingarfulltrúa að afturkalla fyrri ákvörðun sína.“

Erlendur segir að með ákvörðun sinni í lok janúar um að afturkalla byggingarleyfi kjötvinnslunnar hafi málinu verið drepið á dreif sem setti allt í stopp í kæruferlinu. Á meðan gafst byggingaraðila færi á að ljúka við bygginguna að utan.

Boltinn hjá byggingarfulltrúa

Ferlið fram undan er fyrst í stað í höndum byggingarfulltrúans í Reykjavík, sem stendur frammi fyrir því að taka ákvörðun um hvort ógilda eigi fyrri ákvarðanir hans og afturkalla byggingarleyfið í heild sinni og mæla fyrir um niðurrif. Ef hann gerir það ekki þá verður sú niðurstaða aftur kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála eða eftir atvikum látið reyna á málið fyrir dómstólum.

„Við erum með kröfu til byggingarfulltrúa um að afturkalla byggingarleyfið og að húsið verði fjarlægt. Ef hann neitar því mun úrskurðarnefndin ekki taka nýja ákvörðun fyrir byggingarfulltrúann heldur mun nefndin annaðhvort staðfesta eða fella úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa. Þannig mun nefndin leggja línurnar um framhaldið.“

Hvað gerist ef byggingarfulltrúinn samþykkir afturköllun byggingarleyfis? Verður þá sest niður til samninga?

„Byggingarfulltrúinn getur samþykkt kröfuna í heild eða hluta og það er ekki útilokað að hann leggi til breytingar á byggingunni í stað þess að mæla fyrir um niðurrif hússins í heild. Það er ekki útilokað að gengið verði til samninga, en þá þarf pólitíkin að stíga inn, en fram að þessu hafa þeirra yfirlýsingar verið meira í orði en á borði,“ segir Erlendur.

Reiknar þú með því að byggingarfulltrúinn sjái að sér og viðurkenni mistök?

„Það getur verið erfitt að biðja stjórnvöld að endurskoða eigin ákvarðanir, en auðvitað þurfa embættismenn stundum að fjarlægja sig eigin ákvörðunum eins og hann gerði að hluta til 30. janúar sl.“

Hvaða hæfisreglur gilda þegar kemur að því að opinberir starfsmenn endurskoði eigin ákvarðanir?

„Það hefur almennt ekki verið litið svo á að opinberir starfsmenn þurfi að víkja þegar fjallað er um mál á sama stigi. Hins vegar ef um annað stjórnsýslustig væri að ræða þá væri viðkomandi vanhæfur.“

Höf.: Óskar Bergsson