Hjörleifur Haukur Guðmundsson fæddist 22. janúar 1960. Hann lést 11. mars 2025.
Útför Hauks fór fram 28. mars 2025.
Mér varð heldur betur hverft við er nafn þitt birtist skyndilega í fréttatilkynningu sem þolandi í sambandi við hræðilegt sakamál sem ég hafði verið að lesa um í blöðunum á heimili mínu erlendis.
Við vorum góðir vinir á unglingsárunum áður en aðstæður og búsetufjarlægð skildu smátt og smátt á milli.
Þú varst náinn vinur. Ég fæddist 7. janúar 1960, eiginlega á Hlemmi, Rauðarárstíg/Laugavegi, en fór strax í Vesturbæinn og ólst upp í Skjólunum. Tveimur vikum síðar bröltir þú í heiminn og ólst upp einn kílómetra í burtu, á Fálkagötu 12. Samt liðu nær 12 ár þangað til leiðir okkar lágu saman í skátafélaginu í kjallaranum í Hagaskóla, því við gengum hvor í sinn barnaskólann. Heimilið þitt á Fálkagötunni var svo sem ekki stórt en þar var samt nóg pláss fyrir ykkur mömmu þína, móðursystur og Þóri frænda þinn, og „græjurnar“ þínar sem þú hélst mikið upp á. Á „græjunum“ voru Slade, Nazareth og Grand Funk Railroad í sérstöku uppáhaldi, þó man ég ekki eftir að mikið hefði verið kvartað í húsinu yfir hávaða. Skátarnir voru stór kafli og Þórir var flokksforingi okkar. Ég hætti ’75 en þú einhverju seinna. Skátarnir fluttu úr Hagaskóla í glænýja aðstöðu. „Græjurnar“ komu aðeins við sögu. Þú keyptir þér Hondu-skellinöðru um leið og þú hafðir lögaldur til og þótt þú færir sjálfur fljúgandi um allar trissur á fararskjótanum gyllta, þá man ég að tilraunin þín til að kenna mér að keyra Honduna á mölinni á hringtorginu, sem var í þá daga á Ægisíðunni við Fatahreinsunina Hraða, gekk vægast sagt brösuglega og orðið hraði kom þar hvergi nærri. En fötin mín þurftu sannarlega gagngera hreinsun á eftir. Um leið og þú fékkst bílpróf var Hondunni lagt og öldruð Nova tók við að ferja þig milli staða. Við fórum strax með fararskjótann í bifreiðaskoðun, ef hægt er að kalla ferlið því nafni. Á bílaplaninu við Steintún í Reykjavík, þar sem Skipulagsstofnun er nú til húsa, stóð lítill timburskúr á malarplani, þar sem þú gafst þig fram með Novuna til skoðunar. Karlinn í skúrnum kíkti á skoðunarskírteinið, sagði þér að fara inn í bílinn og blikka ljósunum og keyra svo með okkur farþegana í kringum skúrinn og bremsa. Það var nú allt sem þurfti að gera. Þú fékkst skoðunarmiða á rúðuna, keyrðir stoltur í burtu á fyrsta bílnum þínum og við fórum beint á „rúntinn“. Seinna um sumarið fór ég að vinna úti á landi og var úti á landi í mörg sumur í röð. Þú fluttir vestur á firði svo við sáumst ekki mikið eftir það. Síðan fór ég til útlanda í nokkur ár. Kom svo heim og rakst á þig í miðbænum og bauð þér heim í spjall og þú komst kannski tvisvar eftir það þegar þú varst í bæjarferð. En svo skildu fjarlægðir á milli á ný og þannig var nú það. En ég minnist alltaf vináttu okkar með hlýju og alls sem við brölluðum saman á unglingsárunum, Haukur minn – þú varst traustur vinur.
Hvíl þú í friði. Ég votta aðstandendum þínum dýpstu samúð mína. Megi þessi ómenni, sem bera sök á ótímabærum örlögum þínum hljóta þyngstu mögulegu refsingu.
Nikulás Þór
Einarsson.