Kristján Ingvarsson
Það tók stórveldi fimm þúsund ár að fara hringinn í kringum heiminn. Kínverjar voru heimsveldi fyrir fimm þúsund árum og blómstruðu löngu áður en stór hluti heimsins þekkti til borga, ritunar eða skipulagðra ríkja. Þeir sköpuðu ekki aðeins heimsveldi, heldur lögðu einnig grunninn að framförum mannkyns með ótrúlegum uppfinningum – silki, áttavita, skjálftamæli, steypujárni, púðri, pappír, prentun, postulíni, samanbrjótanlegum regnhlífum og jafnvel tannburstanum. Þessar uppfinningar fóru sigurgöngu um allan heim.
Í gegnum bugðótta stíga Silkivegarins ferðuðust hugmyndir og nýjungar yfir eyðimerkur og fjöll, frá Kína vestur um Mið-Asíu, Persíu (núverandi Íran), Ottómanveldið, grísku borgríkin og að lokum til Rómaveldis.
Silkivegurinn var meira en leið fyrir vörur; hann var upplýsingahraðbraut fornaldarinnar. Silkið, sem gaf leiðinni nafn sitt, heillaði rómverska yfirstétt og kveikti alþjóðlega verslunarþrá. Pappír náði til íslamskra ríkja og lagði grunn að gullöld vísinda og heimspeki. Sprengiefni færðist vestur og breytti hernaði í Evrópu að eilífu. Áttavitinn gerði landkönnuðum frá Portúgal og Spáni kleift að þora á opið haf og uppgötva ný meginlönd. Prentun, upphaflega þróuð með viðarblokkum og síðar hreyfanlegum stöfum í Kína, kveikti prentbyltingu í Evrópu eftir að Gutenberg betrumbætti hana, gerði bækur aðgengilegar og knúði fram endurreisnina.
Jafnvel tannburstinn, sem fundinn var upp í Kína á Tang-tímabilinu, um svipað leyti og Ingólfur Arnarson var að koma til Íslands, komst að lokum til Evrópu mörgum öldum síðar, betrumbættur og fjöldaframleiddur í nútímanum. Nú bursta allir tennurnar daglega. Hefði tannburstinn komið fyrr væri hann kannski kallaður tannabursti, ekki tannbursti – eða á ensku teethbrush, ekki toothbrush. Brandarinn er sá að þegar þessi stórkostlega nýjung loks barst til Evrópu voru margir aðeins með eina tönn í munninum; hinar höfðu dottið út vegna lélegrar tannhirðu.
En áfram með söguna.
Þegar heimsveldi risu og féllu tileinkuðu þau sér, aðlöguðu og bættu við þekkingu forvera sinna. Persar þróuðu arkitektúr og verkfræði. Grikkir gáfu okkur heimspeki og frumvísindi. Rómverjar náðu tökum á lögum og verkfræði. Ottómanar tengdu austur og vestur. Spænsku og portúgölsku heimsveldin fluttu könnun yfir höf. Breska heimsveldið nýtti sér iðnvæðingu. Bandaríska heimsveldið varð síðan tæknilegt og menningarlegt stórveldi 20. aldar.
En þegar heimsveldi falla er það aldrei auðvelt. Eins og sagnfræðingarnir Peter Heather og John Rapley útskýra í áhrifamikilli bók sinni Why Empires Fall (Þegar heimsveldi hnigna) finnst heimsveldum þau svikin, jafnvel þegar um er að ræða eðlilega þróun sögunnar. Sorgin yfir því að vera ekki lengur leiðandi getur vakið ótta, gremju og einangrunarstefnu, eins og við upplifum núna með Bandaríkin.
Mannkynið í dag er þó ekki það sama og fyrir fimm þúsund árum í keisaraveldi Kína. Við erum meira tengd, betur menntuð og meðvitaðri um sameiginlegar alþjóðlegar áskoranir. Kannski erum við loksins tilbúin að læra af takti heimsvelda – ekki til að drottna, heldur til að vinna saman.
Og nú sjáum við söguna ganga hringinn. Kína er að rísa aftur, ekki sem nýliði heldur sem fornt heimsveldi sem snýr aftur á miðju alþjóðlegs sviðs. Sumir líta á þetta sem samkeppni en ég lít á þetta sem hátíð mannlegra framfara.
Þegar öllu er á botninn hvolft hafa menn alltaf verið frábærir í að stela góðum hugmyndum og bæta þær. Í dag köllum við það „stuld á hugverkarétti“ en í raun hefur það alltaf verið hluti af sameiginlegri sögu okkar.
Ég veit þetta af eigin raun. Ég átti einkaleyfi í Bandaríkjunum og Kanada fyrir dýptarmæli fyrir gröfur. Og giskið hver stal hugmyndinni? Frakkar! Ekki Japanir eða Kínverjar. Og satt best að segja er ég ekki reiður, heldur stoltur. Að sjá uppfinningu mína notaða, betrumbætta og gerða aðgengilega fyrir aðra er mikill heiður fyrir mig.
Nú þegar Kína endurheimtir stöðu sína meðal stórvelda sögunnar hef ég djúpa von um að mannkynið þróist áfram í friðarátt, byggi á visku fortíðarinnar og skapi sér betri framtíð.
Höfundur er verkfræðingur og uppfinningamaður.