Kristján Gunnarsson fæddist 25. apríl 1948. Hann lést 24. mars 2025.

Útför hans fór fram 8. apríl 2025.

Nú er elsku Kiddi minn Gunn dáinn og horfinn okkur.

Líf hans síðustu ár hefur verið dálítill táradalur, sem hann, með sitt stóra skap, tókst þó ótrúlega vel á við. Yfirtók þó þegar Jóna hans til u.þ.b. 60 ára dó á 75 ára afmælisdaginn hans fyrir tveimur árum eftir krabbameinsveikindi. Þá varð brekkan brött niður. Parkinn, sem búinn var að vera ansi erfiður á stundum, náði enn betra taki á honum.

Ég ætla samt ekki að tala meira um það, heldur hitt þegar allir voru ungir, frískir og fullir af vissu um að þeir yrðu a.m.k. eilífir. Mikið sem við áttum eftir að eiga góð kynni og samveru með þeim Jónu og Kidda við Eiríkur sem hófst þegar við innréttuðum okkur íbúð í Grundargerði 1 árið 1972 og síðan eru liðin rúm 50 ár. Þau hafa ætt áfram á mikilli ferð en margt skemmtilegt og líka leiðinlegt gerst eins og gengur. Jóna og Kiddi eignuðust Rúnar og Dúnnu 1966 og '67, þá mjög ung og alltaf lágvaxin, og eins og þau sögðu svo skemmtilega sáu þau rétt fram fyrir barnavagninn og þá hló Kiddi minn dillandi.

Rúnar eignaðist þrjú börn og Dúnna tvö og svo eru tvö, kannski þrjú, langafabörn þannig að hópurinn hefur stækkað og er efnilegur. Strákarnir hans Rúnars eru með stærri mönnum og „þeir sækja það ekki til mín“ sagði minn Kiddi og hló.

Kiddi minn Gunn var mikill hæfileikamaður, hann spilaði á píanó, sjálflærður því hann hafði ekki þolinmæði til að læra hjá Soffíu kommúnista sem hann kallaði enda hann mikill sjálfstæðismaður, eins og hans fólk var í Verslun Eyja. Hún sá nefnilega strax að hann lærði bara æfingarnar en spilaði ekki eftir nótunum eins og átti að gera í skólanum. Það gerði að hann náði ekki eins góðum tökum á spilinu og hann vildi og átti þá til að skella aftur píanóinu, ekki alltaf stilltur vinurinn, en sem betur fer hélt hann svo áfram næst.

Hann samdi ljóð og bragi og söng afbragðsvel, svo var hann bara svo skemmtilegur, hrekkjóttur og sérstaklega tryggur og gerði allt fyrir vini sína.

Kiddi var einn mesti snyrtipinni sem ég hef kynnst og báru bílarnir hans þess merki alla tíð já og allt sem hann kom nálægt, þau voru sannarlega samhent þar hjónin. Allt glansaði sem þeim tilheyrði, ég sagði stundum við þau í gamni að glampandi gólfin og hvítu sófarnir gætu blettast af venjulegu fólki eins og t.d. mér!

Kiddi var dálítill glanni í akstrinum framan af og var ég skíthrædd með honum í bíl en hvernig sem það var var hann happasæll bílstjóri og mér er stórlega til efs að hann hafi lent í nokkru sem rekja mætti til glannaskapar þannig að ég hefði alveg getað sleppt því að suða í honum með það.

Ég er viss um að minn kæri vinur var fús til fararinnar og trúi því staðfastlega að hann sé á góðum stað með sinni yndislegu Jónu og þeim sem á undan eru gengnir og hann saknaði. Ég nefni þar mömmu hans sem dó þegar hann var níu ára eftir nokkuð langa viðureign við krabbamein sem var honum og fjölskyldunni hrikalega erfitt en hann ræddi næstum aldrei.

Elsku yndislegi vinur, takk fyrir alla skemmtun og vináttu síðustu áratugi.

Þín

Sólveig Adamsdóttir (Mína).