Jón Sigurgeirsson
Líffræði er flókin og við erum rétt byrjuð að skilja hvernig gen okkar ráða gerð okkar. Við vitum hvernig frumur breytast til að gegna ólíkum hlutverkum þótt þær hafi sömu gen. Við vitum líka að karlar og konur hafa að mestu sömu gen. Karlar hafa XY-kynlitninga en konur XX. Y-litningurinn er ekki ósvipaður X-litningnum, aðeins ófullkomnari, en hefur þó eitt gen á sér sem sendir boð í formi hormóns til allra frumna í líkama karla sem segir þeim að einstaklingurinn sé karlmaður. Þetta verður snemma á fósturstigi. Jafnframt er í líkamanum klukka sem ræður því að ákveðnar breytingar fara ekki af stað strax heldur síðar. Við verðum til dæmis ekki kynþroska strax eftir fæðingu. Það er ótrúlegt hversu miklu genin ráða. Margir erfa eiginleika eða hegðunarmynstur forfeðra sinna og sýnt hefur verið að eineggja tvíburar sem eru aðskildir við fæðingu eru líkir í mun fleiru en útliti.
Við vitum að boðin sem segja hvers kyns við erum misfarast stundum og sumar breytingarnar sem þau eiga að setja af stað verða ekki. Stundum er þetta augljóst og einstaklingur fæðist með ódæmigerð kyneinkenni. Slík boð ráða því að strákar eru strákar í hegðun og útliti allt frá fæðingu, þótt enginn hafi sagt þeim að hegða sér eins og strákar. Rauðsokkur sem börðust fyrir réttindum kvenna héldu að það væri hægt að breyta þessu mynstri með því að fá drengina til að leika sér með dúkkur. Það gekk ekki því karlmannseðlið er ekki mótað af uppeldi. Við vitum ekki alveg hvernig genin móta strákana þannig, en að öllum líkindum eru það hormónar – svipað og sá sem breytir sjáanlegum einkennum stráka í stráka. Sumir sem hafa ytra útlit stráka finna sig ekki í því hlutverki og upplifa sig sem stúlkur. Einnig eru einstaklingar sem hafa einkenni stúlkna sem upplifa sig sem stráka. Eru einhverjir genaslökkvarar sem ráða þessu og ráða því að ég laðast að konum og verð ekki skotinn í strákum? Getur verið að í undantekningartilfellum virki slökkvararnir öðruvísi og menn laðist að sama kyni?
Hommar og lesbíur eru fædd þannig. Þau hafa ekkert val. Konur í karlmannslíkama og karlmenn í kvenlíkama eru líka fædd þannig. Það er hrein illska að ráðast á þá einstaklinga vegna þess hvernig þeir eru.
Kenningar mínar um að kynhneigð og kynvitund ráðist af túlkun gena eru aðeins hugmyndir mínar og byggjast ekki á vísindalegum rannsóknum. Það að við vitum ekki nákvæmlega hvernig þetta tvennt verður til breytir því ekki að það er raunverulegt. Af hverju verða sumir einstaklingar einhverfir? Eigum við að afneita tilvist einhverfu vegna þess að við vitum ekki hvað ræður þeirri þróun?
Ég rita þessi orð vegna þess að eftir að ég birti grein um sama
efni kom dómur í Bretlandi sem menn túlka þannig að trans sé
ekki til. Konur séu konur og karlar karlar, hvað sem þeim finnst þau vera. Ef dómurinn hefði dæmt svo hefði hann farið gegn lögum, en það má dómstóll ekki gera. Í Bretlandi eru lög eins og hér sem viðurkenna kynleiðréttingu og trans einstaklingur má skrá sig í það kyn sem hann varð eftir leiðréttinguna. Dómurinn fjallaði aðeins um eitt atriði, það er að segja um rétt einstaklinga til forgangs í nefndir og ráð þar sem hallaði á annað kynið. Ég þekki ekki lagakerfið og reglur um túlkun laga í Bretlandi. Dómurinn miðaðist við orðanna hljóðan eins og almenningur skilur lögin og lagði sérstaka áherslu á að lög ættu að vera skiljanleg almenningi. Tekið
var fram að niðurstaðan hefði
ekki áhrif út fyrir það þrönga
svið, enda hefði dómurinn ella farið út fyrir heimildir sínar og farið að búa til lög. Dómurinn miðast við ákvörðun kyns við fæðingu. Þannig eru karlar sem fæðast með ytri einkenni kvenna konur samkvæmt dómnum. Það orkar ekki síður tvímælis. Mega þá slíkir karlar keppa í kvennaíþróttum? Geta þeir sem fæðast með ytra útlit beggja kynja notið réttinda beggja? Dómurinn átti að einfalda málin, en gerði það síður en svo, og ég er honum ósammála. Hér á landi ber dómurum að gæta lagasamræmis og dómurinn er ekki í samræmi við lög sem viðurkenna kynleiðréttingar. Það er næstum hjákátlegt að þeir sem viðurkenna ekki trans segjast
gera það með líffræðilegum
rökum. Það sýnir litla þekkingu
á því sviði.
Höfundur er aldraður lögfræðingur.