Jón Viðar Jónmundsson
Eitt mesta og besta ræktunarátak í sauðfjárrækt hér á landi er það sem nú stendur um útrýmingu riðuveiki með ARR-breytileikanum sem fyrst var greindur hérlendis í Þernunesi og tekinn í notkun með þrem hrútum þaðan sem komu á sæðingastöðvarnar haustið 2022. Frá þeim tíma hefur framkvæmdinni verið stýrt af Eyþóri Einarssyni og verið ævintýri líkust. Eyþór gaf ágætt yfirlit um stöðuna á góðum fagfundi á Húsavík 12. apríl.
Eins og ég hef skýrt í greinum í blaðinu er einfalt að ljúka verkefninu haustið 2026 með því að þá verði aðeins settir á arfhreinir lambhrútar í Íslandi. Tölur Eyþórs staðfesta að þetta er vel mögulegt.
Þetta hefur þegar verið gert í mörgum Evrópulöndum þar sem þessi sjúkdómur þekktist þó að líklega hafi hann hvergi verið jafn illvígur og hér á landi. Raunar var riðu útrýmt í minni heimasveit Svarfaðardal fyrir niðurskurðinn 1949 á þennan hátt. Um þetta fjalla ég nánar í Norðurslóð 2023.
Ég setti fyrst fram 1980 hugmyndir um útrýmingu á riðu með kynbótum hér á landi 1980 út frá niðurstöðum breskra rannsókna. Undir lok aldarinnar fundu erlendir vísindamenn að mótastaða réðist af samsætum í príon geninu og Keldnafólk staðfesti að það sama ætti við um íslenskt sauðfé. Gallinn var að ARR-breytileikinn, sá eini sem veitir fulla mótstöðu, fannst ekki hjá íslensku fé. Hann fannst fyrst í Þernunesi. Það er sannfæring mín að af óskýrðum ástæðum hafi genið ekki fundist hjá íslensku fé. Það sem fundið er kemur frá innflutningi, ég fann strax út frá frábærum fjárbókum í Þernunesi að þar var genið komið frá BL innflutningi 1932 og sannfæring mín er að svo sé einnig um Vífilsdal og Skammadal sem ljóst er að er sami grunnur en ættarbókhald nær ekki jafn langt aftur þar og í Þernunesi. Það er verkefninu stórt lán hve góð ræktun var á þessum fundarstöðum. Þernuneshrútarnir hafa þegar sýnt sig að skara fram úr bestu öðrum hrútum stöðvanna.
Kosturinn er að hundruð rannsókna erlendis hafa sýnt að erfðabreytileikarnir í príon-geninu erfast óháðir öðrum eiginleikum. Þetta tel ég að eigi einnig við hér þrátt fyrir yfirburði Þernuneshrútanna. Þetta er meginatriði.
Þar sem hægt er að greina genið með arfgerðagreiningu og nota sæðingar til að dreifa því má fjölga arfhreinu arfgerðinni með veldisvexti eins og gert hefur verið til þessa. Þannig voru arfhrein hrútlömb 2023 aðeins örfá í Þernunesi og kom Hreinn á stöð. Vorið 2024 munu þau hafa skipt tugum víða um land, þrír komu á stöðvarnar og hef fréttir af mörgum fleirum ásettum víða um land auk þúsunda arfblendinna. Í vor munu fæðast um allt land þúsundir arfhreinna hrútlamba og með sama framhaldi í ásetningi teljast arfhreinu hrútlömbin í tugum þúsunda vorið 2026. Markmiðinu er því auðvelt að ná.
Við þessar aðstæður á að vinna framkvæmd sem einfaldasta og ódýrasta. Alla áherslu á að leggja á að arfgerðagreina hrútlömb og það á að gera með sýnatöku strax í vor. Aðeins að taka úr lömbum sem eiga möguleika á að vera með ARR-genið og heimafólk metur möguleg ásetningslömb næsta haust. Finna öll arfhreinu ARR-hrútlömbin. Ömurlegt var síðasta haust að koma á góð fjárbú þar sem voru tugir góðra hrútlamba undan ARR-hrútunum á stöðvunum en ekkert vitað þar sem ekki hafði verið hugað að sýnatöku. Aðeins er huggun að staðan er eitthvað betri en Eyþór sýndi því að einhver arfblendnu hrútlambanna voru sett á. Bændur með veturgamla hrúta í þessari stöðu, takið sýni úr þeim í vor.
Einn þáttur sem í framkvæmd er mistök er umræða um að svæðaskipta þátttöku í verkefninu. Frá því að framboð ARR-hrútanna varð nægt 2023 er slíkt bull. Þetta er verkefni allra fjárbænda landsins, sem allir eiga að taka þátt í, hagsmunirnir eru slíkir. Styrkur íslenska ræktunarstarfsins hjá sauðfé í samanburði við erlent er að hér hefur aldrei verið lagskipt ræktun.
Þá bændur sem til þessa hafa staðið utan verkefnisins skora ég á að gera strax ráðstafanir til að kaupa hrúta með ARR-genið strax í haust. Þá verður áreiðanlega auðvelt að finna vegna rýmri sölureglna. Huga mætti einnig að fjölda slíkra veturgamalla hrúta sem flytja má milli búa.
Framkvæmdina þarf að einfalda aðeins, að horfa á ARR-genið en ekki stafrófskver príon-breytileika. Slíka ræktun kunna íslenskir fjárbændur flestir allt frá því þeir framleiddu gráar lambsgærur. Lokamarkmiðið er að allt fé verði arfhreint ARR. Frá hausti 2026 verði aðeins settir á arfhreinir slíkir hrútar. Aðeins eftir það verður nauðsyn að arfgerðagreina ásetta hrúta, ærstofninn fylgir sjálfkrafa. Þannig má spara mikinn greiningarkostnað næstu ár. Fráleitt er að huga að öðru stafrófi príon-gensins.
Með því að ljúka verkefninu 2026 má einbeita sér að ræktun annarra eiginleika ótruflað. Reynslan bendir til að truflunin hafi verið lítil. Kennt okkur að það dreifða hrútaval sem tekið var upp með ARR-hrútunum með rýmri reglum minnki skyldleikarækt og auki fjölbreytileika. Þetta er þekking sem nýta má í ræktunarstarfinu á næstu árum sem þarf eins og áður var gert að vinna fyrir einn ólagskiptan stofn. Það er það fyrsta sem kynbótafræðin kennir að eigi að virða til að ná sem mestum árangri.
Höfundur var áður landsráðunautur í sauðfjár- og nautgriparækt.