Halldór Brynjar Ragnarsson fæddist 18. maí 1937. Hann lést 28. febrúar 2025.

Útför hans fór fram 14. mars 2025.

Pabbi lést föstudaginn 28. febrúar á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Ég fékk að vera með læknum og hjúkrunarfólki síðasta stofugang þann föstudag. Ég er mjög þakklátur fyrir það því pabbi lét okkur vita að hann væri kominn lengra í þessu en við og virtist vera þokkalega vel undirbúinn fyrir það sem koma skyldi. Pabbi andast síðan að kvöldi föstudagsins hlustandi á okkur Hadda bróður ræða um norðurljós sem voru búin að vera mjög mikil undanfarið og við hlustuðum á lífið hjá pabba fjara hægt og rólega út.

Pabbi bjó alla sína tíð á Hjalteyri og vildi hvergi annars staðar vera. „Á maður ekki bara að búa þar sem manni líður vel og getur?“ sagði pabbi eitt sinn við mig þegar var verið að ræða hvort þau ættu að flytja í bæinn. Ég hef kannski hugsað eins því á Hjalteyri hef ég búið alla mína tíð. Ég tek við því hlutverki af pabba að vera sá Hjalteyringur sem búinn er að vera með lengstu samfellda búsetu á Hjalteyri.

Ég man nú ekki mikið eftir pabba í eldhúsinu þegar ég var að alast upp, þar réð mamma. Þegar mamma fór að eiga erfitt með eldhússtörfin og að þrífa húsið kom pabbi sterkur inn. Pabbi snerist þá í kringum mömmu. Tók yfir alla eldamennsku, gerði alls konar sultur, sinnti heimilisstörfum. Mamma sagði að henni liði bara eins og drottningu og hún ætlaði bara að njóta. Þetta lýsir pabba vel, steig inn í aðstæður þegar þurfti.

Við erum sjö systkinin og oft var mikið fjör á heimilinu en við systkinin nutum mikils frjálsræðis í okkar uppeldi á Hjalteyri sem ég er mjög þakklátur fyrir. Frjálsræði fylgir oft nægur tími til hinna ýmsu prakkarastrika. Pabbi þurfti oft, ekki síður en mamma, að vinda ofan vitleysunni sem við vorum búin að koma okkur í. Þá sýndu þau hvað þau voru skilnings- og kærleiksrík. Pabbi og mamma voru mikið fyrir að fara til berja.

Ég man sérstaklega eftir þegar Ingi í Arnarholti skutlaði okkur út á Árskógsströnd til að tína ber, á æskuslóðum mömmu. Alltaf nóg pláss í Land Rover. Veiðigenunum var svolítið misskipt á milli okkar systkinanna. Sum okkar fengu mikið og önnur minna. Ég og Einar fengum mikið af þessu. Eftir hverja veiðiferð var oftast komið við hjá pabba og mömmu og gaukað að þeim ýmsu góðgæti. Þá var oft skellt í vöfflur og sagðar veiðisögur. Það var gott að hafa ykkur mömmu sem nágranna og við nutum þess. Þú sagðir líka við mig að þið mamma hefðuð þurft að flytja í bæinn ef okkar hefði ekki notið við. Við erum þakklát fyrir það. Þú hafðir gaman af okkar vikulegu verslunarferðum eftir að þú hættir að keyra. Oft hittir þú þá góða vini og var þá mikið spjallað.

Það var gott að sækja ykkur heim, enda bæði mjög gestrisin og með stórt og gott hjarta. Aldrei var langt í glettnina hjá þér pabbi minn sem náði til síðasta dags. Ég, Lilja, börnin okkar og barnabörn eigum eftir að sakna þín mikið. Við Lilja erum búin að kveðja báða feður okkar með mánaðar millibili og börnin búin að kveðja báða afana sína.

Þín verður sárt saknað en góðar minningar ylja okkur.

Jón Þór.