Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Aukið fylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er enn eitt skýrt ákall borgaranna um breytingar í ráðhúsinu, en um leið áfellisdómur yfir hinum nýja meirihluta fimm flokka í Reykjavík.
Þetta segir Hildur Björnsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn í viðtali Dagmála Morgunblaðsins, sem birt er í dag. Hún telur að þorri borgarbúa skynji þörfina á veigamiklum breytingum í stjórn borgarinnar, hún verði að einbeita sér að grunnverkefnum en láta pólitísk gæluverkefni lönd og leið.
Kannanir skýr vísbending
„Auðvitað eru kannanir kannanir og það sem mestu skiptir er það sem kemur upp úr kjörkössunum, en þetta er ákveðin vísbending um það hvar landið liggur og hvaða tækifæri eru fram undan,“ segir Hildur og er í engum vafa um hvað lesa megi í niðurstöðurnar.
„Það er mjög skýrt ákall frá fólkinu í borginni að fá nýja forystu yfir höfuðborgina. Það er algerlega ljóst. Fólk er orðið langþreytt á þeirri óreiðu og óstjórn sem hefur verið í borginni um langa hríð.“
Þar sé Sjálfstæðisflokkurinn hinn augljósi kostur breytinga, hann hafi heilsteypta sýn á borgarmál, sem fólk þekki vel.
„Fólk vill breytingar,“ segir Hildur ákveðin. Nú hafi enn einn meirihluti Samfylkingarinnar tekið við, en ekkert breytist.
Áfram sé látið reka á reiðanum, en mál, sem mikil og almenn óánægja hafi ríkt um, séu öll óbreytt og nefnir hún óbreytta þéttingarstefna í húsnæðismálum, sömu áherslur í samgöngumálum og enn meiri þröngsýni og óefni í leikskólamálum.
Andúð borgarstjórnarmeirihlutans á einkarekstri standi einkareknum grunnskólum einnig fyrir þrifum, einmitt þegar við öllum blasi nauðsyn á fjölbreytni í skólastarfi. Enn frekar þá í ljósi nöturlegrar þróunar í grunnskólastarfi. Nýleg orð nýbakaðs menntamálaráðherra, um að ekki eigi að miða við einkunnir úr grunnskóla við inntöku í framhaldsskóla, séu hins vegar sérstakt áhyggjuefni, en Hildur telur brýna þörf á samræmdum prófum.
Fjármálin ekki óyfirstíganleg
Fjármál Reykjavíkurborgar segir Hildur að séu vissulega stórkostlegt vandamál, en hún segir að þau séu vel leysanleg standi vilji til þess. Ekki megi gleyma að Reykjavíkurborg hafi miklar tekjur og þær hafi raunar einatt farið fram úr áætlunum undanfarin ár.
„Tekjurnar streyma inn, en tækifærið hefur aldrei verið notað til þess að hagræða í rekstri og skipuleggja skattalækkanir, sem er algerlega svigrúm fyrir í Reykjavík,“ segir Hildur.
„Það sem þarf að gera í borginni er að skilgreina mjög skýrt hver eru grunnþjónustuverkefnin og við eigum að einbeita okkur vel að þeim,“ útskýrir hún.
„Við eigum að standa vel að sorphirðu og snjómokstri, við eigum að reka góða og öfluga grunnskóla, leikskólarnir eru reyndar ekki lögbundin grunnþjónusta en mikilvæg þjónusta sem við verðum að veita, það er ákveðin velferðarþjónusta sem við verðum að veita og svo mætti áfram telja og þessu eigum við að sinna vel.“
Gæluverkefni og ýmsan óþarfa annan megi skilja frá.
„Borgin rekur til að mynda mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, sem kostar einhver hundruð milljóna króna á ári hverju. Það er engin slík skrifstofa rekin í Kópavogi, Garðabæ eða Hafnarfirði, en ég fæ ekki séð að mannréttindi séu fótum troðin þar.“
Hún segir óhjákvæmilegt að fara í slíka endurskoðun á verkefnum borgarinnar.
„Við þurfum að skera upp þetta borgarkerfi, minnka umsvifin, skilgreina grunnþjónustuna, okkar lögbundna hlutverk, og við eigum að sinna því vel. Eigum raunar að vera framúrskarandi. Við erum höfuðborgin í landinu og eigum að vera í forystu, en við erum það ekki.“