Jónas Ingimundarson fæddist 30. maí 1944. Hann lést 14. apríl 2025.
Útför Jónasar fór fram 23. apríl 2025.
Elsku pabbi lést þann 14. apríl 2025 eftir langvinn veikindi. Með fráfalli pabba hverfur einstök manneskja úr lífi mínu, mannsins míns og stelpnanna minna. Við pabbi höfum átt margar góðar stundir og brallað ótrúlega margt saman í gegnum árin – og flest af því gert með gleði og glensi að leiðarljósi.
Okkur pabba fannst gaman að sitja og spjalla um hina ýmsu hluti og í gegnum árin hefur pabbi sýnt mér mikilvægi þrautseigju, lífsgleði, þolinmæði, baráttuvilja, mikilvægi þess að sjá jákvæðu hliðarnar í lífinu og hvernig hægt er að teygja sig í húmorinn þegar á móti blæs.
Pabbi var með óseðjandi ástríðu fyrir tónlist meira og minna alla sína ævi og það er í raun alveg ótrúlegt hvað hann áorkaði miklu þrátt fyrir svo mikil og langvinn veikindi. Þegar ég var að alast upp var á heimilinu mjög tíður gestagangur af fjölda söngvara, píanista, píanónemenda, annarra hljóðfæraleikara og svo mætti lengi telja. Ég, verandi mikil félagsvera líkt og pabbi, hafði gaman af því að hitta svona fjölbreyttan hóp af fólki auk þess sem ég þvældist líka oft með foreldrum mínum á tónleika. Í utanlandsferðum var ávallt stoppað í hljómplötuverslun, farið á tónleika og óperuhús könnuð. Fyrir pabba var tónlistin aldrei vinna, hún var lífið sjálft. Þetta sást skýrt síðustu árin þegar pabbi var farinn að eiga erfiðara með lestur og átti erfitt með að tala vegna skaddaðra raddbanda; þá gat hann legið tímunum saman og hlustað á fallega tóna eins og hann kallaði það oft. Það að hafa fengið að alast upp á heimili svo ríku af tónlist hefur gefið mér gott og fallegt veganesti inn í lífið og á ég foreldrum mínum það að þakka.
Síðastliðna daga hefur veðrið verið með eindæmum gott og það er eins og himnaríki haldi hliðinu opnu fyrir pabba. Svo hafa norðurljósin dansað og litað himininn á kvöldin og því er engu líkara en að pabbi sé nú þegar farinn að sýna þeim sem á himnum eru litadýrð og dansandi laglínur tónlistarinnar.
Þó svo að pabbi sé horfinn frá okkur úr hinu veraldlega lífi mun hann áfram lifa í hjörtum okkar – í orðunum sem hann sagði, í tónlistinni sem hann spilaði og í hlýjunni sem hann veitti. Ég og fjölskylda mín kveðjum hann með djúpum söknuði en líka með þakklæti fyrir að hafa fengið að eiga hann sem pabba, tengdapabba og afa.
Hvíl í friði elsku pabbi. Þú lifir í tónlistinni og minningum okkar!
Lára, Tim, Sólrún Tara og Elva Lind.
Blessuð sé minning hans Jónasar.
Kynni okkar hófust fyrir margt löngu og samskiptin voru ávallt hlý, uppbyggileg og skemmtileg. Við áttum saman ýmisleg verkefni og vil ég sérstaklega nefna upphaf stórtónleika Rótarý sem við unnum að með öðrum góðum vinum; tónleika, sem staðist hafa tímans tönn.
Við vígslu nýja tónlistarhússins í Kópavogi á sínum tíma gantaðist ég við Jónas um það, að húsið ætti auðvitað að kallast Kofi Jónasar frænda, því Jónas átti mjög stóran þátt í byggingu Salarins, fyrsta hússins sem reist var sérstaklega fyrir tónlistarflutning hér á landi og hefur reynst gríðarlega vel.
Eitt minnisstæðasta atvik í samskiptum okkar Jónasar var fyrir aldarfjórðungi þegar hann bauð okkur nokkrum vinum sínum í bændakirkjuna á Voðmúlastöðum, sem honum þótti afar vænt um. Þegar inn var komið sagði hann okkur frá því, að hann hefði greinst með krabbamein. Hann tók nokkrar sálmabækur og rétti okkur, settist svo við gamla fótstigna orgelið og spilaði og söng með okkur. Mörgum vöknaði um augu.
Sjúkdómurinn átti eftir að herja á hann allan hans aldur eftir þetta og ófáir uppskurðir biðu hans næstu árin. Öllu þessu tók hann með þvílíku jafnaðargeði, að engin leið er að lýsa því. Einhverju sinni hittumst við Kristinn Sigmundsson við sjúkrarúm Jónasar skömmu eftir að hann hafði farið í mjög stóra aðgerð. Hann var samur við sig, greinilega illa haldinn, en samt brattur og skemmtilegur. Við spurðum kurteislega um aðgerðina og hann svaraði á sinn glettna hátt eins og ávallt, að núna skildist sér að læknarnir hefðu tekið allt innan úr honum nema hjartað og hann væri þeim mjög þakklátur fyrir að hafa skilið það eftir.
Jónas var einstakur. Minning hans sem tónlistarmanns og uppalanda fjölda listamanna mun vitanlega lifa í menningarsögunni. Minning hans sem einstaks húmorista, kjarkaðs baráttumanns og sanns vinar mun lifa með okkur vinum hans á meðan við lifum.
Ég votta Ágústu og öllum ættingjum þeirra og nánum vinum virðingu mína og samúð.
Friðrik Pálsson.
Aldrei hefði ég trúað hvað það ætti eftir að valda miklum straumhvörfum í lífi mínu að taka því boði að fara með Fóstbræðrum í söngferðalag til Evrópu fyrir um 40 árum. Rétt áður en haldið var af stað æfði ég með píanista kórsins, Jónasi Ingimundarsyni, en ég hafði heyrt honum mikið hrósað. Og þar byrjaði þetta allt.
Allt small strax með þessum galdramanni og áður en ég vissi vorum við Jónas orðnir að órjúfanlegu teymi. Ótal minningar hafa blossað upp frá því Jónas kvaddi þessa jarðvist. Minningar sem samanstanda af einu ævintýrinu á fætur öðru; ferðalög þar sem við sungum fyrir íbúa um allt Ísland, tónleikahald í Wigmore Hall og Wiesbaden eða einfaldlega ævintýrið að vera við píanóið heima hjá Jónasi og fá að kynnast ótrúlegri tónlist með honum sem var músíkalskari en flestir aðrir.
Jónas var óþreytandi að kynna mér ný verkefni og stakk oft upp á að við tækjumst á við tónlist sem ég hefði kannski seint eða aldrei þorað að ráðast í. Jónas og Ágústa voru teymi sem skipulagði tónleikaferðir víða um land enda alls staðar með sambönd eftir áratuga trúboð fyrir tónlistina. Þau 15 ár sem við bjuggum erlendis var eitthvað skipulagt hjá okkur Jónasi fyrir hverja Íslandsferð. Þetta veitti mér sem kornungum söngvara verðmæta reynslu. Jónas ýtti mér áfram í alls konar verkefni sem efldu mig, bæði sönglega en ekki síst sem manneskju.
Vináttan við Jónas og Ágústu varð strax mikilvægur þáttur í lífi okkar Ólafar. Æfingarnar með Jónasi einkenndust af því að syngja mikið og oft lengi en svo þegar við ræddum saman á æfingum var það ekkert endilega um tónlistina sjálfa. Vinnan var skemmtileg og þótt það væri tuttugu ára aldursmunur á okkur gátum við hlegið eins og smástrákar að vitleysunni í okkur sjálfum. Við könnuðumst einfaldlega ekki við neitt sem hét kynslóðabil. Að loknum tónleikum var gaman að setjast niður yfir vínglasi og eiga saman góða stund.
Fjöldi af upptökum liggur eftir okkur Jónas. Það var ein af hans ástríðum, að hljóðrita tónlist bæði sem einleikari og með söngvurum af mörgum kynslóðum. Þetta er ómetanlegur fjársjóður sem ber að þakka Jónasi fyrir.
Það var ljúft að fá að ljúka samstarfinu við Jónas með því að taka upp hluta af hans eigin fallegu sönglögum fyrir geisladisk, og syngja á tónleikum árið 2022. Ég veit hve vænt honum þótti um íslenska sönglagið og hve mikils virði það var fyrir hann að fá saman hóp af söngvurum til að heiðra það. Það hélt honum gangandi í erfiðum veikindum að fá að vera virkur í undirbúningi slíkra verkefna þótt heilsan leyfði honum ekki lengur að spila.
Það er komið að skilnaðarstundu. Þakklætið fyrir Jónas er mikið. En ég er ekki síður þakklátur fyrir Ágústu og hennar þátt í lífsstarfi Jónasar.
Við Ólöf sendum fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Gunnar Guðbjörnsson.
Jónas Ingimundarson er látinn. Með nokkrum orðum langar mig að kveðja afar kæran vin og þakka langa samfylgd. Við kynntumst í Tónlistarskólanum í Reykjavík fyrir margt löngu og varð fljótt vel til vina. Það var mér sérstök ánægja að vera svaramaður hans þegar hann gekk að eiga sína kæru Ágústu árið 1966. Hún var kletturinn í lífi hans og studdi hann með ráðum og dáð af dugnaði og ósérhlífni alla tíð. Mér er það ógleymanlegt þegar ég átti þess kost að dvelja hjá þeim hjónum í um vikutíma í Vínarborg sumarið 1970 þegar Jónas var þar í framhaldsnámi. Við gengum um borgina í fótspor gömlu meistaranna og ræddum um rökfastan fúgustíl Bachs, léttleikann en um leið dýptina hjá Mozart, átökin í sónötum Beethovens, ljúfsár hljómasambönd Chopins og Schubert með allar sínar ódauðlegu laglínur. Þetta voru dýrðardagar! Að námi loknu fór Jónas að láta að sér kveða í íslensku tónlistarlífi og smám saman óx orðstír hans, þar til hann var orðinn einn af virtustu tónlistarmönnum þjóðarinnar, handhafi fálkaorðunnar, með heiðursverðlaun listamanna, heiðursborgari Kópavogs auk fjölda annarra viðurkenninga.
Fyrir rúmum aldarfjórðungi greindist hann með sjúkdóm sem litaði allt hans líf eftir það og varð honum fjötur um fót á margvíslegan hátt. Af fádæma elju og æðruleysi reis hann þó upp af sjúkrabeði sínum og settist einbeittur við hljóðfærið hvað eftir annað og lék eins og engill knúinn áfram af óbilandi ást og þrá til tónlistarinnar studdur af sinni góðu konu. Það er með ólíkindum hvað eftir hann liggur af upptökum frá farsælum ferli sem nú eru öllum aðgengilegar á plötum, diskum og á spotify.
Ótal ánægjustundir áttum við hjónin á heimili þeirra þar sem jafnan ríkti glaðværð og gestrisni. Þar var gjarnan spjallað og spaugað og stundum hlustað með andakt á einhver af öndvegisverkum tónbókmenntanna. Fyrir stuttu ákváðum við Jónas að hittast nú í maí til að minnast þess að 60 ár eru liðin frá því að við útskrifuðumst úr tónmenntakennaradeild Tónlistarskólans, en nú erum við aðeins þrjú eftir af níu úr þeim góða glaða hópi. Það er dýrmætt að hafa átt vináttu Jónasar og fyrir það er ég þakklátur og ýkjulaust get ég sagt að engan hef ég þekkt sem bar jafn djúpa einlæga ást til tónlistarinnar. Við hjónin sendum Ágústu og fjölskyldu okkar dýpstu samúðarkveðju. Jónas Ingimundarson var drengur góður, blessuð sé minning hans.
Egill Friðleifsson.
Ég á foreldrum mínum mikið að þakka, ekki síst vináttubönd sem þau bundu við fólk, dásamlega listamenn, góðar og skemmtilegar manneskjur sem ég „tók í arf“, kynntist meðan þau lifðu og hef fengið að njóta vináttu og samvista við eftir að þau kvöddu þetta jarðlíf. Jónas Ingimundarson dvaldi á Heilsustofnun í Hveragerði eitt sinn þegar foreldrar mínir voru þar og þeim varð vel til vina. Ég kom í heimsókn á sunnudegi, var boðin eftirmiðdagshressing með þeim þremur og féll strax fyrir Jónasi, heillaðist af gáfum hans og þekkingu og tengdi vel við húmorinn. Við deildum líka áhuga á skáldunum okkar góðu, ljóðlistinni sem hann vann svo mikið með í gegnum tónlistina og samvinnu sína við stórsöngvara þjóðarinnar. Það gladdi mig því ósegjanlega þegar Jónas fór þess á leit að ég tæki þátt í hátíðartónleikasyrpu í tilefni af sjötugsafmæli hans. Þar paraði hann leikara og söngvara til að lesa ljóð og syngja þau og svo spilaði hann sjálfur og talaði við áheyrendur, útskýrði ýmislegt varðandi tónsmíðina, benti á skondnar og áhugaverðar staðreyndir og möguleika í túlkun og sagði svo skemmtilega frá að fólk veltist um af hlátri á milli þess sem það táraðist yfir fegurð tónlistarinnar. Hann Jónas logaði nefnilega alltaf, brann af listrænni ástríðu og naut þess að deila henni með öðrum, miðla og gefa af hæfileikum sínum. Þess fáum við nú notið áfram þótt hann hafi kvatt, því hann skilur eftir sig gífurlegan fjölda af upptökum sem munu gleðja okkur um ókomna tíð. Þessi hátíð í Salnum innsiglaði vináttu mína við Jónas og hans yndislegu konu, Ágústu Hauksdóttur, sem hefur staðið eins og klettur við bakið á sínum manni alla tíð og deilt með honum lífinu í listinni, í hversdagsleikanum og ekki síst í erfiðum veikindum hans undanfarna tvo áratugi. Verkefnin með Jónasi urðu fleiri og samvistir við þau hjónin gerðu alla daga betri. Ég verð ævinlega þakklát fyrir okkar síðasta fund. Ég hafði kíkt inn í kaffi, var á hlaupum eins og venjulega, en þegar ég stóð upp til að kveðja greip Jónas um úlnliðinn á mér og spurði: „Hefurðu ekki tíma til að hlusta aðeins, mig langar svo að leyfa þér að heyra …“ Augnaráðið var glettið en alvörugefið í sömu andránni. Auðvitað settist ég og áður en varði var liðin klukkustund í félagsskap allra helstu meistara tónbókmenntanna, ótrúlega vandaðar upptökur af snilldarleik vinar míns. Tíma mínum hefði ekki getað verið betur varið.
Elsku Ágústa, ég sendi þér og fjölskyldunni allri hugheilar samúðarkveðjur og þakka fyrir vináttuna.
Ragnheiður
Steindórsdóttir.
Kynni mín af Jónasi Ingimundarsyni eru nánast jafnlöng og vera mín í karlakórnum Fóstbræðrum. Hann var að vísu nýlega hættur sem aðalstjórnandi kórsins þegar ég gekk í hann en var þó okkur alltaf nálægur í tilfallandi verkefnum. Okkar kunningsskapur hófst þó fyrir alvöru í Bandaríkjaferð Fóstbræðra haustið 1982 en þá var hann í hlutverki píanóleikara kórsins. Utanlandsferðirnar áttu síðan eftir að verða fleiri þar sem Jónas var með og ekki síst í ferð kórsins til Kanada í tilefni 100. Íslendingadagsins í Gimli. Í Kanadaferðinni var ég farinn að setja saman vísur við ýmis tilefni, og það kunni Jónas að meta og hvatti mig óspart til dáða. Ferðirnar vestur um haf urðu báðar nógu langar til þess að kynnin urðu bæði með afbrigðum góð og varanleg.
Hann var ævinlega fastagestur á hinni margfrægu Menningarhátíð Fóstbræðra á þorra og gat þá einatt glatt gesti með gamanmálum enda húmoristi af guðs náð. Á síðasta þorrablóti í febrúar sl. stjórnaði hann kórnum eftirminnilega í Kirkjuhvoli Bjarna Þorsteinssonar. Hann var gleðigjafi á öllum stundum hvar sem hans leið lá. Á einu þorrablótinu voru þeir nafnarnir Jónas, sem getið er í biblíunni, og okkar Jónas bornir saman og útkoman varð:
Annar gerðist afhuga Guði
og endaði' í hvalnum.
Hinn var ær og alltaf í stuði
og endaði' í Salnum!
Jónas var einstakur tónlistarmaður í orðsins fyllstu merkingu, ekki bara sem píanóleikari og stjórnandi, heldur líka sem uppfræðarinn mikli, sá sem leiddi almúgann inn í undraheim tónlistarinnar með sinni heillandi frásagnargáfu. Tónlist fyrir alla voru kjörorð hans og það voru orð að sönnu. Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að vera beðinn að semja og flytja brag eða réttara sagt alllanga þulu á hátíðarsamkomu í Salnum í tilefni áttræðisafmælis hans í maí á síðasta ári. Þar sungu einnig margir helstu einsöngvarar landsins, sem allir áttu það sameiginlegt að hafa sungið við píanóleik Jónasar.
Um leið og við Þórunn vottum Ágústu og fjölskyldu innilegustu samúð okkar læt ég fylgja lokalínur afmælisþulunnar:
Heiðurslaunalistamaður,
af listagyðju fullskapaður!
Stefán Már
Halldórsson.
Þau eru orðin mörg árin síðan við heyrðum fyrst af Jónasi Ingimundarsyni, ungum og efnilegum píanóleikara sem áhugavert væri að fylgjast með. Fljótlega urðum við þeirrar ánægju aðnjótandi að heyra hann og sjá. Ekki grunaði okkur þá að hann og Ágústa ættu eftir að verða okkar bestu vinir. Kunningsskapur í fyrstu, þegar þau hjón kenndu ungum sonum okkar í Barnamúsíkskólanum, en varð fljótlega að vináttu sem dýpkaði með tímanum og hefur varað nærfellt í hálfa öld. Vinskapurinn styrktist þegar þau efndu til svonefndra Söngdaga í Skálholti og spurðu hvort við vildum vera með. Söngdagarnir voru árviss viðburður í meira en áratug og fólst í því að 30-40 manna hópur kom saman og stundaði, ásamt hljóðfæraleikurum, æfingar á kórverkum frá fimmtudegi til sunnudags, undir stjórn Jónasar. Þarna kynntumst við kennaranum og kórstjóranum Jónasi.
Tónlistin var honum allt, hann var eldlegur boðberi þess að breiða út fagnaðarerindi hennar og hafði einstakt lag á að hrífa með sér þá sem gátu lagst á sveif með honum við að hrinda hugmyndum um tónlistarviðburði í framkvæmd. Hann var óþreytandi að halda tónleika víðs vegar um landið og úti í hinum stóra heimi, bæði einn og einnig með söngvurum sem hann lagði sérstaka rækt við alla tíð. Hann var óvenjulega næmur, tókst undur vel að koma blæbrigðum tónlistarinnar til skila og hjá fáum söng píanóið betur, t.d. í íslensku sönglögunum eða ljóðum Schuberts, svo fátt eitt sé nefnt. Við nutum þess í ríkum mæli að fylgjast með æfingum við undirbúning tónleika og kynntumst því vel mörgu af því góða fólki sem starfaði með honum. Þvílík forréttindi að fá að hlusta á Jónas og að hlusta með honum. Þau voru mörg kvöldin sem við sátum fjögur og hlustuðum saman á tónlist af ýmsu tagi – í gleðinni yfir því að vera til, eins og Jónas orðaði það gjarnan. Þá var hann í essinu sínu og opnaði dyr inn í töfraheima tónlistarinnar. En samveran bauð upp á fleira en tónlist, við spjölluðum um alla heima og geima, grínuðumst, elduðum saman og ferðuðumst saman. Eftirminnilegar eru ferðir til Vínarborgar, á Edinborgarhátíð o.fl. En líklega er dýrmætust minningin um hringferð um landið í covid-hléi 2020. Þá var Jónas orðinn mjög veikur en viljastyrkurinn og hans glaða lund voru byr í seglin og stutt var í spaugsyrðin og kímnina. Síðustu þrjá áratugi mátti Jónas glíma við erfið veikindi sem smátt og smátt drógu úr getu hans til að gera það sem hugur hans stóð til.
Ekki má gleyma þætti Ágústu í lífi hans og starfi, það var dýrmætt og var honum sjálfum ljóst enda dásamaði hann Ágústu sína oft. Í veikindum hans stóð hún sem klettur við hlið hans með ofurmannlegu þreki. Að leiðarlokum biðjum við elsku Ágústu, Hauki, Gunnari, Láru og fjölskyldum þeirra blessunar guðs og kveðjum þennan góða og ljúfa dreng með miklum söknuði og þakklæti fyrir örlætið, tryggðina og einstaka vináttu.
Margrét Erlendsdóttir
og Helgi Hafliðason.
Fallinn er frá einn ötulasti kynnir á klassískri íslenskri tónlist. Jónas Ingimundarson lést 14. apríl sl. eftir löng og mjög erfið veikindi og er hreint ótrúlegt hversu lengi honum entist þrek.
Ég kynntist Jónasi þegar hann var ráðinn söngstjóri Karlakórsins Fóstbræðra 1974. Jónas gerði okkur strax í upphafi ljóst að hann vildi að kórinn yrði vel syngjandi og meinti þar með að kórinn hefði ætíð úr miklu lagavali að velja og þetta tókst honum svo sannarlega því að að fáum árum liðnum var lagafjöldinn sem kórinn gat sungið það mikill að hægt var að efna til raðar tónleika án þess að flutt væru sömu lögin tvenna tónleika í röð. Hann var fljótur að vinna traust okkar söngmanna með sinni mjúku en ströngu lund. Hann gerði mikið í því að kynna karlakórssöng og fórum við alloft og sungum í framhaldsskólum til að leyfa ungu fólki að heyra góðan margradda söng. Ekki var eingöngu sungið í skólum heldur var líka farið um land og sungið í kirkjum og félagsheimilum og var Jónas óþreytandi í þessu kynningarstarfi með kórinn sér við hlið.
Jónas fór tvívegis með kórinn til útlanda. Í fyrra skiptið 1976 til Sovétríkjanna í boði menningarmálaráðuneytisins þar í landi með viðkomu í Finnlandi. Sungið var í Helsinki, Leníngrad og í borg í Suðvestur-Litáen, Druskininkaj. Eitt er mér sérstaklega minnisstætt frá tónleikunum í Drus. Einsöngvari með kórnum var Erlingur Vigfússon, óperusöngvari og gamall Fóstbróðir. Á efnisskránni var rússneska þjóðlagið Áfram veginn í vagninum ek ég. Eftir tónleikana kom ung kona úr áheyrendahópnum til Erlings og þakkaði honum fallegan söng en vildi bara segja honum að við værum ekki í Rússlandi! Seinni utanlandsförin var svo farin til Færeyja 1978. Báðar þessar ferðir urðu til þess að samheldnin í kórnum varð mjög góð.
Jónas var mjög duglegur við að láta taka söng kórsins upp á band og var því mikið af söngnum næstum tilbúið til útgáfu. Í síðustu upptökunum, sem fóru fram í Garðakirkju að afloknum vortónleikum kórsins 1979, tilkynnti hann okkur að hann hygðist láta af störfum sem söngstjóri. Þetta kom yfir okkur eins og þruma úr heiðskíru lofti. Önnur tónlist kallaði.
Það var fjarri því að Jónas hætti að koma í Fóstbræðraheimilið. Hann var ætíð boðinn og búinn að aðstoða kórinn við að stjórna í söng eða leika undir á píanó, t.d. fóru Fóstbræður og Gamlir í söngferð til Kanada 1989 til að taka þátt í hátíðahöldum Íslendingadagsins og kom Jónas með í þá ferð sem píanóleikari. Þá var hann líka stjórnandi Gamalla Fóstbræðra í nokkur ár. Vegna veikinda sinna komst hann æ sjaldnar en eitt var það í starfi kórsins sem hann lét sig ekki vanta á og það var Menningarhátíð kórsins sem ætíð er haldin í upphafi þorra og í ár var engin undantekning á því, Jónas kom sárþjáður og gladdi það kórmenn mjög.
Kæra Ágústa og fjölskylda. Ég sendi ykkur innilegar samúðarkveðjur. Ég er eiginlega viss um að hann var hvíldinni feginn.
Eg bið góðan Guð að blessa minningu Jónasar, þessa ljúfa og öfluga tónlistarmanns sem var öllum harmdauði.
Skúli Möller.
Kær vinur minn og starfsbróðir, Jónas Ingimundarson, er fallinn frá eftir áralanga baráttu við alvarleg veikindi. Það var óvenju merkilegt hvernig hann náði margsinnis bata á þessum árum og gat notið sinna hæfileika.
Jónas var staðráðinn í því frá unga aldri að ná að mennta sig í tónlist. Hann fór í Tónlistarskólann í Reykjavík og að loknu námi þar hélt hann til náms við Tónlistarháskólann í Vínarborg. Þegar heim var komið blöstu við margir möguleikar í tónlistarmálum á Íslandi. Hann tók við kennslu í píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík ásamt því að halda tónleika víðs vegar á Íslandi. Þar kom fram sérstök gáfa Jónasar að kynna klassíska tónlist fyrir fólki. Hann hafði sérstakt lag á því að gera klassíska tónlist aðgengilega fyrir fólki á sannfærandi hátt. Fljótlega kom í ljós að áhugi hans á söng varð til þess að hann varð mjög virkur meðleikari. Meðleikur hans vakti sérstaka athygli færustu söngvara landsins og þar átti hann glæsilegan feril á næstu árum. Mörg málefni tónlistarinnar vöktu áhuga hans og má þar nefna áhuga hans á kórsöng og var hann til að mynda kórstjóri karlakórsins Fóstbræðra um árabil.
Ég kynntist Jónasi fyrst við tónlistarstörf hans utan Reykjavíkur og upp frá því urðum við góðir vinir og áttum mörg málefni sameiginleg. Vinátta okkar hefur varað öll þessi ár síðan. Minningin um Jónas á eftir að snerta æði marga og mun þar hin sérstaka gáfa hans að kynna klassíska tónlist vera efst á baugi.
Innilegar samúðarkveðjur til Ágústu og barna þeirra, Hauks Inga, Gunnars Leifs og Láru Kristínar.
Halldór Haraldsson.
Eldhugi, frumkvöðull, hugsjónamaður. Tónlistin var Jónasi Ingimundarsyni heilög köllun; útbreiðsla hennar, að opna eyru fólks og huga fyrir þeim undramætti sem í henni býr, var hans fagnaðarerindi.
Ljúfari maður var vandfundinn og lundarfar hans var meðal þess sem gerði hann að eftirsóttum kennara. Ég var fimmtán ára þegar ég hóf nám hjá honum við Tónlistarskólann í Reykjavík og naut handleiðslu hans þar í fjögur ár. Aldrei sá ég hann skipta skapi, heldur miðlaði hann á sinn næma hátt túlkun og tækni í verkum meistaranna, allt frá Bach og Mozart til Schönbergs og Bartóks.
Jónas kunni að láta slaghörpuna syngja og því var ekki nema eðlilegt að söngvarar flykktust til hans í samstarfi; þótt hljóðfæri hans væri annað var hann samt einn af þeim. „Reyndu að ganga ekki í lið með hömrunum,“ sagði hann stundum þegar honum þóttu nemendur treysta um of á slagverkið í píanóinu; betra væri að laða fram syngjandi tón. Hann bar líka virðingu fyrir þögninni, eins og önnur kennisetning hans ber vitni um: „Tónlistin þarf alltaf að vera betri en þögnin sem hún rýfur.“
Hann kenndi fólki að hlusta. Þeirrar náðargáfu nutum við nemendur hans og áttum margar ógleymanlegar stundir með þeim Ágústu í stofunni á Álfhólsveginum. Þar var staða menningarlífsins rædd í þaula en einnig settar á fóninn óteljandi plötur, gamlar og nýjar hljóðritanir með snillingum slaghörpunnar, kostir þeirra og gallar metnir. Þó var ekkert fjær huga Jónasar en að búa til „fagidjóta“. Hann var menntandi mentor í víðasta skilningi, á öllum sviðum mannlegrar tilveru.
Framlag Jónasar til tónlistarlífs á Íslandi er ómetanlegt. Hann miðlaði tónlist af áhuga og innsæi sem fáum er gefið, og markaði djúp spor með kynningum sínum og fræðsluverkefnum víða um land. Hann setti íslenska einsöngslagið í öndvegi á eftirminnilegum tónleikum og hljóðritunum, leiddi landsmönnum fyrir sjónir hið mikla framlag íslenskra tónskálda í þeirri grein. Síðasti minnisvarðinn um það merka starf er drög að heildarskrá um íslensk sönglög sem komu út fyrir nokkrum árum í samstarfi við Ágústu og Trausta Jónsson, tímamótaverk byggt á áratuga rannsókn. Jónas var sem kunnugt er í forystu þegar Salurinn var reistur í Kópavogi, fyrsta sérhannaða tónleikahús Íslendinga.
Það var sárt að horfa upp á grimman sjúkdóm ganga nærri honum á besta aldri, en aðdáunarvert hvernig hann tókst á við veikindin með kjarki og æðruleysi. Þótt líkamlegir kraftar væru á þrotum var þörfin til að ræða og kryfja málefni listarinnar ávallt söm. Síðast bar fundum okkar saman undir lok síðasta árs, þegar ég færði honum nýútkomna bók mína. Fáeinum dögum síðar sló hann á þráðinn, kvaðst hafa lesið hana á mettíma og þurfti að ræða ótal margt sem tengdist efni hennar. Alltaf samur við sig, hvetjandi, styðjandi og gleðjandi. Nú þegar lokahendingin hefur hljómað lútum við höfði í þökk, umvafin þögninni sem hann kunni að umgangast ekki síður en hinn syngjandi tón.
Árni Heimir Ingólfsson.
Við erum stödd baksviðs, í græna herberginu í félagsheimilinu í Bolungarvík. Árið er 2003 og á sviðinu er Jónas Ingimundarson að leika röð einleiksverka fyrir stappfullum sal af fólki. Tónleikaferðir hans um landið voru fyrir löngu orðnar fastur liður í menningarlífi þjóðarinnar en í þetta sinn var tilefnið annað: fyrsta tónlistarhátíðin Við Djúpið sem við Guðrún Birgisdóttir flautuleikari höfðum stofnað í samstarfi við tónlistarskólana og bæjaryfirvöld á svæðinu. Við undirbúninginn höfðum við ákveðið að hver hátíð skyldi skarta sérstökum heiðursgesti. Það tók okkur ekki nema andartak að sammælast um að sá fyrsti skyldi vera Jónas, slík var nærvera hans og vigt í huga okkar og tónlistarlífi. Hann þáði boðið og bætti um betur með því að taka með sér ungan söngsnilling, Ólaf Kjartan Sigurðarson, en þeir áttu þá þegar að baki talsvert samstarf enda var Jónas – af alkunnu örlæti sínu – fljótur að koma auga á hæfileikafólk með það fyrir augum að hjálpa því að koma sér á framfæri.
En víkjum aftur að græna herberginu. Innilegt lófatak heyrist niður, merki um að Jónas hafi lokið leik sínum og að við Guðrún séum næst á svið. En Jónas snýr ekki aftur. Við hinkrum eftir honum um stund, nokkuð hissa, og ákveðum loks að klifra upp tröppurnar, stíga inn í sviðsljósið og hefja leik. Í myrkrinu í vængnum bíður okkar hins vegar Jónas í miklum ham, baðandi út höndunum, hvíslandi ákaft: „Stopp, stopp! Ég verð að fá að spila eitt verk enn! Er það í lagi?“ Ekki hafði verið reiknað með slíkum útúrdúrum í prentaðri efnisskránni en það var auðsótt mál. „Takk!“ hrópaði hann himinlifandi, skaust eins og blátt strik aftur inn á svið og var varla sestur þegar hann skellti sér í Rondo alla Turca eftir Mozart, á yfirtempói. Þegar síðasta nótan hafði verið slegin var sem þakið ætlaði að rifna af, áheyreyndur stóðu á fætur hrópandi og kallandi af hrifningu, fagnaðarlátum ætlaði aldrei að linna. Og þarna stóðum við Guðrún, horfðum hvort á annað og hugsuðum: „Hvernig í ósköpunum er hægt að fylgja eftir svona performans?“
Hér fór maður sem elskaði að deila fegurstu sköpunarverkum mannsandans með áheyrendum, ungum sem öldnum, og allir elskuðu hann á móti. Hvar sem hann drap niður fæti, í styttri eða lengri tíma, urðu til tónleikaraðir sem seldust jafnharðan upp, í sölum sem hann hafði sjálfur uppgötvað og jafnvel séð til þess að byggðir yrðu frá grunni. Einn slíkur er Salurinn í Kópavogi, hugsanlega besti tónleikastaður Íslands, glæsilegur minnisvarði um stórmerkan listamann.
Og nú er komið að kveðjustund og einmitt í Salnum mun, á næstu vikum, á þriðja tug hæfileikaríkra ungra tónlistarmanna ljúka námi frá tónlistardeild Listaháskóla Íslands með útskriftartónleikum sem þau hafa unnið að hörðum höndum á undanförnum þremur árum. Það er falleg og viðeigandi umgjörð og víst er að þar, sem og um alla framtíð, verður hugsað til Jónasar Ingimundarsonar með djúpu þakklæti og virðingu. Ágústu, börnum þeirra og fjölskyldum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Pétur Jónasson.
Um árabil söfnuðust nemendur Tónlistarskólans í Reykjavík saman í húsinu nr. 24 við Hjarðarhaga, þar sem áttu heima sæmdarhjónin Hallgrímur J.J. Jakobsson söngkennari Hálfdánarsonar kaupfélagsstjóra á Húsavík, og Margrét Árnadóttir húsfreyja frá Látalæti á Landi (Múli núna). Erindið var að klimpra saman á hljóðfæri. Þarna var menningarheimili og móttökur ætíð konunglegar. Hallgrímur var skarpur rólyndis- og bókamaður og Margrét fjörmikil dugnaðarkona, búin ríkulegri spauggreind. Gestirnir lögðu undir sig betristofuna fólksins alla sunnudagsmorgna árið um kring og í borðstofunni var þeim unninn voldugur beini. Sonur hjónanna, Jakob, loflegrar minningar, lék á fiðlu og framan af var píanó-hlutverkið í höndum Eyglóar Helgu Haraldsdóttur, en síðan annaðist það um skeið Kolbrún Sæmundsdóttir. Eftir það kom til sögunnar valmennið Jónas Ingimundarson austan úr Árnesþingi og settist við hljóðfærið á Hjarðarhaganum. Þá höfðu þau Hallgrímur og Margrét keypt flygil til heimilisins og Jónas sagði, eins og hann átti eftir að segja oft og víða, að þetta væri trúlega besti flygill landsins, flygill allra flygla, eins konar platónsk frummynd flygilsins, himneskur, áþreifanlegur og eilífur í senn, sem aðrir flyglar væru aðeins ófullkomnar og forgengilegar eftirmyndir hans. Þetta hljóðfæri varð framhrundingarafl þess síðborna skilnings sumra viðstaddra að raunar er slagharpan ekki ásláttarhljóðfæri heldur strengjahljóðfæri.
Á flyglinum lágu nóturnar að píanótríói eftir finnska tónskáldið Toivo Kuula (1883-1918), nemanda Sibelíusar. Af einhverjum ástæðum varð aldrei af því að við reyndum að spila þetta tónverk; kannski hefur upphafið verið strembnara en svo að við treystum okkur lengra.
Jónas var einn af þessum greindu unglingum sem eru í senn alvörugefnir og hláturmildir. Hann var í fyrstu til húsa hjá frænda sínum á Grettisgötunni; hafði til umráða herbergi þar sem kolsvart og glansandi fortepiano hafði mjög afdráttarlausa návist, næstum jafn eindregna og risastóru sjónvarps-skjáirnir sem fóru að tíðkast þegar lengra kom fram á öldina.
Honum sagðist síðar svo frá á prenti, að spilafélagar hans hefðu verið af tónlistarfólki, en lét ógert að segja frá því að sjálfur var hann sonur Ingimundar Guðjónssonar, hins merka organista og söngstjóra fyrir austan fjall, sem að auki var forgöngumaður um byggingu Þorlákskirkju.
Við æfðum píanótríó í G-dúr eftir Jósef Haydn. Fiðlan og píanóið spila saman fyrstu hendingu laglínunnar. En frá og með öðrum áttundapartinum í fjórða takti syngja píanó og celló bassalínu saman. Beittum við okkur af alefli við þetta.
Í 17. takti 2. þáttar spilar fiðlan hliðarstef með píanóinu. Hlustað var á Thibaud, Cortot og Casals og lék sá síðastnefndi laglínuna þegar endurtekið var. Það leist okkur þjóðráð.
Þessar unaðslegu minningar gleymast nú óðum þótt geymist enn hjá þeim sem komnir eru á leiðarenda í síðasta áfanga jarðvistarinnar. Öðlingurinn Jónas Ingimundarson mátti í rúman mannsaldur með réttu heita meðleikari íslensku þjóðarinnar og stóð sig vel í því hlutverki. Guð blessi minningu drengsins góða og kærs vinar, huggi hans ágætu eiginkonu og styrki og verndi ástvinina sem eftir lifa.
Gunnar Björnsson pastor emeritus.
Við sátum í stofunni hjá Jónasi og Ágústu þegar Jónas sagði við mig: Komdu, ég þarf að sýna þér dálítið. Hann hélt á fyrstu ljóðabók Hannesar Péturssonar, Kvæðasafni, og las fyrir mig ljóðið Haustvísa:
Störin á flánni
er fölnuð og nú
fer enginn um veginn
annar en þú.
Í dimmunni greinirðu
daufan nið
og veizt þú ert kominn
að vaðinu á ánni …
Hann sagði mér að eitthvert sinn er hann stóð frammi fyrir mjög tvísýnni aðgerð hefði hann opnað ljóðabókina, sest við flygilinn og lagið við ljóðið varð til. Þetta lýsir Jónasi vel; hann var tilfinningaríkur, viðkvæmur, fróður og skemmtilegur maður, með einstaka hæfileika um allt er varðaði tónlist. Hann er einn af risunum í íslensku tónlistarlífi og gerði sér fljótt grein fyrir þeim auði sem Íslendingar eiga í ljóðum og lögum. Hann lifði fyrir tónlistina – að hlusta á hana eða flytja hvort heldur var einn eða með öðrum og mikill áhrifavaldur.
Vinátta okkar og samstarf varði í marga áratugi og fyrir það verð ég ævinlega þakklát. Ljóðatónleikar Gerðubergs og „Íslenska einsöngslagið“ hefðu aldrei orðið að veruleika með tónleikum og útgáfu á geisladiskum nema að hans frumkvæði.
Hann var maður samvinnu og samstarfs og valdi með sér einvalalið eins og Trausta Jónsson og Reyni Axelsson, auk allra þeirra fjölmörgu söngvara sem tóku þátt í þessum stóru verkefnum. Þess utan að kalla til tónskáld til að semja lög við ný og eldri ljóð.
Jónas bjó yfir mikilli frásagnargáfu og naut þess að miðla þekkingu sinni; og öll erum við ríkari eftir kynni við hann. En akkerið í lífi Jónasar, stoð hans og stytta var kona hans, Ágústa, oftast nefnd í sama orðinu: „Jónas og Ágústa“.
Elsku Ágústa og fjölskylda, ég votta ykkur mína dýpstu samúð.
Hjarta mitt er fullt af söknuði, en líka miklu þakklæti fyrir allar liðnar stundir. Blessuð sé minning Jónasar Ingimundarsonar.
Elísabet Bjarklind Þórisdóttir.
Það er snar þáttur í lífshamingju minni að hafa komist í vinahóp Jónasar og Ágústu og verið þar í rúman aldarfjórðung.
Oft höfum við setið í sól og sumaryl hér hjá okkur í Frakklandi, en „vináttan hefur þó verið heitari“ svo tínd séu til orð Jónasar úr einni af hans gestabókarfærslum.
Það var lífshlutverk Jónasar að breiða út fagnaðarerindið í tónlistinni og þar hef ég reynt að taka hann mér til eftirbreytni þótt í smærri stíl sé.
Hann lifði í tónlist og gaf öðrum ríkulega af þessari list allra lista. Allir söngvarar kepptust um að flytja með honum ljóðasöngva. Ég stóð fyrir tónlistarhátíðum í Provence um árabil og ætið komu þau hjón með frábæra söngvara með sér. Aldrei kom til tals nein greiðsla til hans fyrir hans ómetanlegu hjálp – það var ekki hans stíll.
Ógleymanlega geymist í minni mínu mynd þeirra Ágústu að faðmast í Miðjarðarhafinu á sextugsafmæli Ágústu. Einlæg þökk fyrir að hafa fengið að deila þeirri hamingju með ykkur ásamt ótal öðru.
Með leyfi sr. Hjálmars langar mig að láta fljóta með ljóð sem hann samdi til hans sl. ár:
Stundin er komin, hann stígur
á svið
með stilling og auðmýkt í sinni.
Svo lætur hann nóturnar lifna við
og leggur að sálinni þinni.
Í sjöunda himni ég hlustir legg við
í hrifningu umvafinn blómum
Og meðtek og upplifi fegurð
og frið
sem flutt er í tónum og hljómum.
Sálin er heilluð og hugurinn kyrr,
það er heilun í alla staði.
Og hjarta mitt þakkar allt þetta sem fyrr
voru þéttskráðar nótur á blaði.
Þeir Gunnar Birgisson stóðu fyrir byggingu Salarins í Kópavogi – fyrsta tónleikahúss Íslendinga en ekki tókst okkur þremur að byggja óperuhús í Kópavogi. Fjármálahrunið kom í veg fyrir það og bíður það síns tíma.
Elsku Ágústa og fjölskylda, hlýjar samúðarkveðjur frá okkur Nathalíju. Hugur okkar er sorgmæddur en um leið fullur þakklætis.
Ármann Örn
Ármannsson.
Tónlistargyðjan kynnti Jónas Ingimundarson og Ágústu systur mína hvort fyrir öðru – og vakti yfir þeim og leiddi. Hún fól Jónasi það göfuga hlutverk að vera kyndilberi í íslensku tónlistarlífi í hálfa öld og bera hróður landsins víða á erlendum vettvangi. Jónas hreif áheyrendur þegar hann kynnti tónlist, tónskáld og flytjendur. Hann var kröfuharður kunnáttumaður og kom fjölmörgu efnilegu tónlistarfólki til góðs þroska, frægðar og frama.
Þegar Jónas kom til sögunnar í fjölskyldu minni var honum ekki aðeins vel tekið sem tengdasyni og mági, heldur jafnframt kærkomnum listfrömuði, sem leiddi okkur um þær heillandi lendur sem hann helgaði líf sitt. Foreldrar mínir studdu af bestu getu við bakið á Jónasi í tónlistarnámi hans erlendis – og skutu þar ekki yfir markið – og hann endurgalt það ríflega síðar, m.a. með ómetanlegri leiðsögn við tónlistarkonuna Láru Bryndísi, dóttur mína.
Ég er mági mínum þakklátur fyrir samfylgdina – og tel mig vita að tengdaforeldrar hans væru mér sammála, mættu þau enn mæla. Fráfall Jónasar kallar í senn á eftirsjá og létti. Langvarandi heilsuleysi hans brá ítrekað fyrir hann fæti. En harpa hans heldur áfram að hljóma um ókomna framtíð.
Eggert Hauksson.
Það er óhætt að segja að hjónin Jónas Ingimundarson og Ágústa Hauksdóttir hafi verið örlagavaldar í lífi okkar fjölskyldu. Á þeim árum þegar við Elín Edda vorum að ljúka okkar framhaldsnámi í Lundúnaborg var Jónas og hans fólk að undirbúa næstu tónleikaröð, hinna metnaðarfullu Ljóðatónleika Gerðubergs, og buðu mér einsöngstónleika, með hljóðritun og útgáfu. Fleiri samstarfsverkefni fylgdu í kjölfarið, ekki eingöngu á tónleikapallinum, því Jónas tók við píanókennslu Daða, sonar okkar, hjá Tónlistarskólanum í Reykjavík eftir að þriggja ára dvöl okkar lauk í London.
Það má halda því fram að Jónas hafi erft Daða frá Ágústu, sem fyrir okkar útrás lagði grunninn í Tónmenntaskóla Reykjavíkur. Að vísu ætlaði Daði að læra á flautu, en þar sem voru tveir Daðar á biðstofunni, þá lenti okkar Daði í píanótíma hjá Ágústu og vildi ekki skipta eftir þau kynni. Þegar við spurðum: „Hvernig gekk með flautuna?“ þá var svarið einfalt: „Það var píanó í flaututímanum.“
Tónlistin var Jónasi í blóð borin. Auk þess að starfa með helstu söngvurum landsins átti hann einstaklega gott með að kalla fram hlýtt og oft kímið andrúmsloft meðal áheyrenda. Jónas skilur eftir sig fjölda hljóðrita og var það afar ánægjulegt að vera kallaður heim til þeirra hjóna, fyrir ekki svo löngu, til þess að hlýða á tónleikahljóðrit, sem stóð til að gefa út á streymisveitum. Þrátt fyrir erfið veikindi, sem Jónas tókst á við með æðruleysi, þá var tónlistin ætíð í fyrsta sæti, sem heilandi afl.
Þennan veg
fer enginn
nema húmið
(Basho, Zen-ferðamunkur)
Við sendum Ágústu, börnum, fjölskyldu og vinum samúðarkveðjur.
Sverrir Guðjónsson, Elín Edda Árnadóttir og Daði Sverrisson.