Þórshöfn Tristan Michael Willems, fyrir miðju, deilir hér matzoh-brauðinu meðal gesta páskahátíðarinnar, sem aldrei höfðu bragðað slíkt brauð áður.
Þórshöfn Tristan Michael Willems, fyrir miðju, deilir hér matzoh-brauðinu meðal gesta páskahátíðarinnar, sem aldrei höfðu bragðað slíkt brauð áður. — Morgunblaðið/Líney Sigurðardóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Þórshöfn býr tónlistarkennarinn Tristan Michael Willems og núna fyrir páskana ákvað hann að deila menningu sinni og hefðum með nokkrum vinum sínum og bauð þeim í einstaka hátíð, páskahátíðina Pesach eða passover

Líney Sigurðardóttir

Þórshöfn

Á Þórshöfn býr tónlistarkennarinn Tristan Michael Willems og núna fyrir páskana ákvað hann að deila menningu sinni og hefðum með nokkrum vinum sínum og bauð þeim í einstaka hátíð, páskahátíðina Pesach eða passover. Það er forn gyðingahátíð, minnir á flótta og frelsun gyðinga úr ánauð í Egyptalandi. Sú hátíð er ein af þremur meginhátíðum gyðinga og segir Tristan þetta vera nyrstu páskahátíð heims af þessu tagi.

Tristan, sem sjálfur er af gyðingaættum, kynnti hátíðina í stuttri athöfn fyrir gestum sínum og sagði að samkvæmt gyðinglegri hefð væri áhersla lögð á þakklæti, minningu og samveru.

Síðasta kvöldmáltíðin og brauðið brotið

Að athöfn lokinni var borinn fram kvöldverður, síðasta kvöldmáltíðin, og var hún ríkuleg og vel undirbúin. Á borðum voru ljúffengir réttir; kjúklingasúpa, steikt lamb, latkes (eins konar kartöflukökur), eftirréttur og vín. Tristan pantaði einnig sérstakt matzoh-brauð, hið hefðbundna ósýrða brauð gyðinga sem tengist flóttanum frá Egyptalandi. Þetta er handgert brauð, rándýrt, og þurfti Tristan að sérpanta það. Það er sérstök athöfn þegar brauðið er brotið og því deilt meðal gesta samkvæmt hefðum.

Á hátíðarborði Tristans var einnig „seder-bakkinn“, þar sem sex skálar geyma táknræn matvæli sem hvert hefur sína merkingu. Í einni skál er egg sem tákn um nýtt líf og fórn, í annarri lítið lambabein sem minnir á lambið sem fórnað var í musterinu, í hinum voru ávextir, hnetur og jurtir, sætar og beiskar en einnig grænar jurtir sem dýft er í saltvatn er táknar tár.

Tristan lagði bæði mikla vinnu og fé í að undirbúa þessa hátíð og sagðist vilja kynna menningu sína fyrir vinum sínum og eiga notalega kvöldstund. Það tókst svo sannarlega, kvöldið var einstakt og fannst gestum mikil upplifun að taka þátt í þessari sérstöku páskahátíð.

Höf.: Líney Sigurðardóttir