Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Senn styttist í tíu ára afmælistónleika Rokkkórs Íslands með Eiríki Haukssyni í Hörpu. Tvennir tónleikar verða á morgun, föstudaginn 25. apríl, og er nær uppselt á þá hvora tveggja. Á efnisskrá verða meðal annars nokkur af vinsælustu lögum Eiríks og auk þess verður kórinn með sér efni.
Matthías V. Baldursson stofnaði kórinn fyrir áratug. „Mig langaði til að búa til kór sem væri að syngja og beita röddinni á þann hátt eins og gert væri í rokktónlist,“ segir hann. „Rokktónlistin hafði lengi höfðað til mín og þetta var viss áskorun fyrir mig að takast á við. Láta á þetta reyna.“
Kórstjórnandinn fékk 12 manns til liðs við sig í upphafi og síðan var haft samband við góða rokkara og þeir fengnir til að slást í hópinn. Þar á meðal voru Íris Kristinsdóttir, Telma Ágústsdóttir og Davíð Smári Harðarson. „Þau höfðu verið í rokkinu í gamla daga og við keyrðum strax af stað og eitt fyrsta verkefnið var að syngja á 30 ára afmælistónleikum Sniglabandsins í Eldborg. Það tókst með eindæmum vel, krafturinn í hópnum var mikill og ekki varð aftur snúið.“
Öflugur um 70 manna kór
Rokkkórinn hefur verið samstilltur og einsöngvarar í honum hafa fengið að njóta sín. Hann hefur sungið með ýmsum hljómsveitum eins og til dæmis Dr. Spock og gefið út lög, meðal annars á plötu með Huldumönnum. „Við sungum síðan einnig með þeim á útgáfutónleikunum,“ rifjar Matthías upp. „Hápunkturinn til þessa er þegar við vorum fengin til þess að syngja með rokkbandinu Foreigner í Laugardalshöll 2018. Þá stigum við á svið með bandinu og sungum I want to know what Love is.“
Eiríkur býr í Noregi en náði einni æfingu með kórnum í lok febrúar og annarri í liðinni viku. Um 70 manns eru í kórnum og spennan hefur magnast upp jafnt og þétt. „Eiki hefur ekki komið oft fram á Íslandi undanfarin ár og því er þetta kærkomið tækifæri,“ segir Matti.
Hljómsveit undir stjórn Sigurgeirs Sigmundssonar gítarleikara spilar með kórnum og Eiríki, en Sigurgeir hefur starfað með kórnum frá upphafi. Með honum í bandinu eru Eiður Arnalds, bassaleikari úr Todmobile, Birgir Þórisson hljómborðsleikari og Skálmaldarfélagarnir Þráinn Árni Baldvinsson gítarleikari og Jón Geir Jóhannsson trommuleikari. „Það er svolítill sinfónískur metall í prógramminu og til þess að fá hann réttan, fá rétta fílinginn, fannst mér rétt að fá félagana úr Skálmöld,“ leggur Matti áherslu á. „Ég held að fullyrða megi að þetta verði í fyrsta sinn á Íslandi sem kór syngur metalmúsík.“