Það er nýjast að samskiptin út yfir pollinn til Bandaríkjanna eru hlaupin í harða kekki og þá bregður svo við að birtast taka greinar og athugasemdir í Evrópupressunni þar sem þessir gömlu samherjar okkar eru sýndir í öðru ljósi en áður og áhersla lögð á það sem skilur að og er öðruvísi en hjá „okkur“.
Fyrst er hneykslast á því að Bandaríkjamenn fari ekki spönn frá rassi án þess að vera á bíl, þeir hjóli hvorki né gangi eins og í gömlu Evrópu. Þá er ekkert tillit tekið til meiri fjarlægða þar.
Í annan stað eru Kanar kallaðir extróvert orðhákar og ágengir. Ekki er það gott en bót í máli að steikurnar þar séu stærri og matarskammtar á veitingahúsum yfirleitt. Reikningurinn komi með sköttum ofan á, strax og þjónarnir haldi menn búna að ljúka máltíð, og svo er ísvatnið ókeypis með matnum í Ameríku en þjórfé nánast skylda, 15-20%. Svo má taka leifar með í „doggy bag“ heim.
Í Evrópu séu menn á hinn bóginn látnir sitja sem lengst og jafnvel dregnir á réttunum svo að meira sé drukkið, og blávatnið líka lagt á gullvogina, og enginn reikningur fyrr en þrábeðið sé um hann. Þjórfé sé að vísu misjafnt eftir löndum, en víðast temmilegt og ekki alls staðar sjálfsagt.
Það tekur því varla að nefna að Bandaríkjamenn eru sagðir yfir-trúaðir, elskir að byssum og hafa sérlega púritanska ritskoðun á kvikmyndum.
Svo borði þeir með gafflinum einum saman, nema þegar þeir noti guðsgafflana og sleiki þá fingurna vandlega eftir vel heppnaða máltíð.
Já, þetta er greinilega öðruvísi fólk, síðan vináttan trosnaði.
Sunnlendingur