Símon Georg Rafnsson fæddist 30. júní árið 1947 á heimili foreldra sinna í Austurkoti á Vatnsleysuströnd. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 5. apríl 2025.
Foreldrar hans voru Rafn Símonarson og Valgerður Guðmundsdóttir.
Systkini Símonar eru Óskar sem er látinn, Erla látin, stúlkubarn sem lést nokkurra mánaða, Hörður Sólberg sem er látinn, Valberg, Alfreð Steinar, Hrafnhildur Bryndís og Guðmundur Konráð.
Símon gekk í Brunnastaðaskóla og fór þaðan í Gagnfræðaskólann í Keflavík. Ungur fór hann til vinnu og vann ýmis störf á sinni ævi. Lengst af vann hann á Esso uppi á Keflavíkurflugvelli en síðustu 13 ár af starfsævi sinni vann hann hjá Rútufélaginu Allrahanda þar sem hann keyrði skólabíl fyrir fötluð börn. Þetta starf var líf hans og yndi og var hann vinsæll meðal barnanna. Einnig var hann virkur í félagsstörfum í sveitarfélaginu og þá sérstaklega kirkjunni þar sem hann var formaður sóknarnefndar í 20 ár og meðhjálpari að auki.
Árið 1966 kynntist Símon Björgu Eddu Friðþjófsdóttur og gengu þau í hjónaband 10. ágúst 1968 í Garðakirkju. Þau eignuðust tvær dætur: Steinvöru, f. 1969, og Sigríði, f. 1976. Sambýlismaður Steinvarar er Björn Ísleifur Björnsson, f. 1968, bóndi í Hestgerði í Suðursveit. Þeirra börn eru Símon Rafn, f. 1993, sambýliskona Thelma Ósk Traustadóttir, f. 1997, barn Hafsteinn Ingvi, f. 2024, Lilja Karen, f. 1997, og Hildur Margrét, f. 2002, sambýlismaður Sigursteinn Már Hafsteinsson, f. 2002. Sigríður er búsett í Hveragerði og á tvö börn, Elvu Björgu Elvarsdóttur, f. 1997, og Hilmar Þór Sigurjónsson, f. 2009.
Útför Símonar fer fram frá Kálfatjarnarkirkju á Vatnsleysuströnd í dag, 25. apríl 2025, klukkan 14.00.
Við kveðjum nú ærlegan og góðan félaga. Símon Georg Rafnsson, fyrrverandi formaður og stjórnarliði Ungmennafélagsins Þróttar, verður jarðsunginn í dag.
Símon var Þróttari mikill og annt um ungmennafélagið sitt alla tíð. Það var alltaf skemmtilegt að hlusta á hann rifja upp árin með róðrarsveitinni og segja sögur frá 1. des.-skemmtun Þróttar.
Símon tók þátt í Landsmóti UMFÍ 50+ sem fram fór í Vogunum á síðasta ári. Það fór ekki á milli mála að félagi okkar Símon Georg Rafnsson skemmti sér vel innan sem utan vallar og naut sín í botn á landsmótinu.
Stjórn Þróttar sendir Eddu og fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.
Fyrir hönd UMFÞ,
Marteinn Ægisson, framkvæmdastjóri Þróttar.