Þórhallur Heimisson
Hvarvetna um heimskringluna minnast menn þessa dagana Frans páfa er féll frá nú á annan dag páska. Allir eru á einu máli um hversu alþýðlegur og vinalegur Frans var og hversu elskaður hann var af almenningi hvar sem hann kom. Enda gerði hann sér far um frá fyrsta degi sem páfi að ýta til hliðar prjáli og skrauti kirkjunnar en koma fram í þess stað sem einfaldur þjónn Krists. Má þar sem dæmi nefna hina hvítu ölbu sem hann jafnan klæddist í stað biskupskápu og annars prjáls.
Sjálfur hef ég vegna starfa minna í Róm haft aðstöðu til að sækja messur og helgistundir hjá Frans af og til allt frá því hann var kosinn páfi árið 2013. Að sækja guðsþjónustu hjá honum var einstök upplifun. Fjöldinn sem jafnan tók þátt í þeim var gífurlegur. Ég get tekið sem dæmi messu sem ég sótti haustið 2024 á Péturstorginu í Róm. Ég dvaldi þá á hóteli nærri Termini-járnbrautarstöðinni. Messan átti að hefjast klukkan ellefu þennan sunnudagsmorgun. Ég lagði af stað til helgihaldsins frá Termini með neðanjarðarlestinni í átt að Vatíkaninu um klukkan hálfníu. Ferðin tekur venjulega tuttugu til þrjátíu mínútur og við hverja lestarstöð bættist í hóp farþega. Lestin var þannig troðin af fólki þegar við komum að Ottaviano-stöðinni sem er næst Páfagarði. Þegar ég kom upp tröppurnar frá stöðinni sá ég strax að fólk streymdi í áttina að Vatíkaninu eftir Via Ottaviano. Það þýddi ekkert að flýta sér, mannhafið var slíkt, en allir í spariskapi og bros á öllum andlitum þrátt fyrir fjöldann.
Að lokum komst ég að Péturstorginu. Þar beið vopnaleit áður en maður fékk að fara inn á sjálft torgið. Röðin gegnum öryggistækin virtist endalaus, en um klukkan hálfellefu komst ég loksins inn á torgið. Þar var fjöldinn og stemningin eins og á popptónleikum. Fólk var samankomið á öllum aldri, börn, fullorðnir og gamalmenni, og frá öllum heiminum. Menn veifuðu fánum heimalanda sinna, sumir sungu, aðrir voru uppteknir við að nesta sig og börn sín, enn aðrir settust á torgið og biðu rólegir. Ég gerði hið sama, settist flötum beinum og beið, og átti síðan skemmtilegt spjall við fólkið í kringum mig. „Hvaðan kemur þú“ spurðum við hvert annað og eins og alltaf uppskar ég mikla athygli og vinarþel þegar ég sagðist vera frá Íslandi.
Sjálf messan hófst inni í Péturskirkjunni klukkan ellefu en úti á torgi var hægt að fylgjast með á sjónvarpsskjáum. Ekki var nokkur von til þess að komast í kirkjuna. Messunni lauk um hálfeitt og þá fór að færast líf í mannskapinn á torginu. Hápunktur dagsins sem allir biðu eftir kom enda skömmu síðar þegar Frans páfi birtist í glugga páfahallarinnar og heilsaði þúsundunum á torginu með orðunum: „Fratelli!“ eða „Systkin“. Fólkið svaraði með húrrahrópum og veifaði fánum og hrópaði fagnandi. Ræða Frans sem hann flutti frá hallarglugganum var á ítölsku, en einnig heilsaði hann fólksfjöldanum á fjölda tungumála. Hægt var að nálgast ræðuna á ensku á heimasíðu Vatíkansins. Hámarki stundarinnar var náð þegar Frans leiddi fjöldann í Maríubæninni og flutti að lokum blessunarorðin. Fólk lyfti þá upp börnum sínum móti páfa, krossaði sig í bak og fyrir, fór með bænir og klappaði.
Er páfi hafði lokið máli sínu og kvatt byrjaði fólkið að tínast burt. Aftur var friðsældin ótrúleg meðal þessa mikla fjölda. Enginn ýtti eða reyndi að troðast fram fyrir aðra. Ég gæti vel trúað að um 30 til 40.000 manns hafi verið á torginu. En allir sýndu tillitssemi og með bros á vör tíndumst við burt, út af torginu, út á göturnar, út í borgina, sumir gangandi, aðrir í strætó og enn aðrir í neðanjarðarlestinni eins og ég. Fjöldinn var slíkur að maður þurfti að bíða af sér nokkrar lestir.
Heim á hótelið við Termini var ég kominn um klukkan þrjú. Messuferðin til Frans hafði þannig tekið um sex klukkutíma. En ferðin var hverrar mínútu virði og skildi eftir hlýjar tilfinningar og aukna trú á mannkyninu. Eins og allar aðrar messuferðir sem ég hef farið til þessa einstaka kirkjuleiðtoga.
„Requiescat in pace Domini.“
Höfundur er prestur.