Diðrik Vilhjálmsson fæddist í Hamborg í Þýskalandi 22. júlí 1927. Hann lést á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Brákarhlíð í Borgarnesi 5. apríl 2025.
Foreldrar hans voru Hans Borchmann, f. 15. janúar 1897, d. 8. janúar 1981, kennari og skólastjóri, og Johanna Catharina Mannshardt, f. 2. júní 1898, d. 13. júlí 2001, hjúkrunarkona og húsmóðir.
Systkini Diðriks: Hans-Peter, f. 14. janúar 1924, hann lést í seinni heimsstyrjöldinni, Walther, f. 6. desember 1924, d. 13. júlí 2016, og Johanna Catharina, f. 30. júlí 1934.
Diðrik kvæntist 2. ágúst 1952 Guðfinnu Jónsdóttur, f. 17. desember 1927, d. 21. apríl 2013.
Börn Diðriks og Guðfinnu eru: 1) Hans Pétur, f. 27. júlí 1953, maki Karítas Þórný Hreinsdóttir, f. 27. júní 1964. 2) Jón, f. 17. júní 1955, maki Sonia Didriksson, f. 24. janúar 1959. 3) Kristjana, f. 29. mars 1958, maki Dieter Borchmann, f. 8. september 1960. 4) Jóhanna Margrét, f. 6. apríl 1960, maki Vilhjálmur Már Manfreðsson, f. 10. október 1957. 5) Vilhjálmur, f. 3. apríl 1962, maki Ágústa Ólöf Gunnarsdóttir, f. 18. febrúar 1959. 6) Ebba Salvör, f. 20. apríl 1966, maki Neil Meehan f. 14. janúar 1965.
Guðfinna átti fyrir Halldóru Jónsdóttur, f. 11. maí 1947, d. 29. september 2024, maki Methúsalem Þórisson, f. 17. ágúst 1946, d. 14. júlí 2013. Sambýlismaður Jóhann G. Jóhannsson, f. 22. feb. 1947, d. 15. júlí 2013.
Diðrik ólst upp í Hamborg á tímum mikillar uppbyggingar landsins og síðar her- og stríðsvæðingar. Sem ungur maður fór hann í búfræðinám í Neumünster sem bæði var bóklegt og verklegt. Í verklega náminu vann hann á ýmsum stöðum í Þýskalandi. Hann fluttist til Íslands árið 1951, þá ráðinn sem vinnumaður að Helgavatni í Þverárhlíð. Diðrik og Guðfinna ráku þar bú frá 1952 til 1990. Á árunum 1965 til 1973 ráku þau sauðfjárbú á Hermundarstöðum í sömu sveit. Diðrik sat í hreppsnefnd og í stjórn Veiðifélags Þverár um árabil. Búsetu héldu þau að Helgavatni allt til ársins 2010.
Útför Diðriks fer fram frá Borgarneskirkju í dag, 25. apríl 2025, klukkan 13. Jarðsett verður í Norðtungukirkjugarði í Þverárhlíð.
Sem barn voru algjör forréttindi að hafa ömmu og afa í næsta húsi. Minningarnar eru ótalmargar sem gott er að ylja sér við núna þegar afi hefur kvatt þessa jarðvist.
Afi var mikil fyrirmynd og bjó yfir miklum kostum. Í minningunni var hann mjög fyndinn og mikill húmoristi sem grínaðist með að selja okkur krakkana á svartamarkaði ef við værum ekki stillt. Einnig hafði hann sterkar skoðanir á alls konar tengdu uppeldi og hegðun okkar barnabarnanna, sem maður áttaði sig seinna meir á að átti rætur sínar í hans fortíð og mótun á stríðsárunum. Hann var þó alltaf mjög ljúfur og sanngjarn og sýndi það einna helst í umhyggju sinni og áhuga á því sem maður tók sér fyrir hendur.
Á fullorðinsárum mínum hefur viska hans og skynsemi komið sér einkar vel bæði í leik og starfi. Hann gat komið með góð ráð, stuðning, hvatningu og jú auðvitað gagnrýni þegar hún átti við. Þá gátum við hlegið saman yfir alls konar vitleysu og slúðrað um hitt og þetta. Afi var alltaf inni í flestum málefnum og við gátum spjallað um allt á milli himins og jarðar. Afi vildi alltaf vita hvað maður hefði fyrir stafni í vinnu og spurði alltaf út í börnin okkar sem mér þótti svo vænt um. Langafi Diðrik var líka partur af lífi minna barna og alveg eins og ég vissi nákvæmlega hvar afi geymdi nammidallinn heima á Helgavatni vissu mín börn það hjá langafa í Borgarnesi.
Elsku afi, takk fyrir allt, þangað til næst.
Þín
Guðfinna.
Diðrik Vilhjálmsson bóndi á Helgavatni er látinn. Mig langar að minnast hans með nokkrum orðum. Diðrik fæddist í Hamborg í Þýskalandi 22. júlí 1927. Hann nam landbúnað í Þyskalandi og að því loknu árið 1951 kom hann til Íslands. Dvölin á Íslandi varð lengri en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir. Á þessum tíma vantaði duglegt fólk til sveitastarfa á Íslandi. Svo fór að Diðrik réði sig til ráðsmennsku að Helgavatni í Þverárhlíð. Þar var að hefjast mikil uppbygging og ræktun og þar reyndist kominn réttur maður á réttan stað. Fljótlega eftir komuna til Íslands kynntist Diðrik Guðfinnu Jónsdóttur föðursystur minni og þau giftu sig árið 1952 og settust að á Helgavatni. Ég átti því láni að fagna að fá að dvelja hjá Finnu og Diðriki í átta sumur æsku minnar. Ég fór gjarnan strax og skólanum lauk á vorin og dvaldi fram yfir réttir á haustin. Mér leið vel hjá frænku minni og Diðriki. Mér var ungum trúað fyrir verkefnum sem ég taldi mig bera ábyrgð á og við það öðlaðist ég þroska. Ýmiss konar útistörf féllu í minn hlut á búinu og kynntist ég þar því sem einkenndi Diðrik hvað mest í mínum huga: reglusemi, aga og snyrtimennsku. Árið 2010 að loknu farsælu ævistarfi þeirra Finnu og Diðriks kvöddu þau Helgavatn og fluttu í íbúð sína í Borgarnesi. Þá voru synirnir Pétur og Vilhjálmur teknir við búinu. Guðfinna lést árið 2013 og síðustu ár ævinnar bjó Diðrik á elliheimilinu í Borgarnesi. Hann las íslenskar og þýskar bækur sem hann átti gott safn af. Einnig fylgdist hann vel með mönnum og málefnum alla tíð. Það var alltaf gaman að hitta Diðrik og tala við hann. Hann hafði sterkar og ákveðnar skoðanir á því sem bar á góma. Við hittumst síðast fyrir jólin í fyrra, þá var hann mjög hress að vanda. Að lokum langar mig að þakka þér, kæri Diðrik, fyrir samfylgdina og allt sem þú hefur gert fyrir mig í gegnum tíðina. Við Jóna sendum fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.
Guðmundur Eiríksson og fjölskylda.