Flateyri Faktorshúsið var reist á nítjándu öld og hefur gegnt mörgum hlutverkum í gegnum tíðina. Það er á tveimur hæðum með risi og tæpir 200 fm.
Flateyri Faktorshúsið var reist á nítjándu öld og hefur gegnt mörgum hlutverkum í gegnum tíðina. Það er á tveimur hæðum með risi og tæpir 200 fm.
Nýr eigandi Faktorshússins á Flateyri hyggst flytja húsið úr sjávarplássinu og finna því nýjan stað annars staðar á landinu, annaðhvort á Vestfjörðum eða utan þeirra, þar sem það verður gert upp. Hann hefur mikla trú á húsinu, sem er sögufrægt en komið til ára sinna

Hólmfríður María Ragnhildardóttir

hmr@mbl.is

Nýr eigandi Faktorshússins á Flateyri hyggst flytja húsið úr sjávarplássinu og finna því nýjan stað annars staðar á landinu, annaðhvort á Vestfjörðum eða utan þeirra, þar sem það verður gert upp. Hann hefur mikla trú á húsinu, sem er sögufrægt en komið til ára sinna.

„Þetta er verðugt og skemmtilegt verkefni. Það á mikið inni þetta hús,“ segir eigandinn, sem leitar nú að nýrri lóð fyrir „höfðingjann“.

Faktorshúsið stendur við Hafnarbakka 5 á Flateyri. Húsið er á tveimur hæðum með risi og telur tæpa tvö hundruð fermetra. Það var byggt árið 1892 sem gerir það annað elsta hús bæjarins. Það á sér langa sögu og hefur gengið undir ýmsum nöfnum, þar á meðal Kaupfélagshús og Oddahús. Húsið var upphaflega reist fyrir verslunarstjóra Ásgeirsverslunar á Ísafirði og var fyrst aðeins ein hæð með risi. Árið 1925 var það hækkað um aðra hæð. Húsið hýsti eitt sinn verbúð, og hlaut þá viðurnefnið Ástralía, en undanfarin ár hefur það verið heimili fyrir listatengda starfsemi.

Fyrir um sex árum varð Faktorshúsið fyrir miklum vatnsskaða og er það mjög illa farið og þarfnast endurbóta. Fyrri eigandi hússins, Arctic Oddi ehf., óskaði eftir því við Minjastofnun í maí árið 2021 að fá að rífa húsið, sem nýtur friðunar vegna aldurs. Óheimilt er að raska húsinu, spilla því eða breyta, rífa eða flytja úr stað nema með leyfi stofnunarinnar, skv. lögum um menningarminjar. Minjastofnun taldi mikilvægt að leitað yrði allra leiða til að varðveita húsið. Stofnunin lagði til að fagmaður yrði fenginn til að taka út ástand burðarviða hússins til að meta umfang skemmda og kanna hvort hægt væri að flytja húsið í heilu lagi af staðnum.

Verður mikill sómi að húsinu

Í október á síðasta ári eignaðist Nostalgía ehf. húsið þegar fyrirtækið festi kaup á safni fasteigna á Flateyraroddanum. Samkvæmt úttekt húsasmíðameistara eru ytri og innri klæðningar hússins mjög illa farnar af fúa og myglu og verða ekki endurnýttar. Burðarvirkið er enn nógu stöndugt til að hægt sé að varðveita það og flytja annað – og það er það sem Elías Guðmundsson eigandi Nostalgíu vill gera.

„Ég eignaðist mitt fyrsta hús til endurgerðar þegar ég var sautján ára og hef alla tíð síðan haft mikla ástríðu fyrir að sýsla með endurgerð á gömlum húsum eða byggja ný hús. Þetta hús er númer 64 í röðinni hjá mér og nokkur önnur hús hafa verið mun verr farin en þetta. Sjálfur bý ég í endurbyggðu húsi sem var mun verr farið en Faktorshúsið á Flateyri,“ segir Elías í samtali við Morgunblaðið.

Hann tekur fram að þótt húsið sé ekkert mikið fyrir augað núna sé með tíma og góðum vilja hægt að endurgera það í réttu umhverfi. „Þegar það er búið að taka til, rífa það sem er ónýtt innan úr húsinu og utan af því þá stendur bara mjög falleg og góð grind af húsi eftir. Það verður bara mjög mikill sómi að þessu húsi þegar búið er að laga það.“

Til greina kom að finna Faktorshúsinu nýjan stað í sínum heimabæ Flateyri en það gekk þó að lokum ekki upp. Stendur því nú leit yfir að nýrri fallegri lóð og segir Elías „allar ábendingar um góða lóð vel þegnar“. Ýmsir kostir hafa þegar verið skoðaðir, meðal annars í öðrum bæjum á norðanverðum Vestfjörðum. Elías segir þó lóðir í öðrum landshlutum koma til greina, en hann hefur m.a. skoðað kosti í Reykjavík og Borgarfirði.

„Það stendur fyrir dyrum að það fari frá Flateyri, verði híft um borð í skip og siglt með það í næstu höfn,“ segir Elías, sem vekur jafnframt athygli á því að þetta yrði ekki í fyrsta sinn sem sögufrægt hús í Önundarfirði er flutt landshornanna á milli og nefnir Ráðherrabústaðinn, sem nú stendur við Tjarnargötu eftir að hafa verið fluttur í pörtum til Reykjavíkur og reistur á ný. Óráðið er hvaða hlutverki Faktorshúsið mun gegna á sínum nýja stað, hvort það verði nýtt undir atvinnustarfsemi eða einfaldlega sem fjölskylduheimili.

Einnig er óákveðið hvort Elías kemur sjálfur til með að fylgja endurbótunum úr vör eða hvort hans eina verkefni verði að sækja um leyfi, finna húsinu nýja lóð og flytja það á milli staða. Hann segir að ferlið muni eflaust taka nokkur ár. „Þetta ár fer bara í að hreinsa innan úr húsinu og gera það tilbúið til flutnings. Þetta gerist ekkert á neinum ljóshraða,“ segir Elías. „En þetta verður fallegt hús þegar búið er að gera það upp. Það mun sóma sér alls staðar.“

Höf.: Hólmfríður María Ragnhildardóttir