Björn Sigmundur Bjarnason fæddist í Hólakoti á Höfðaströnd 30. nóvember 1937. Hann lést á sjúkrahúsi Akureyrar 11. apríl 2025.
Foreldrar Björns voru Anna Margrét Guðbrandsdóttir, f. 13.9. 1908, d. 11.4. 1990, og Bjarni Marteinn Sigmundsson, f. 3.1. 1902, d. 6.8. 1987. Systkini Björns: Guðbrandur Þórir, f. 5.10. 1928, d. 5.9. 1991; Helga Sigurborg, f. 26.4. 1930, d. 29.12. 1988; Helgi Stefán, f. 7.7. 1941, d. 15.7. 1997, og Lúðvík, f. 20.6. 1943, d. 30.12. 1923. Eftirlifandi systir Björns er Anna Guðrún, f. 12.12. 1946, búsett í Vogum á Vatnsleysuströnd.
Maki Björns er Lilja Amalía Ingimarsdóttir, f. 24.7. 1939, hún er dóttir hjónanna Ingimars Jónssonar, f. 27.3. 1910, d. 4.12. 1955, og Sigrúnar Jónsdóttur, f. 6.3. 1911, d. 22.3. 1986.
Börn Björns og Lilju eru: 1) Linda, f. 7.12. 1963, maki Bjarni Bragason, f. 15.5. 1963. Börn þeirra eru a) Lilja Rún, f. 30.6. 1986, maki Einar Kári Magnússon, f. 18.11. 1984, börn þeirra eru Baldur Freyr, Andri Fannar og Heiðdís Embla. b) Aron Daði, f. 31.5. 1991, maki Tinna Ólafsdóttir, f. 7.4. 1989, þau eiga dótturina Úlfhildi Unu. c) Tanja Rut, f. 17.10. 1992, maki Símon Böðvarsson, þau eiga saman soninn Ara Hauk. 2) Rúnar Ingi, f. 21.2. 1965, d. 16.8. 1980. 3) Smári, f. 10.2. 1975, maki María Jóhannsdóttir, f. 6.12. 1989, börn Smára frá fyrra sambandi eru a) Amalía Rún, f. 13.11. 1999, maki Guðjón Alex Guðjónsson, f. 29.4. 1999, þau eiga saman soninn Björn Reyni. b) Arnór Ingi, f. 3.11. 2003. c) Aldís María, f. 5.5. 2008. Börn Smára og Maríu eru Jóhann Thór, f. 9.12. 2020, og Hrafntinna Mist, f. 12.12. 2023.
Björn ólst upp við almenn sveitastörf, fór ungur á vertíðir en lengst af starfaði hann við stjórnun vinnuvéla og bifreiðaakstur.
Útför fer fram í Sauðárkrókskirkju í dag, 25. apríl 2025, klukkan 14.
Elsku pabbi. Við áttum ekki margar samverustundir þegar ég var yngri og það var erfitt að lesa í tilfinningar þínar, engu að síður vissi ég að þér þætti vænt um mig. Þú upplifðir margvísleg áföll í gegnum tíðina en þú barst það ekki utan á þér.
Þú fórst þínar eigin leiðir og varst stundum harður, en svarti húmorinn þinn var aldrei langt undan. Þú hafðir áhuga á lestri og safnaðir vísum og skrifaðir þær niður, og fylgdist vel með því sem gerðist í kringum þig. Á síðustu árum, með tilkomu barnabarnanna, mildaðist þú og lagðir þig eftir að koma í heimsókn og stoppa hjá okkur. Rúntur í sveitina varð daglegt brauð hjá þér, þú fylgdist vel með því sem gerðist hjá okkur Bjarna og varst tilbúinn að hjálpa til. Þegar þú tókst að þér verkefni varst þú svo hrókur alls fagnaðar.
Þegar þú veiktist síðasta vor hélt ég að að ég væri að kveðja þig í hinsta sinn áður en við Bjarni fórum til Færeyja. En þú hresstist ótrúlega, áttir mjög gott tæpt ár og varðst eiginlega meiri töffari og jákvæðari gagnvart lífinu.
Flugumýri var þinn staður og þar voru félagar þínir. Þar áttuð þið mamma bústað sem þú sinntir af alúð og var þér mikils virði. Þar áttir þú þínar bestu stundir.
Elsku pabbi, ég þakka þér fyrir samveruna og hjálpina sem þú varst alltaf tilbúinn að veita í sveitinni á þessum 30 árum sem við Bjarni höfum verið þar, auk áhugans sem þú sýndir alltaf á því sem við vorum að gera þar.
Skál, pabbi, og við tökum eina Stellu þegar við hittumst á ný.
Sveitina mína vil ég sjá
um sumardaga bjarta.
Í sálu minni er heimþrá
og sorg í mínu hjarta.
(Breki Mortensen Einarsson)
Þín
Linda.
Það er erfitt að finna réttu orðin þegar einhver sem maður elskar svona mikið er farinn. Hjartað er fullt af þakklæti, söknuði og minningum sem við systkinin – Amalía, Arnór, Aldís, Jóhann og Hrafntinna – geymum og munum alltaf bera með okkur.
Afi var ekki maður margra orða, en hann þurfti þess heldur ekki. Það var ákveðin ró í kringum hann sem maður fann alltaf svo vel. Ég á svo margar góðar minningar sem tengjast honum sem ég geymi í hjarta mér, mörg augnablik sem lifa áfram með mér og gefa mér styrk.
Fyrir mér var hann ekki bara afi – hann var ein af mikilvægustu fyrirmyndunum í mínu lífi. Hann var alltaf til staðar, hlýr, traustur og styðjandi. Ég gat ávallt treyst á hann, og hann hafði djúp áhrif á mig sem mótuðu mig til framtíðar. Þess vegna stóð aldrei annað til, þegar ég eignaðist minn fyrsta son – hann átti að heita Björn, honum til heiðurs. Þótt söknuðurinn sé mikill finn ég líka frið í þeirri hugsun að þú sért nú kominn til þeirra sem fóru á undan – sonar þíns, vina þinna og þeirra sem þú elskaðir og saknaðir.
Ég trúi því að þið hafið nú fundið frið, og mér finnst huggun í þeirri hugsun að þú sért enn með okkur – ekki lengur sýnilegur, en alltaf nálægur í hjarta og passar okkur.
Þín
Amalía Rún.
Elsku Bjössi, afi barnanna minna, er fallinn frá.
Bjössi var ekki maður margra orða en hlýjan og nærveran hans áttu sér aðra, hljóðlátari tjáningu. Þeir sem þekktu hann vissu að á bak við rólyndið bjó næmur og hjartahlýr maður, sem vildi öðrum vel.
Ég á dýrmæta minningu sem mér þykir vænt um að rifja upp. Þegar elsta barnið mitt, Amalía Rún, var aðeins nokkurra mánaða gömul heimsóttum við Smári þau Bjössa og Lilju á Grundarstígnum. Amalía Rún var með eyrnabólgu og hafði grátið alla nóttina. Ég þurfti að hlaupa út í apótek eftir verkjalyfi, en þurfti einhvern til að gæta hennar á meðan en það var enginn heima nema Bjössi afi. Bjössi sagðist ekkert kunna á svona ungbörn og væri ekki rétti maðurinn í ungbarnapössun – en ég hlustaði ekkert á það, lagði bara stúlkuna mína organdi í fangið á honum þar sem hann sat með Moggann í höndunum.
Þegar ég kom til baka var húsið hljótt. Í stofunni sat Bjössi enn, með Amalíu Rún sofandi í fanginu. Hann hreyfði sig ekki á meðan hún svaf – vildi ekki raska friðinum. Þar svaf hún áfram í góðum og hlýjum faðmi afa síns, og frá þeim degi voru þau óaðskiljanleg – afi Bjössi og Amalía Rún.
Ég er þakklát fyrir kynni mín af Bjössa, og það að hann skyldi verða afi barnanna minna. Minningin um hann lifir áfram – ekki aðeins í hjörtum þeirra sem hann elskaði, heldur líka í nýju lífi. Amalía Rún mín hefur eignast son sem ber nafn langafa síns – Björn Reynir. Bjössi afi var að sjálfsögðu viðstaddur skírn drengsins og stoltari mann hef ég ekki séð þegar nafnið var sagt upphátt í skírninni.
Nafn hans, hlýja og styrkur munu lifa áfram í þeim sem þekktu hann – og í litlum dreng sem nú ber nafn langafa síns.
Ég þakka þau ár sem ég átti,
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir)
Kristín Björg
Árnadóttir.