Gleði Heide Kielsen Olsen með trommuna. Hún nemur nú tónlist á Akranesi en hefur væntanlegu hlutverki að gegna í tónlistarlífi á heimaslóðum.
Gleði Heide Kielsen Olsen með trommuna. Hún nemur nú tónlist á Akranesi en hefur væntanlegu hlutverki að gegna í tónlistarlífi á heimaslóðum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kennari, skrifstofumaður, veiðimenn og trukkabílstjóri. Þetta er bakgrunnur þeirra góðu félaga sem skipa karlakórinn Saqqarsik frá Qaqortoq á Suður-Grænlandi sem nú er á Íslandi. Þeir hafa víða komið fram síðustu daga; voru í Hallgrímskirkju á síðasta degi vetrar og í gær meðal annars í Skálholti

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Kennari, skrifstofumaður, veiðimenn og trukkabílstjóri. Þetta er bakgrunnur þeirra góðu félaga sem skipa karlakórinn Saqqarsik frá Qaqortoq á Suður-Grænlandi sem nú er á Íslandi. Þeir hafa víða komið fram síðustu daga; voru í Hallgrímskirkju á síðasta degi vetrar og í gær meðal annars í Skálholti.

Í kvöld, föstudagskvöld, verður kórinn svo með tónleika í Vinaminni, safnaðarheimili Akraneskirkju, kl. 19.30 eftir móttöku í boði bæjarstjórnar á Skaganum. Þar koma einnig fram Karlakórinn Söngbræður úr Borgarfirði undir stjórn Viðars Guðmundssonar og Smaladrengir, sem eru afsprengi Karlakórs Kjalnesinga. Raunar má geta þess að Qaqortoq er vinabær Akraness og má því segja að Grænlendingarnir séu hér í opinberri heimsókn.

Gefandi menningarstarf

Karlakórinn Saqqarsik er tuttugu ára um þessar mundir. Stjórnandi kórsins er Angerdla Kielsen-Olsen, sem er þekktur trúbador á Grænlandi. Efnisskráin er líka fjölbreytt; þjóðlög, kirkjutónlist og dægurlög, meðal annars eftir stjórnandann sem einnig útsetur. Og rúsínan í þessum pylsuenda er þegar Heide Kielsen Olsen slær galdratrommuna. Sterk hefð er fyrir slíkri spilamennsku á Grænlandi og þarna slær Heide ekki af. Takturinn er öruggur og söngur kórsins fallegur.

Hinir grænlensku söngmenn hafa verið hér í samstarfi við Hilmar Örn Agnarsson tónlistarmann, sem síðustu árin hefur unnið að eflingu menningarstarfs á Suður-Grænlandi. Þar kemur til stuðningur frá námufyrirtækinu Amarok þar sem Íslendingurinn Eldur Ólafsson er í forystu.

Miklir hæfileikar

„Eldur var forðum hjá mér í barnakór í Biskupstungum. Í núverandi starfi sínu vildi hann koma skemmtilegu til leiðar á Grænlandi og varð þá hugsað til þess tónlistarstarfs sem var austur í sveitum á mínum tíma þar. Á þeim anda höfum við starfað á Grænlandi síðustu ár,“ segir Hilmar Örn og að síðustu:

„Við Björg Þórhallsdóttir eiginkona mín höfum farið nokkrar ferðir út til Grænlands á síðustu misserum vegna þessa menningarstarfs og höldum því áfram. Sjálfur er ég svo organisti við kirkjuna á Akranesi og þá koma til vinabæjartengslin við Qaqortoq. Trommarinn í kórnum, hún Heide, hefur einmitt verið í námi á Skaganum að undanförnu og vonandi kemur hún inn í tónlistarlífið á Grænlandi á næstu árum með alla sína þekkingu og hæfileika.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson