Gasa Leitað í rústum byggingar sem var hæfð í loftárás í gær.
Gasa Leitað í rústum byggingar sem var hæfð í loftárás í gær. — AFP/Omar Al-Qattaa
Viðbragðsaðilar á Gasaströndinni segja Ísraelsher hafa drepið minnst 55 í loftárás í gær. Herinn hefur hótað enn umfangsmeiri árás verði gíslunum, sem numdir voru á brott í október 2023, ekki sleppt úr haldi Hamas-hryðjuverkasamtakanna í bráð

Viðbragðsaðilar á Gasaströndinni segja Ísraelsher hafa drepið minnst 55 í loftárás í gær. Herinn hefur hótað enn umfangsmeiri árás verði gíslunum, sem numdir voru á brott í október 2023, ekki sleppt úr haldi Hamas-hryðjuverkasamtakanna í bráð.

Herinn hefur samhliða þessu skipað íbúum í norðurhluta Gasa að rýma svæðið vegna skipulagðra árása á það.

Í yfirlýsingu almannavarna á Gasa kom fram að sex úr sömu fjölskyldu, par og fjögur börn þeirra, hefðu látið lífið í árás á Gasaborg snemma í morgun. Að sögn ættingja þeirra voru þau sofandi þegar Ísraelsher lét til skarar skríða.

Þá létust níu í árás á byggingu sem áður hýsti lögreglustöð á Jabalasvæðinu í norðurhluta Gasa. „Allir byrjuðu að hlaupa og öskra,“ segir Abdel Qader Sabah íbúi Jabala.

Ísraelsher segist hafa hæft stjórnstöð Hamas á svæðinu en tók ekki fram hvort átt væri við lögreglustöðina.