Magnús Friðriksson fæddist á Hálsi í Svarfaðardal 31. janúar árið 1947. Hann lést á Tenerife 20. mars 2025.

Magnús var sonur hjónanna Guðrúnar Jónínu Þorsteinsdóttur, f. 4.12. 1917, d. 5.1. 2018, og Friðriks Magnússonar, f. 23.7. 1916, d. 10.3. 2003. Börn þeirra hjóna: Þorsteinn, f. 9.9. 1945, d. 18.1. 1997, Magnús, f. 31.1. 1947, d. 20.3. 2025, Sveinn Jóhann, f. 25.6. 1952, d. 31.10. 2005, og Arnfríður f. 12.2.1961.

Magnús kvæntist Rósfríði Maríu Káradóttur hjúkrunarfræðingi, f. 6.6. 1948, hinn 3. júlí 1971. Börn Magnúsar og Rósfríðar eru: 1) Friðrik viðskiptafræðingur, f. 14.12. 1970, eiginkona Vilborg Mjöll Jónsdóttir lyfjafræðingur, f. 30.6. 1969. Börn þeirra eru Hugrún María, f. 8.12. 1995, Magnús Baldvin, f. 2.7. 2001, og Jón Stefán, f. 10.10. 2003. 2) Kári byggingafræðingur, f. 8.11. 1971, eiginkona Valgerður Frímann Karlsdóttir tækniteiknari, f. 26.4. 1975. Börn þeirra eru Steinar Logi, f. 12.11. 2001, Fannar Breki, f. 3.11. 2005, og Jökull Máni, f. 11.10. 2010.

Magnús öðlaðist meistararéttindi í bókbandi árið 1974 og starfaði hjá Prentverki Odds Björnssonar og Ásprenti/POB á Akureyri.

Útför Magnúsar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 25. apríl 2025, klukkan 13.

Í dag kveðjum við pabba og afa Magnús. Þú sem varst fullur af orku og krafti þegar við hittumst í lok febrúar. Þú sem varst góður við alla, boðinn og búinn að aðstoða vini og vandamenn og varst okkur bræðrum góð fyrirmynd. Það var alltaf gaman að fá þig í heimsókn til Reykjavíkur eftir að ég flutti suður. Eftir að þið mamma voruð búin að útrétta í borginni, hvort sem það var að kaupa efni fyrir bókbandsverkefnin eða annað, þótti þér svo gott að fara aftur heim til Akureyrar. Tónlistaráhuginn kviknaði snemma hjá pabba. Honum þótti alltaf svo gaman að syngja bæði í kórum og á mannamótum. Ungur gekk hann til liðs við Karlakór Akureyrar og söng um svipað leyti með Kirkjukór Lögmannshlíðarsóknar. Söngferill pabba var langur og fjölbreyttur, hann var félagi í Karlakór Akureyrar Geysi, Kór Glerárkirkju og Kór Akureyrarkirkju. Hann var einstaklega samviskusamur kórmaður og lagði sig alltaf allan fram við sönginn sem og annað sem hann tók sér fyrir hendur. Ég dáðist að úthaldinu og samviskuseminni hjá þér sem því fylgdi að syngja í messum á sunnudögum og á stórhátíðum og seinna við jarðarfarir. Og svo söngst þú einnig í brúðkaupinu okkar, lagið „Love me tender“, í Laufáskirkju fyrir 30 árum. Nú syngjum við fyrir þig.

Þið mamma kennduð okkur svo margt og við gerðum svo margt skemmtilegt saman. Það var gaman hjá okkur í bústaðaferðum á Suðurlandi og í útilegunum, fyrst í tjaldi og svo með tjaldvagninn. Þið nutuð ykkar svo vel í bústaðnum Kjarrholti í Bárðardal við skógrækt og smíðar. Þið voruð dugleg að ferðast og fóruð víða erlendis með ykkar góðum vinum. Missir okkar er mikill, en eftir sitja góðar minningar um góðan vin, pabba og afa.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Við söknum þín. Takk fyrir allt.

Friðrik, Vilborg

og börn.

Elsku Magnús.

Það er erfitt að setja í orð hversu mikið þú hefur þýtt fyrir okkur öll. Þú varst vinur og góður leiðbeinandi. Alltaf tilbúinn að hjálpa með styrk sem virtist aldrei dvína.

Söngur var þér kær. Bústaðurinn þinn var þitt athvarf, staður þar sem þú naust náttúrunnar og róarinnar. Þú kunnir að njóta lífsins, hvort sem það var á hlýjum sumardögum eða í ævintýrum á ferðalögum erlendis.

Þú vart hraustur og ötull, alltaf tilbúinn að rétta hjálparhönd. Við munum sakna þín, ráðlegginganna þinna og þeirrar rósemdar sem þú færðir með þér.

Takk fyrir allt sem þú gafst. Minningin um þig lifir í hjörtum okkar, í söngnum, ferðunum, gleðinni og samverunni.

Hvíldu í friði.

Vilborg Mjöll Jónsdóttir.