Baksvið
Stefán E. Stefánsson
ses@mbl.is
„Þetta er hér úti um öll tún.“ Þannig bregst Bjarni Haukur Bjarnason, bóndi á Kálfafelli í Suðursveit, við fyrirspurn blaðamanns þegar slegið er á þráðinn austur og spurt um stöðu helsingjans á svæðinu.
Segir hann að líkja megi tegundinni við plágu á svæðinu vegna þeirra áhrifa sem hún hefur orðið á vistkerfið í sveitinni.
Helsingjar voru fátíðir hér framan af 20. öldinni en árið 1964 varð varps af þeirra hálfu fyrst vart í Breiðafirði. Árið 1988 fundust þeir á hreiðrum á hólmum á Jökulsárlóni og síðan þá hefur uppgangurinn verið nær stöðugur.
Gríðarleg fjölgun
Samkvæmt upplýsingum á fuglavefnum hefur stofnstærð hins svokallaða Grænlandsstofns farið mjög vaxandi og að frá 1959 og til ársins 2013 hafi hann vaxið úr 8.300 fuglum í ríflega 80 þúsund. Þá leiddi rannsókn sem Náttúrustofa Suðausturlands stóð að árið 2014 í ljós að hreiðrum helsingja í Austur-Skaftafellssýslu hafði fjölgað úr 40 í 509 á fimm ára tímabili frá 2009 til ársins þegar rannsóknin fór fram. Fjórum árum síðar voru hreiðrin orðin á annað þúsund talsins.
Segir Bjarni Haukur að þá þegar hafi bændur merkt áhrifin af samkeppni við helsingjann og að fyrrnefnd rannsókn hafi raunar staðfest það. Hins vegar hafi ástandið haldið áfram að versna og til muna síðustu tvö árin.
„Þetta voru fáein pör en svo fór þetta að versna ár frá ári og pörunum fjölgaði og fjölgaði. Síðustu tvö árin á þessu svæði hjá okkur er þetta orðið alveg stjórnlaust,“ segir Bjarni Haukur.
Ekki nýrækt
„Bændum er gefinn kostur á að sækja bætur vegna afurðatjóns. Ég hef sótt um í mörg ár og ég fæ ekki krónu því þetta er ekki nýrækt. Þetta halda greinilega að það kosti ekki peninga að halda þessu við og bera á túnin,“ segir hann.
Spurður út í hvað sé til ráða segir hann að veiða þurfi meira af fuglinum. Þá væri einnig hægt að grípa til ráðstafana ef hægt væri að komast í egg hjá varpfuglinum.
Menn hafa veitt mikið af gæsinni í gegnum tíðina og sú var tíðin að hún var grisjuð á þeim tíma sem hún var í sárum. Það þótti ekki tiltökumál. En núna má ekki snerta við helsingjanum nema að litlu leyti, jafnvel þótt engin rök séu fyrir því,“ segir Bjarni Haukur og honum er augljóslega mikið niðri fyrir vegna þessa.
Ber ekki saman
Veruleikinn sem Bjarni Haukur lýsir nú er nokkuð á skjön við það sem lesa má af heimasíðu Umhverfisstofnunar frá síðasta hausti. Þar er bent á að helsingjum af Austur-Grænlandsstofni, sem sá íslenski tilheyri, hafi fækkað hratt, ekki síst vegna bráðrar fuglaflensu.
Í dag gilda þær reglur að veiða má helsingja hér á landi frá 1. september til 25. september. Hins vegar er tímabilið styttra í Austur- og Vestur-Skaftafellssýsum, þar sem ágangur fuglsins er þó hvað mestur. Þar er tímabilið frá 10.-25. september. Þá er einnig í gildi sölubann á bráðinni og er það á heimasíðu Umhverfisstofnunar sagt tímabundin breyting fyrir árið.
Hreindýrin leggja einnig sitt af mörkum
Fleiri um hituna
Bjarni Haukur segir að þótt helsinginn sé aðalskaðvaldurinn á svæðinu þá spili fleiri þættir inn í. Þannig séu um hundrað hreindýr á jörð hans eða í námunda við hana.
„Þau leita hér inn á túnin. Þau eru mjög skæð. Þetta eru nokkrir hópar, reyndar misfjölmennir, en þau mæta í janúar og kroppa túnin. Þau eru í raun búin að kroppa talsvert áður en helsinginn mætir svo til leiks í apríl. Og þau fara ekki fet. Tarfarnir eru þaulsætnastir og þeir láta sig jafnvel ekkert hverfa fyrr en maður mætir bara á sláttuvélinni,“ segir Bjarni Haukur.