Ragnar Vestfjörð Sigurðsson fæddist á sjúkrahúsinu á Ísafirði 17. janúar 1945. Hann lést í sjúkraflutningabíl á leið sinni á líknardeildina 16. apríl 2025.

Foreldrar hans voru Matthildur Valdís Elíasdóttir, f. 21.3. 1923, d. 23.2. 2018, og Sigurður Hjálmar Þorsteinsson, f. 6.3. 1918, d. 9.9. 1984.

Systkini Ragnars eru Hafþór (látinn), Elías, Þorsteinn, Sigþór (látinn) og Hjördís.

Eftirlifandi eiginkona Ragnars er Þórunn Kristjónsdóttir, f. 15.2. 1950, en þau gengu í hjónaband 9. desember 1982.

Saman eiga þau eina dóttur, Sigríði Ritu, f. 28.4. 1985, og á hún þrjú börn með Gunnari Mikael: Ritu, f. 2006, Rebekku, f. 2008, og Mikael Kára, f. 2015.

Fyrir átti Þórunn þrjú börn sem Ragnar gekk í föðurstað: 1) Helga Jóna, f. 4.1. 1976, og á hún þrjú börn með Óskari, Svanberg, f. 1997, Vilmar, f. 1999, og Vöndu, f. 2009. 2) Baugur, f. 26.2. 1972, og á hann eina dóttur með Helgu Ösp, Jóhönnu Ösp, f. 1996, sambýlismaður hennar er Oddur, f. 1998, og eiga þau soninn Ara, f. 2023. 3) Steinn, f. 25.9. 1968. Eiginkona hans er Súsanna, f. 1969, og saman eiga þau þrjú börn, Helgu Rut, f. 1994, og tvíburana Hinrik Snæ og Þórdísi Evu, f. 2000.

Ragnar fæddist á Ísafirði og bjó fyrstu tvö árin á Neðri-Miðvík í Aðalvík. Þaðan flutti fjölskyldan í Granaskjól, þar sem þau bjuggu í nokkur ár en síðar fluttu þau á Skólabraut á Seltjarnarnesi, í hús sem faðir hans byggði. Fullorðinsár Ragnars bjó hann í Vesturbæ Reykjavíkur, en líkt og faðir hans byggði hann einnig hús fyrir fjölskyldu sína, Lágholtsveg 9, þar sem þau bjuggu um árabil. Síðustu árin bjó hann á Reynimel 65, en átti einnig jörðina Tjörn í Þykkvabæ, æskuheimili Þórunnar.

Ragnar fór ungur til sjós og það átti vel við hann og hann sagði ófáar sögurnar af tíma sínum í þorskastríðinu, á varðskipinu Óðni. Síðar lauk hann við verk föður síns og kláraði smíði á fallegri trillu, sem hlaut nafnið Sigþór.

Þegar Ragnar hætti til sjós stofnaði hann sitt eigið fyrirtæki þar sem hann starfaði við smíðavinnu og almennt viðhald húsbygginga, en hann var sérlega vinnusamur og einstaklega iðinn og duglegur maður. Hann vann við smíðar fram á síðasta dag.

Afabörnin skipuðu ávallt stóran sess í lífi Ragnars og vissi hann fátt betra en að vera í kringum þau og var það svo sannarlega gagnkvæmt.

Vinnan og hestarnir voru hans áhugamál en hann var mikill dýravinur og sinnti hestunum sínum af mikilli alúð.

Útför Ragnars fer fram frá Háteigskirkju í dag, 25. apríl 2025, og hefst athöfnin klukkan 13.00.

Elsku pabbi minn.

Orð fá því ekki lýst hversu sárt ég sakna þín.

Við vorum alltaf svo náin og þú varst mitt akkeri í lífinu.

Nú þegar akkerið er farið er erfitt að finna öryggið.

Mér finnst ég varla heil né hálf manneskja.

Þeir reru aðeins of hratt að sækja þig.

Elsku pabbi, ég veit að þú ert með þínu fólki sem tók vel á móti þér og ég veit að þú verður ávallt í hjarta mér.

Minningin um þig lifir að eilífu.

Ég elska þig.

Þín dóttir,

Sigríður Rita.

Ég kveð pabba minn með söknuði. Hann kom inn í líf mitt þegar ég var rúmlega eins árs gömul og gekk mér í föðurstað. Ég átti örugglega hraustasta og duglegasta pabba í heimi.

Hann var ekki pabbinn sem fór með mig á íþróttavellina eða í bíó, en hann fór ófáar ferðirnar með mig upp á slysó, en það stóð aldrei á því hjá honum að hjálpa til ef eitthvað var að. Hann var með risastórt hjarta og ef hann fann til meðaumkunar með fólki eða einhver var minni máttar var hann alltaf reiðubúinn að hjálpa til.

Pabbi var mjög stórtækur maður og minnumst við þess þegar hann sendi um 30 páskaegg til Danmerkur til að gefa bekknum hans Svanbergs og vakti þetta mikla gleði. Þetta gerði pabbi, án þess að tala við nokkurn mann og ekki einu sinni hana mömmu.

Ein af mínum uppáhaldsæskuminningum er þegar hann bað mig að hjálpa sér að tæma skottið á bílnum sínum. Ég var um fjögurra ára gömul og hafði verið iðin við að stela hjólinu af bróður mínum, við lítinn fögnuð hans. Ég var að leika mér en gaf mér þó tíma til verksins. Þegar við opnuðum skottið blasti við okkur fallegasta hjól sem ég hafði séð, glænýtt rautt Winter-hjól, sem var mitt. Gleðin varð slík að ég ber hana enn í brjósti mér.

Pabbi var góður afi og börnin mín áttu öll einlægt og fallegt samband við hann. Svanberg deildi með honum hestaáhuganum og þeir voru miklir vinir.

Pabbi og Vilmar voru báðir smiðir og þegar veikindin bönkuðu upp á var pabbi enn í fullu fjöri að vinna því hann ætlaði sér aldrei að deyja. Vilmar kom til Íslands til að hjálpa honum að klára þau verk sem afi hans var þegar byrjaður á og þótti afa hans afar vænt um það og fylgdist vandlega með verkum Vilmars. Hann skoðaði myndir og lagði blessun sína yfir unnin verk. Vanda hélt mikið upp á afa sinn, talaði við hann í síma og fannst fátt betra en að vera hjá afa og ömmu.

Pabbi ferðaðist ekki mikið en kom nokkrum sinnum til okkar fjölskyldunnar til Danmerkur og var hann ákveðinn í að koma til okkar í maí næstkomandi. Við erum viss um að hann verði sérlega mikið með okkur í anda í maí.

Það tók á að vera langt í burtu síðustu vikurnar hans en sem betur fer var hann umvafinn fjölskyldunni okkar, sem sýndi honum mikla hlýju, styrk og kærleik þegar halla fór undan fæti hjá honum. Mér þótti ólýsanlega vænt um að ná að koma til hans og vera með honum síðustu tvo sólarhringana. Ég kom heim á mánudagskvöldi og þegar ég heilsaði honum sagði hann við mig „það er eins gott að þú komst“. Þetta var eitt af því síðasta sem hann sagði og mun það lifa í hjarta mér um ókomin ár, líkt og margar aðrar góðar minningar sem ég á um hann.

Miðvikudaginn 16. apríl fórum við systurnar með pabba í hans hinstu bílferð, en leið okkar lá á líknardeildina en þangað ætlaði hann sér aldrei að fara. Þeir sem þekktu pabba vita það að það sagði honum enginn fyrir verkum og trúlega hefur hann sjálfur ákveðið að kveðja okkur á bílaplaninu við líknardeildina áður en hann náði þangað inn. Þetta var svo sannarlega í hans anda.

Takk fyrir allt, elsku pabbi… það var eins gott að ég kom.

Þín,
Helga Jóna.

Ragnar fóstri hefur nú kvatt þetta jarðlíf. Ragnar kom inn í líf mitt fyrir u.þ.b. 48 árum þegar hann og móðir mín Þórunn hófu sambúð. Við Ragnar náðum einstaklega vel saman og margar góðar minningar koma upp í hugann þegar ég kveð hann. Mér eru ofarlega í huga allir róðrarnir sem við Ragnar fórum í á Sigþóri RE 131 á Faxaflóa. Bátinn fékk Ragnar hjá föður sínum sem hóf smíðina en Ragnar lauk verkinu. Báturinn var dæmi um einstaka smíðahæfileika Ragnars og hann var sannkallaður þúsundþjalasmiður. Það má segja að allt hafi leikið í höndunum á honum og stærstan hluta starfsævi sinnar vann hann við smíðavinnu og tók að sér fjölbreytt verk á þeim vettvangi.

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að starfa á sumrin frá unglingsaldri með Ragnari meðan ég var í námi og stökk einstaka sinnum inn í verk með honum síðar á lífsleiðinni þegar tækifæri gafst. Þar naut ég leiðsagnar um allt sem tengdist smíðum, múrverki, málningu, hellulögn, o.fl. Ragnar tók einfaldlega að sér öll verk þar sem verkvit hans var einstakt og hann skilaði alltaf mjög vönduðu og nákvæmu verki. Sumarvinnan með Ragnari var mikil gæfa því þar lærði ég svo margt sem nýttist mér síðar þegar ég byggði fjölskyldunni minni heimili.

Ragnar var þrautseigur og mér er minnisstætt hvað hann var harður af sér, t.d. setti hann aldrei upp hanska í smíðavinnunni þó að frostið væri mikið.

Þegar Ragnar og mamma tóku alfarið við Tjörn, æskuheimili okkar mömmu í Þykkvabænum, kom í ljós hvað Ragnar var mikill bóndi í sér. Hann naut sín í sveitinni innan um hrossin sín og allar vélarnar sínar. Honum þótti fátt skemmtilegra en að vera með barnabörnunum í sveitinni. Svo má ekki gleyma dýrunum sem hændust mjög að Ragnari enda var hann mikill dýravinur.

Við systkinin vorum heppin að hafa Ragnar í lífi okkar og hann naut sín best þegar einhverjar framkvæmdir voru í gangi og nóg um að vera. Þar veitti hann góð ráð og leiðbeindi eins og þörf var á. Ragnar var með fulla starfsorku í upphafi þessa árs og því var það mikið áfall þegar hann greindist með alvarlegt krabbamein í byrjun febrúar. Hann var sannarlega ekki tilbúinn að fara og það sem nagaði mest samvisku hans var að geta ekki klárað verkin sem hann hafði tekið að sér. Mér fannst Ragnar alltaf ósigrandi því hann var í svo góðu formi og læknarnir sögðu að hann hefði skrokk á við sextugan mann en hann fagnaði 80 ára afmæli þann 17. janúar sl.

Nú er komið að leiðarlokum og ég kveð Ragnar fóstra minn með miklum söknuði. Hann var einstakur maður og ég er viss um að hann mun njóta sín í sumarlandinu við smíðar og önnur verkefni sem falla til.

Takk fyrir allt, elsku Ragnar, og heiðurinn var minn að fá að hafa þig við hlið mér nánast allt mitt líf.

Steinn

Jóhannsson.

Elsku fallegi, sterki og flotti afi minn kvaddi þennan heim 16. apríl. Ég get ekki lýst því með orðum hversu mikið mér þykir vænt um þennan mann, hann var alltaf svo góður sterkur og bestur.

Afi ég mun sakna þín og hugsa til þín á hverjum einasta degi og ég veit að þú munt hugsa til mín líka. Ég veit að mamma þín og pabbi tóku vel á móti þér og þú þarft ekki að finna til lengur. Ég hlakka svo til að hitta þig þarna hinum megin.

Ég vildi geta séð þig daga og nætur og heyrt frá þér einu sinni enn. Ég get ekki lýst því hvað ég var stolt af þér að berjast svona mikið. Ég þekki ekki betri manneskju en þig, þú ert besta sál.

Elska þig að eilífu,

Rita

Gunnarsdóttir.

Elsku afi. Mér finnst hálfóraunverulegt að skrifa minningargrein um þig, ég hélt alltaf að þú myndir lifa að eilífu, svo hress varstu. Þegar ég hugsa til baka koma margar góðar minningar upp í hugann t.d. ferðirnar sem þú og amma fóruð með okkur Jóhönnu Ösp í Baldurshaga þegar við vorum litlar og þá var auðvitað farið á brúna pick-upnum í sveitina.

Þegar ég byrjaði í lyfjafræði í HÍ bjó ég að hluta til hjá þér og ömmu á Reynimelnum. Þú kenndir mér þar að elda hafragraut því þér fannst algjört rugl að ég ætlaði ekki að borða morgunmat. Ég man líka hvað mér fannst þú alltaf vakna hrikalega snemma, en þú varst auðvitað að drífa þig í vinnuna enda fannst þér fátt skemmtilegra. Seinna flutti ég í Kópavoginn þar sem þú varst alltaf tilbúinn að hjálpa mér með hvað sem er, hvort sem það var að parketleggja íbúðina eða tengja uppþvottavélina, það var aldrei neitt vesen eða mikið mál fyrir þig.

Það var svo í lok janúar sem fór að halla undan fæti hjá þér heilsulega séð eftir að þú hafðir verið svo hraustur alla tíð. Við eyddum miklum og dýrmætum tíma saman þessa seinustu tvo mánuði bæði á Reynimelnum og þegar þú varst á Landspítalanum. Við náðum að tala um allt milli himins og jarðar og þú hikaðir ekki við að segja mér hvað þú værir stoltur af mér og þakklátur fyrir að ég væri með þér í veikindum þínum.

Elsku afi sem allt gat. Ég er svo þakklát fyrir að þú hafir verið afi minn og fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig. Ég gæfi mikið fyrir eitt þétt afaknús, en það bíður betri tíma.

Ljósið þitt að eilífu.

Helga Rut.

Þann 16. apríl þurfti ég að kveðja elsku besta afa minn. Þetta er það erfiðasta sem ég hef þurft að ganga í gegnum og örugglega það erfiðasta sem ég þarf að ganga í gegnum.

Ég vildi að afi minn hefði getað verið hér að eilífu. Það var svo gott að vera í kringum hann og ég fann svo mikið öryggi þegar ég var hjá honum. Afi var eins og pabbi minn og besti vinur minn.

Afi var svo mikill karakter og það var svo mikill kraftur í honum. Þar er svo erfitt að hann sé farinn, það er eins og það vanti eitthvað hér og mér líður eins og stór partur af mér sé dáinn.

En afi var orðinn svo rosalega veikur. Hann dó á leiðinni upp á líknardeild sjúkrabílnum með mömmu. Ef hann væri heilbrigður núna þá væri hann örugglega að fara í sveitina og ég hefði farið með honum.

Ég vildi óska þess að hann væri ennþá hérna hjá mér. Mig langar svo að halda í heitu og stóru höndina hans og horfa í augun hans og hlæja með honum og fara í bíltúr og skoða skipin við höfnina.

Ég veit að afi horfir yfir okkur og þykir mjög vænt um okkur. En ég held að engum hafi þótt svona vænt um börnin sín eins og honum þótti vænt um sín. Hann sagði við mig á spítalanum að ég þyrfti að passa mömmu því hann var með svo mikinn kvíða yfir að henni liði illa.

Ég heyrði hann segja „mamma“ þegar hann var alveg að fara að deyja og ég er viss um að mamma hans og pabbi hans taka vel á móti honum. Mig dreymdi nokkrum dögum áður en hann þurfti að kveðja að amma héldi í höndina á mér segði að fólkið hans vissi hvenær hann myndi deyja og hann þyrfti að fara til himnaríkis eftir 13 daga. Afi fær að hvíla núna í friði og þarf ekki að kveljast af verkjum lengur en ég veit að hann horfir alltaf yfir okkur og passar okkur, þótt við getum ekki séð hann þá er hann samt hérna og verður alltaf hér að horfa yfir okkur og hann verður alltaf í hjartanu mínu.

Elsku afi minn, fallegastur, duglegastur og bestur, gafst aldrei upp og vannst endalaust þangað til þú gast ekki meira og varðst veikur. Elsku afi minn, þín verður svo sárt saknað og þetta verður mjög erfitt en þetta er partur af lífinu og allir þurfa að ganga í gegnum þetta og maður verður bara að vera sterkur, hugsa jákvætt og halda áfram með lífið.

Ég er svo ánægð með að þú varst afi minn, svo rosalega þakklát fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og ég mun aldrei gleyma þér. Mér þykir svo rosalega vænt um allar minningarnar okkar saman og mun aldrei gleyma þeim.

Þú verður alltaf partur af mér, elsku afi minn. Nú færðu loksins að hvíla þig og vera með mömmu þinni og pabba og bræðrum þínum. Elska þig út af lífinu alltaf, elsku afi minn.

Kveðja, Bekka bjútí bleika þín,

Rebekka.