Sesselja Guðrún Kristinsdóttir fæddist í Reykjavík 10. febrúar 1935. Hún lést á líknardeild Landakotsspítala 9. apríl 2025.

Foreldrar hennar voru Kristinn Ágúst Eiríksson járnsmiður, f. 19.8. 1908, d. 6.11. 1972, og Helga Ólöf Sveinsdóttir húsmóðir, f. 31.10. 1910, d. 17.3. 1977. Systkini Sesselju eru Eiríkur, f. 25.5. 1941, d. 5.9. 1983, og Anna, f. 11.3. 1946.

Eiginmaður Sesselju var Gunnar Hans Pálsson byggingarverkfræðingur, f. 17.12. 1935, d. 2.3. 2023. Foreldrar hans voru Páll Þorsteinsson verkamaður, frá Hofi í Öræfum, f. 7.4. 1901, d. 4.9. 1981, og Guðrún Hansdóttir húsmóðir, frá Þúfu í Landsveit, f. 21.7. 1895, d. 15.10. 1980.

Gunnar og Sesselja giftust 5. september 1959. Börn þeirra eru tvö: 1) Guðrún matvælafræðingur, f. 19.3. 1957. Maki Þór Sigurjónsson byggingarverkfræðingur, f. 2.11. 1955. Börn þeirra eru a) Hrund fjölmiðlakona og upplýsingafulltrúi, f. 11.6. 1981. Maki Óskar Páll Elfarsson vörustjóri og ljósmyndari og eiga þau tvö börn, Sunnu Karen 9 ára og Sölva Berg 6 ára. b) Freyr véliðnfræðingur, f. 21.7. 1986. Maki Eva Hlín Hermannsdóttir líffræðingur og eiga þau þrjá syni, Ísak Hrafn 14 ára, Bjarka Fannar 11 ára og Arnar Jökul 5 ára. c) Sunna, f. 23.3. 1990, d. 20.2. 2004. 2) Steinþór Örn húsasmíðameistari, f. 19.2. 1973. Maki Sonja Björk Dagsdóttir grunnskólakennari, f. 9.12. 1974. Börn þeirra eru a) Birnir Mar, f. 17.5. 2011, og b) Dagmar, f. 13.1. 2013.

Sesselja ólst upp í Vesturbæ Reykjavíkur og gekk í Landakotsskóla, Miðbæjarskólann, Melaskóla, Kvennaskólann í Reykjavík og lýðháskóla í Svíþjóð. Einnig lærði hún hraðritun. Sesselja starfaði víða við til að mynda ritarastörf, vélritun og bókfærslu en lengst af vann hún á Fasteignasölu Vagns Jónssonar og sem ritari skólameistara Iðnskólans í Reykjavík. Sesselja og Gunnar bjuggu í um tvö ár í Danmörku þar sem hann lauk prófi frá Den Polytekniske Læreanstalt (DTU).

Áhugamál Sesselju voru fjölbreytt og stundaði hún alla tíð hreyfingu, svo sem göngur, hjól og sund. Hún lagði stund á hannyrðir og þá helst prjónaskap, vefnað og bútasaum auk þess sem hún lærði bókband. Þau hjón ferðuðust víða á yngri árum, ekki síst á þess tíma mælikvarða. Þá lagði Sesselja mikið upp úr fallegu heimili, eldamennsku og bakstri. Þau Gunnar byggðu sér hús í Hofgörðum á Seltjarnarnesi og sumarbústað við Þingvallavatn.

Sesselja var virk í félagsstörfum og var til dæmis formaður Norræna félagsins. Hún gekk í Góðtemplararegluna á barnsaldri og þar gegndu þau hjón embættum á sínum yngri árum og ráku stúkuna Unni númer 38. Sesselja gekk í Oddfellowregluna árið 1980 og var mjög virkur félagi þar í yfir 40 ár. Hún var í Bergþórustúku og gegndi þar ýmsum embættum, meðal annars embætti yfirmeistara.

Útför Sesselju verður gerð frá Seltjarnarneskirkju í dag, 25. apríl 2025, klukkan 13.

Þegar mér liggur mest á hjarta getur verið djúpt á réttu orðunum. Að kveðja ömmu Sesselju er erfitt, nánast óraunverulegt.

Þegar afi féll frá fyrir tveimur árum skrifaði ég í minningargrein um hann: „Afi og amma á Nesinu hafa verið fasti í tilverunni. Akkeri. Hjá þeim höfum við alltaf verið velkomin.“ Nú er þessum kafla lokið. Elsku amma er farin til afa.

Elsku amma sem kenndi mér að dansa Óla Skans í Afasveit.

Elsku amma sem alltaf passaði upp á að allir magar væru fullir.

Elsku amma, sem lítil ömmustelpa kúrði hjá á kvöldin og ruglaði svo mikið í krullunum hennar að litlir fingur festust ítrekað í hárinu á henni.

Elsku amma, sem var óhrædd við nýja tækni og elskaði að fylgjast með lífi okkar í gegnum dagleg „snöpp“.

Elsku amma, sem lét gott af sér leiða á svo margan hátt.

Elsku amma sem lék við börnin mín og gaf þeim sömu hlýju minningar og ég bý að alla ævi.

Elsku amma.

„Amma var fyndin, skemmtileg og einhvern veginn til í allt.“ Svona er upplifun barnanna minna af níræðri langömmu sinni enda var alveg sama hverju við stungum upp á að gera saman, svarið var alltaf já takk. Slík hreysti er ekki sjálfsögð enda var amma fyrirmynd í heilbrigðum lífsstíl.

Í fyrrnefndri minningargrein um afa skrifaði ég að nú myndum við halda áfram að skapa fallegar minningar með ömmu. Sá minningafjársjóður er stór og eftirminnileg er til dæmis dagsferð sem hún kom með okkur í á Suðurlandið. Þá fórum við meðal annars í fjöruferð og á mynd sem ég tók af henni þar er hún eins og ég ætla að muna hana; glöð og hraust, úti að gera eitthvað skemmtilegt með fólkinu sínu.

Eitt af síðustu skiptunum sem við amma náðum að spjalla saman bað ég hana að rifja upp síðari hluta bænar sem hún kenndi mér þegar ég var lítil. Eftir langa þögn fór hún með tvær fallegar línur, en ekki úr bæninni heldur úr sálmi sem ég þekkti ekki. Það reyndist vera „Þessi dagur nú úti er“ eftir Sigurð Jónsson úr Presthólum. Amma vissi í hvað stefndi og hún var þakklát fyrir fallegt líf.

Þessi dagur nú úti er

en náttartíð að höndum fer.

Guð minn góður, ég gef mig þér,

gættu nú enn í nótt að mér.

Almáttug hönd og ásjá þín

enn hefur náð og séð til mín.

Lof sé þér, Guð, fyrir' lán og hag,

lífið, heilsu og vernd í dag.

Elsku hjartans amma, takk fyrir allt.

Þín alltaf,

Hrund Þórsdóttir.

hinsta kveðja

Ég og litli bróðir minn kölluðum ömmu Sesselju vöffluömmu vegna þess að við fengum svo oft vöfflur hjá henni. Ég fékk líka oft að gista. Þá horfðum við á mynd seint um kvöld og fengum okkur ís, fórum á bókasafn, í ísbúð og hún las fyrir mig þegar ég fór að sofa.

Vöffluamma, ég elska þig.

Þitt Sunnukrútt,

Sunna Karen
Óskarsdóttir.