Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
„Það eru þrjátíu ár frá snjóflóðunum í Súðavík í janúar 1995 og Flateyri í október sama ár,“ segir Finnur Þór Vilhjálmsson, formaður rannsóknarnefndar Alþingis vegna snjóflóðanna á Súðavík.
Málþingið Ofanflóð 2025 verður haldið á Ísafirði dagana 5.-6. maí nk. þar sem fjallað verður um snjóflóð og samfélög. Snjóflóð og skriðuföll hafa valdið Íslendingum ómetanlegu tjóni og frá upphafi 20. aldar hafa 226 manns látið lífið vegna þeirra, þar af 173 í snjóflóðum. Á málstofunni verður sjónum beint að uppbyggingu snjóflóðavarna og áhrifum ofanflóða á samfélög í hættu.
Rannsóknarnefndin sem Finnur stýrir verður á málþinginu, en mun þar að auki dvelja í tvo daga fyrir vestan eftir þingið til að rannsaka gögn um snjóflóðið í Súðavík og ræða við íbúa á svæðinu.
„Við vildum gefa fólki kost á að ræða við okkur um snjóflóðið, og nota tækifærið fyrst við erum fyrir vestan að gera það,“ segir Finnur en bætir við að flestar skýrslutökur fari fram í Reykjavík.
Nefndin sem Alþingi skipaði um rannsókn á snjóflóðinu í Súðavík var stofnuð í nóvember á síðasta ári en tók til starfa í byrjun þessa árs. Starfssvið nefndarinnar er að kanna öll gögn um hvernig staðið var að ákvörðunum um snjóflóðavarnir, skipulagningu byggðar og upplýsingagjöf til íbúa Súðavíkur, auk þess að skoða aðkomu almannavarnaraðgerða og eftirfylgni stjórnvalda í kjölfarið og taka skýrslur af fólki á svæðinu. Nefndin mun skila álitsgerð á þessu ári.