Halldór Guðmundsson fæddist í Reykjavík 22. júní 1961. Hann lést á líknardeild Landspítalans 15. apríl 2025.
Foreldrar hans voru Guðmundur Eyjólfsson læknir, f. 8. september 1916, d. 23. júní 1983, og Guðríður Mýrdal Sigurjónsdóttir, f. 5. janúar 1919, d. 16. maí 1988.
Bræður Halldórs eru Sigurjón, f. 30. september 1949, kvæntur Aðalheiði Guðmundsdóttur, og Guðmundur, f. 26. nóvember 1955, d. 9. desember 2022.
Halldór kvæntist árið 1996 eiginkonu sinni Birnu G. Magnadóttur, f. 14. apríl 1968, og eiga þau tvö börn; Evu, f. 13. janúar 2000, og Emil Bjarka, f. 25. janúar 2001.
Halldór ólst upp í Hlíðunum og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð. Hann útskrifaðist síðan með BS-gráðu í eðlisfræði frá Háskóla Íslands. Halldór lagði stund á meistaranám í málmefnisfræði í Bandaríkjunum við Háskólann í Virginíu. Hann vann um árabil á Iðntæknistofnun (síðar Nýsköpunarmiðstöð Íslands) þar sem þau Birna kynntust. Halldór vann síðan mestan part af sinni starfsævi hjá Norðuráli á Grundartanga eða allt þar til hann varð að hætta sökum veikinda en á starfstíma sínum þar náði hann að bæta við sig annarri meistaragráðu frá háskólanum í Auckland á Nýja-Sjálandi.
Útför Halldórs fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 25. apríl 2025, klukkan 13.
Elsku besti, fallegi og trausti lífsförunautur og pabbi, kletturinn okkar, hefur fengið hvíldina sína. Síðustu fimm árin í lífi okkar eftir að Halldór greindist með ólæknandi lungnakrabbamein hafa verið sannkallaður rússíbani. Þar hafa skipst á skin og skúrir en allar fallegu minningarnar standa eftir.
Minningar um eiginmanninn sem alla tíð stóð með og studdi konuna sína í gegnum súrt og sætt. Um unga manninn sem kleif fjöll og firnindi, um föðurinn sem var að rifna úr stolti þegar börnin fæddust og yndislega manninn sem grætti alla kirkjugesti og prestinn með, þegar heitin voru endurnýjuð á 25 ára brúðkaupsafmælinu.
Minningar um hægláta yndislega manninn sem bræddi hjörtu tengdaforeldranna með hárfína húmornum sínum, minningar um allar gönguferðirnar, jafnt á tveimur jafnfljótum sem á spýtum, eins og hann kallaði gönguskíðin oftar en ekki, og um allar hjólaferðirnar jafnt innan lands sem utan. Minningar um öll ferðalögin og þá ekki síst fyrsta ferðalag Evu og Emils sem var alla leið til Nýja-Sjálands þegar þau voru bara þriggja og fjögurra ára. Flakk um þrjár heimsálfur sem varð til þess að í síðustu ferðinni til að fylgjast með einni af hans uppáhaldshjólakeppnum hitti hann og átti gott spjall við eitt af átrúnaðargoðunum. Hamingjusamari maður hefur varla gengið um þær grundir þann dag.
Minningar um pabbann sem lifði fyrir börnin sín. Lifði fyrir að sjá þau vaxa úr grasi og verða að heilsteyptu ungu fólki. Það er eins ósanngjarnt sem mest má vera að hann hafi verið sviptur því að fylgjast með þeim lífsáföngum sem þeirra bíða á sinni ævileið.
Minningarnar lifa nú þegar við kveðjum þig, elsku Halldór, elsku pabbi, þú verður í hjarta okkar þangað til við hittumst aftur.
Án þín
Lífið er grátt og framtíðin myrk.
Sorgin gnæfir yfir eins og svartur múr.
En minningarnar lýsa upp myrkrið eins og eldingar.
Við ristum með þeim orð í svartan múrinn.
Orð eins og…
Takk elsku pabbi.
Orð eins og…
Við munum alltaf elska þig.
Orð eins og…
Von og kærleikur að eilífu.
Orðin sem gefa okkur kraftinn til að halda áfram án þín.
Birna, Eva og Emil Bjarki.
Ég votta Birnu Guðrúnu og börnum hennar mína dýpstu samúð og öllum ættingjum og vinum Halla.
Ég vil með þessum fáu orðum kveðja minn kæra vin.
Leiðir okkar lágu saman í gagnfræðaskóla. Halli var frá fyrstu kynnum yfirvegaður og vandvirkur. Hann var hreinn og beinn. Sameiginleg áhugamál eins og íþróttir tengdu okkur saman. Við æfðum m.a. frjálsar íþróttir hjá KR í Laugardalnum. Einnig vorum við báðir frekar bókhneigðir og áhugasamir um tækni og vísindi. Á tímabili fórum við alltaf niður í bæ á föstudögum eftir hádegi, til að þræða bókaverslanir og fornbókaverslanir. Mikið var skoðað en minna keypt.
Bíóferðir voru líka ómissandi þáttur í tilverunni og ég man að einn dag fórum við fimm sinnum í bíó sama daginn, þ.e. kl. 3, 5, 7, 9 og 11. Bíómyndirnar voru ekki minnisstæðar en samveran var það.
Ferðalög til útlanda voru aðeins stunduð, sérstaklega á unglingsárunum. Við fórum til Lúxemborgar 16 ára gamlir og dvöldum þar í viku. Einnig fórum við síðar hring um Bandaríkin, með einum félaga okkar.
Við fylgdumst að í menntaskóla og síðar háskóla. Að skóla loknum kynntist Halli Birnu Guðrúnu sinni og síðar kynntist ég Guðrúnu Birnu heitinni, eiginkonu minni. Fjölskyldulíf og vinna tóku þá smátt og smátt ríkari tíma hjá okkur báðum og samverustundum fækkaði en þráðurinn hélt, í stórafmælum, giftingum, skírnum og fermingum.
Síðari árin fórum við að hittast aðeins meira oftast yfir hádegisverði til að spjalla um heima og geima, sem var alltaf gaman enda Halli fróður og stálminnugur.
Í minni minningu um Halla einkennir ekkert hann meira en máltæki sem hann notaði stöku sinnum, en lifði sjálfur eftir. „Aðgát skal höfð í nærveru sálar.“
Ég kveð þig með söknuði, en vona að ég sjái þig aftur, kæri vinur, þegar ég kem yfir móðuna miklu.
Kallið er komið,
komin er nú stundin,
vinaskilnaðar viðkvæm stund.
Vinirnir kveðja
vininn sinn látna,
er sefur hér hinn síðsta blund.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
Grátnir til grafar
göngum vér nú héðan,
fylgjum þér, vinur. Far vel á braut.
Guð oss það gefi,
glaðir vér megum
þér síðar fylgja' í friðarskaut.
(Valdimar Briem)
Þór Jes Þórisson.