Sigmar Guðmundsson
Sigmar Guðmundsson
Það liggur í hlutarins eðli að viðhorf okkar og þekking breytist með tímanum. Það sem þótti sjálfsagt og viðtekið fyrir nokkrum áratugum getur verið fullkomlega úrelt í dag. Sem betur fer hafa viðhorf samfélagsins til þeirra sem þjást af fíknisjúkdómnum breyst mikið

Það liggur í hlutarins eðli að viðhorf okkar og þekking breytist með tímanum. Það sem þótti sjálfsagt og viðtekið fyrir nokkrum áratugum getur verið fullkomlega úrelt í dag. Sem betur fer hafa viðhorf samfélagsins til þeirra sem þjást af fíknisjúkdómnum breyst mikið. Það sem áður þótti ístöðuleysi eða aumingjaskapur er í dag skilgreint sem sjúkdómur. Aukin þekking og rannsóknir hafa orðið til þess að fólk sem er illa haldið af áfengis- eða vímuefnafíkn er í dag lagt inn á spítala. Samfélagið reynir að styðja þessa einstaklinga til bata í stað þess að jaðarsetja. Vissulega ríkja enn fordómar sums staðar gagnvart þessum sjúkdómi en mikið hefur breyst til hins betra.

Það eimir þó enn eftir af gömlum hugsunarhætti í íslenskum lögum sem brýnt er að breyta. Það er til að mynda ákvæði í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sem þolir illa skoðun nútímans gagnvart veiku fólki.

Samkvæmt ákvæðinu er hægt að neita fíknisjúkum um framreikning lífeyrisgreiðslna ef rekja má orkutap til ofnotkunar áfengis, lyfja og vímuefna. Þetta er stundum nefnt ákvæði um sjálfskaparvíti. Þessum hugsunarhætti hefur blessunarlega verið útrýmt úr öðrum lögum enda undirstrikar hann úrelt sjónarmið um að fíkn í hvers konar vímugjafa megi rekja til skapgerðar hvers og eins. Að fólki sé það nánast í sjálfsvald sett hvort það ánetjist vímugjöfum eða ekki. Í dag vitum við að veruleikinn er talsvert flóknari og við refsum ekki fólki fyrir að vera með sjúkdóm. Það er almennt viðurkennt að fíkn beri ekki að meðhöndla sem sjálfskapað ástand heldur sjúkdóm sem á sér flóknar félagslegar, líkamlegar og hugrænar rætur.

Ég hef lagt fram frumvarp á Alþingi um að fella á brott þetta ákvæði enda er það löngu tímabært. Þeir sem sent hafa inn umsagnir um málið styðja þessa breytingu. Alþýðusamband Íslands, ÖBÍ réttindasamtök og Landssamband lífeyrissjóða taka undir að ákvæðið sé barn síns tíma. ÖBÍ tekur að auki undir það sjónarmið sem reifað er í greinargerðinni að verulegur vafi leiki á hvort það standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. ÖBÍ hefur enda lengi barist fyrir því að þessu ákvæði verði kastað á bálköst úreltra viðhorfa.

Höfðuð hafa verið mál fyrir dómstólum þar sem átti að láta reyna á lögmæti ákvæðis um sjálfskaparvíti. Í þeim málum hefur verið gerð dómsátt og því ekki komið til mats dómstóla á ákvæðinu. Það er því mikið réttlætismál að Alþingi grípi hér inn í og eyði út þessu úrelta lagaákvæði sem mismunar fólki. Grimmilega.

Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar. sigmar.gudmundsson@althingi.is